20. október 2016 (aukafærsla)

Í smásagnasafni sem ég er meðfram öðru að vinna að, á að vera saga sem fjallar um svolítið dularfullt fyrirbæri, einhvers konar sjálfkæfingu. (Reyndar er þetta smásagnasafn ekki beinlínis smásagnasafn, heldur bók sem fjallar um safn smásagna eftir höfund sem ekki er ólíklegt að sé ég sjálfur.) Ég nefni þetta hérna (í aukafærslu, vel að merkja) vegna þess að ég var að lesa í nýútgefnu smásagnasafni eftir Þórarin Eldjárn, Þáttum af séra Þórarinum og fleirum (ég fékk bókina lánaða hjá vini sem fékk hana senda frá ÞE – kannski er hún ekki enn komin út?); og í þessari bók Þórarins er brot sem á óbeinan hátt minnti mig á áðurnefnda sjálfkæfingu. Ég ætla að birta þessar línur hér, í algeru leyfisleysi (enda er ég alvarlega að bræða með mér að kjósa Pírata eftir rúma viku); þær er að finna í sögu sem nefnist Músin sem æðir; sagan gerist í Elko-búðinni, og segir frá því þegar sögumaður kemur auga á gamlan skólafélaga úr Mynd og hand í biðröðinni við afgreiðsluna:

 

Mér gafst því gott tækifæri til að stúdera Dúdda meðan við biðum. Það var tvennt eða þrennt á milli okkar í röðinni. Ég tók strax eftir því að hann var enn eftir öll þessi ár með sinn gamla kæk, að naga sífellt lausar húðflögur af vörunum. Ég gat fylgst vel með þessu alltaf þegar hann leit til hliðar og í framhaldinu fór ég að hugsa eitthvert rugl um að þannig ætti hann líklega eftir að éta sjálfan sig upp til agna með tímanum. Var þetta kannski einskonar hægfara konseptverk hjá honum? (Þættir af séra Þórarinum og fleirum, bls. 90)