19. desember 2016

Núna ætla ég að setja inn færslu í þeim eina tilgangi að koma að þýðingu Helga Hálfdanarsonar á ljóði Arthurs Rimbaud, Í GRÆNU KRÁNNI, klukkan fimm að kvöldi. „Í viku hafði ég hruflað mína skó,“ og svo framvegis. Ekki það að einhver tilgangur þurfi að réttlæta færslu á bloggsíðu (ef þetta er þá bloggsíða; ég er ekki viss um að hún flokkist sem slík); og ekki heldur það að einhver brýn þörf sé á að birta þýðingu Helga á ljóði Rimbauds. En svo langaði mig í leiðinni – og þar með er kannski kominn raunverulegur tilgangur með öllu saman – til að tala illa um jólabókaflóðið. Þetta er sem sagt orðið ansi gott upplegg sem ég er kominn með fyrir þennan „næsta kafla“. Ég fór í spjall í Ríkisútvarpinu í fyrradag; það fór fram í bókabúðinni í Austurstræti, og þar var samankominn heill hellingur af rithöfundum og þýðendum og tónlistarfólki. Ásamt Sölva Birni Sigurðssyni, Sigurði Pálssyni og Kristínu Svövu Tómasdóttur átti ég að spjalla um nýútkomnar ljóðaþýðingar. Kristín átti að tala um nýja þýðingu sína á kúbanska skáldinu Virgilio Piñera, Sigurður og Sölvi um Rimbaud og Willem M. Roggeman, og ég um þýðingar okkar fimmmenninganna (Olgu, Áslaugar, Óskars og Magnúsar) á Ewu Lipsku. Og þetta gerðum við, allt undir stjórn Jórunnar Sigurðardóttur. En áður en spjallið hófst, þá talaði ég aðeins við Sölva og Kristínu, og Arngunni Árnadóttur, og það samtal (sem ekki taldi nema á bilinu 100 til 120 orð) snerist nær eingöngu um það hversu vont fyrirbæri jólabókaflóðið væri. Nú þarf ég reyndar – í þessum skrifuðu orðum – að gera upp við mig hvort ég eigi að tjá mig eitthvað frekar um jólabókaflóðið umfram það sem ég gerði í félagsskap Sölva, Kristínar og Arngunnar. Ég hallast að því að svarið verði nei; að ég eigi ekki að tala meira um jólabókaflóð. Maður verður svo leiðinlegur (án þess þó að ég óttist það mjög að verða leiðinlegur – að vera leiðinlegur er eðlilegt ástand). Kannski nægir í þessu sambandi að minna á þá staðreynd að í þessu „hamingjusama“ flóði nóvember- og desembermánaðar hefur ekki verið skrifaður einn stakur stafur í fjölmiðlum um nýja ljóðabók Magnúsar Sigurðssonar, Veröld hlý og góð. Magnús gefur út hverja frábæra ljóðabókina á fætur annarri, á milli þess sem hann þýðir önnur ljóðskáld, en nánast ekkert er skrifað um þær bækur, á meðan hóað er í alla tiltæka starfsmenn fjölmiðlanna til að skrifa dóma (eða tilkynningar með stjörnugjöf) um hverja einustu glæpasögu sem rennur vélrænt gegnum vélar prentsmiðjanna, og þaðan átómatískt inn í jólapakkana, undir jólatréð, í hendur lesendanna og þaðan inn í huga þeirra, þar sem þær síðan deyja (eftir að búið er að finna morðingjann). En ég ætlaði að rifja upp þýðingu Helga Hálfdanarsonar á Grænu kránni. Ég minntist nefnilega á það ljóð í Ríkisútvarpsspjallinu á laugardag, í tengslum við Rimbaud-þýðingar Sigurðar og Sölva. Það sem þetta ljóð hefur lifað í huga mínum frá því ég las það fyrst; ég held þetta sé einhver mest inspírerandi samsetningur í ljóðaformi sem ég þekki (plús auðvitað önnur ljóð eftir Rimbaud – og Baudelaire ekki síður). En ekki meira um það: hér kemur

GRÆNA KRÁIN

klukkan fimm að kvöldi

 

Í viku hafði ég hruflað mína skó

á hrjúfu grjóti vegarins, er mig bar

að Grænu kránni. Þar bað ég um brauð, og nóg

af bezta smjöri, og flesk. Ég hvíldi mig þar

 

í góðu skapi, með skankana teygða við borð,

og skoðaði mynd, sem hékk þar litrík og gljáð

á vegg, – þegar stúlkan, ó! nú skortir mig orð!

með ofsa-brjóst og fjörmikið augnaráð,

 

– sú hláturmilda, sem ekki er alltof feimin

við einn koss! – var þar komin, með brauð og smér,

og rósóttan disk með fleski, og færði mér,

 

já, flesk, rósrautt og hvítt, með ljúffengan eiminn

af lauk! – og hellti unz feikna krús var full

af freyðandi bjór sem skein í kvöldsól sem gull.