14. nóvember 2016

Nú veit ég ekki hvort maður hefur leyfi til að segja frá því sem gerist á facebook, sé maður ekki skráður þar inn sjálfur, en ég frétti af því að Ari Eldjárn grínisti hefði rekið augun í myndina sem fylgdi þessum bókardómi í DV og sagt frá því á facebook að hann hefði eitt augnablik haldið að myndin væri af Brynhildi Guðjónsdóttur leikkonu. Hann er ekki sá fyrsti sem ruglast. Og ekki númer tvö eða þrjú. Kannski mátti ég ekki segja frá þessu, en ég mátti til. Þó ekki væri nema til að ýta burt þeirri freistingu að láta einhver orð falla um þau orð sem þegar hafa fallið um Bjarta framtíð og fundina sem þeir sitja þessa stundina. Myndefni dagsins (fyrir utan myndina sem fylgdi dómnum hér fyrir ofan) er af samskonar plötuspilara og ég átti þegar ég var unglingur í unglingaherberginu mínu. Ég fann þetta á bland punktur is, og dauðlangar til að eignast svona aftur. En mun ekki láta það eftir mér. Samt myndi þessi græja nýtast mjög vel sem vinnugagn í tengslum við verkefnið sem ég vinn að; ég gæti meira að segja skráð hana í bókhaldið sem kostnað. En samt. Ég ætla að láta mér nægja að horfa (og hlusta ekki á gömlu vínilplöturnar sem ég geymi í geymslunni).