15. október 2016

Daginn áður en Bob Dylan var útnefndur sem næsti nóbelshöfundur í bókmenntum keypti ég mér bók í second-hand-bókabúð í Cambridge, Massachusetts, bara af því að hún var svo ódýr: Like a rolling stone – Bob Dylan at the crossroads, eftir Greil Marcus. Ég er „ævilangur“ aðdáandi Bobs, sérstaklega þeirra platna sem hann gaf út á árunum 1965 til 1976; en ef ég væri Bob Dylan – ef það gerðist allt í einu að ég væri hann, og hann ég – þá myndi ég gera það sama og Sartre gerði á sínum tíma, að afþakka heiðurinn. Mér finnst þetta misráðið. Ég er alveg sammála því sem Kristján B. sagði í útvarpsþættinum Lestinni í gær, að verk Bobs Dylan væru ekki bókmenntaverk. Og allt í lagi með það. En einmitt vegna þess finnst mér (og mig grunar að það muni gerast) að Bob Dylan eigi að afþakka kurteislega. (Barack Obama hefði líka átt að afþakka sín friðarverðlaun, finnst mér. Það var alveg nóg að heimsbyggðin frétti af því að nóbelsnefndin hefði hugsað til hans; það stenst engin rök að Bandaríkjaforseti taki á móti friðarverðlaunum.) Svo er líka miklu smartara af tónlistarmanni að senda frá sér kurteislega yfirlýsingu um að hann afþakki verðlaun fyrir bókmenntaverk. En nú verð ég afsaka mig (gagnvart sjálfum mér), því ég hef ekki tíma til að skrifa meira. Það er laugardagur. En fyrst ég hef minnst á Bob Dylan, þá ætti maður auðvitað að vera að hlusta á Bob Dylan þessa dagana. Ég „lenti aftur á móti í því að lenda“ í svolitlu nostalgíukasti vegna annars tónlistarmanns, bandarísks; ég keypti mér Born to run með Bruce Springsteen, í sömu búð og ég keypti bókina um Bob Dylan. Hún kostaði ekki nema 5.99 American Dollars. Ég held ég hafi síðast hlustað á Born to run, í heild, þegar ég var 17 eða 18. En þvílík plata. Ég ætla að leyfa mér að nota hæsta stigið: snilld. Ég er samt ekkert viss um að Bruce Springsteen sé snillingur (ekki á sama hátt og Arnold Schoenberg eða Eric Dolphy eða Miles Davis – sem ég veit reyndar ekki heldur hvort flokkist sem snillingar); en Born to run er svo fín plata að maður neyðist til að nota hæsta stigið. Auðvitað gerist það að fólk sem ekki er snillingar búi til eitthvað sem er snilld – eða á það skilið að vera verðlaunað með hæsta stiginu. Og talandi um hæsta stigið, þá er mér ljúft og skylt (hræðilegt orðalag; ég lofa að nota það ekki aftur) að benda á skrif Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um nýjustu útgáfu Smekkleysu, skáldsöguna Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Ég veit ég var búinn að lofa (sjálfum mér) að minnast á nokkrar aðrar nýútkomnar bækur, en aftur verður útgáfa Smekkleysu að ganga fyrir:

 

http://hugras.is/2016/10/freistingar-arkivunnar/