10. janúar 2017

 

„Þetta er auðvitað allt saman tómur þvættingur og fyrirsláttur og ekkert nema pólitík.“ (Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið 7. janúar 2017) Með öðrum orðum – og algerlega berum orðum – viðurkennir verðandi forsætisráðherra að hann sé ekki í pólitík. Enda hefur lengi verið ljóst að hann er það ekki. Verðandi fjármálaráðherra nefnir síðan lygi verðandi forsætisráðherra „slaka dómgreind og klúður“. Og verðandi heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að endurskoða – og væntanlega taka aftur – orð sín um að forsætisráðherrum sem tengdir eru aflandsfélögum sé ekki stætt í embættinu. Honum finnst það allt í lagi núna. Ég vil fara aftur upp í sveit. Ég var nefnilega uppi í sveit (þótt „uppi í sveit“ finnist mér einkennilegt orðalag. „Úti í sveit“? …„í sveitinni“? … „in the countryside“ … „en el campo“ …). Ég var á Árbakka, á Hvítársíðu, í Reykholtssveit. Og þar gerði mikið veður eina nóttina, og í þykku myrkrinu í kringum húsið tóku að heyrast einhver ókennileg hljóð; og þessi hljóð urðu meiri og meiri, á meðan vitneskjan um hvað þeim ylli var engin – þetta hljómaði eins og einhver þungstígur væri reiður gagnvart pallinum fyrir utan. En svo kom skýringin – að minnsta kosti skýring sem hægt var að ímynda sér að hefði einhver skynsamleg rök. En þótt skýringin hafi komið, varð ekki mikill svefn þessa nótt. Og þess vegna var rænan ekki 100% í gær (eða 90%, 85%, 75%, 60%? … ég skal ekki segja hversu hátt hún mælist almennt). Ég kýs aftur á móti að líta svo á að þessi óhugnanlegu hljóð í Reykholtssveitarnóttinni hafi táknað reiði þeirra kjósenda Bjartrar framtíðar (og jafnvel Viðreisnar líka) sem enn líta svo á að þátttaka í ríkisstjórn eigi að fela í sér pólitík, ekki bara sérhagsmunavörslu. Og að forsætisráðherra landsins sé ekki lygari. Að landsmenn eigi að minnsta kosti að geta haft þá tilfinningu að forsætisráðherra segi stundum satt. En landsmenn eru ekki vanir því. „Landsmenn“? Er maður landsmaður? „Countryman“? Og núna eru landsmenn að fá yfir sig enn einn forsætisráðherra af þeirri sort sem ekki er hægt að reikna með að segi satt. Við (we, the countryfolk of Iceland) erum að fara úr öskunni í eldinn.

ps. í dag er eitt ár frá því David Bowie lést. Næsti kafli ætlar af því tilefni að hafa tóndæmi af youtube: