5. ágúst 2016

Í bókinni sem ég talaði um í fyrradag, Future Days, er feykilega áhugaverð umræða (kannski réttara að nefna það einræðu) um tónlist og hugmyndir á bakvið tilraunamennsku í tónlist. (Nei, líklega er réttara að tala um bókina sem umræðu, því höfundurinn leyfir mörgum öðrum röddum en sinni eigin að hafa orðið; hann vitnar mikið til annarra tónlistarsérfræðinga.) Ef mér fyndist ekki asnalegt að líkja einhverju við veislu, þá myndi ég hiklaust líkja þessari bók við veislu fyrir þann sem hefur áhuga á Stockhausen, Kraftwerk, Can, Eno, Bowie, osfrv. Og á Þýskalandi eftirstríðsáranna. Hér er til dæmis eitt sem mér þótti skemmtilegt að lesa: Jaki Liebezeit, trommuleikari hljómsveitarinnar Can, var ekki hrifinn af fríjazzi, því honum fannst frelsi þeirrar tónlistar, sem í augum iðkenda hennar mátti (og má) auðvitað ekki hvika frá – aldrei „slaka á“ frelsinu – í raun hefta hið tónlistarlega frelsi; hann upplifði mun raunverulegra frelsi í endurtekningasömum „lúputöktum“, hinum vélræna áslætti sem einkennir t.d. Can, Neu! eða Kraftwerk. Ég hafði aldrei hugsað um þetta á þennan hátt, en er alveg sammála Jaki Liebezeit. Annar trommuleikari, Sigtryggur Baldursson, hringdi í mig í gærmorgun. Erindið var ekki að ræða þessa bók sem ég var að tala um – Sigtryggur vissi ekki um hana, ekki fyrr en ég sagði honum frá henni í símtalinu – en hann sagðist nýlega hafa verið að endurnýja kynni sín af Krautrokki (Kosmische Musik), og hafa keypt sér einhverjar plötur með Can og Neu!. Neu! fannst Sigtryggi ekki alveg eins áhugaverð og hann minnti að hún væri; honum fannst sú hljómsveit hafa verið að míga eitthvað aðeins of mikið utan í Punk Musik, eins og hann orðaði það. Aftur á móti sagði hann mér að fjögurra ára dóttursonur hans væri alveg að meðtaka Neu! – að drengurinn hefði sagt við afa sinn: „Afi, þetta er flott músík!“ (Nú er ég ábyggilega að fara rangt með orðalagið hjá honum.) Unga manneskjan á mínu heimili hafði svipuð orð um aðra tónlist, sem ég var að spila í stofunni þegar hún var þriggja ára. Eric Dolphy var á fóninum, og í miðju bassaklarinettusólói sagði sú litla: „Þetta er fín músík.“ Ég varð mjög upp með mér, ekki bara yfir barninu, heldur líka sjálfum mér yfir að hafa látið mér detta í hug – og leyft mér – að spila Eric Dolphy fyrir svona ung eyru. Við Sigtryggur lukum símtalinu í gær á því að tala svolítið um þýska Schlager Musik, sem heldur betur er minnst á í bókinni fínu, Future Days, og í tilefni af því verður tóndæmi dagsins hinn óviðjafnanlegi Heino: