Núna erum við (við sem búum á jörðinni) komin með Bandaríkjaforseta sem rekur ráðherra sína á nóttunni. Og yfirmenn tollgæslu- og innflytjendaeftirlitsins. Sjá frétt í ríkisfjölmiðlinum:
„Donald Trump Bandaríkjaforseti leysti Daniel Ragsdale, starfandi yfirmann tollgæslu- og innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, frá störfum fyrirvaralaust í nótt. Hann var skipaður í embættið af Barack Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Uppsögn Ragsdale var tilkynnt tæpri klukkustund eftir að Trump rak Sally Q. Yates, starfandi dómsmálaráðherra.“
Nú er spurning hvort Dónald hafi sofnað fyrst, og legið þannig á ákvörðun sinni, þangað til hann vaknaði í nótt og gekk í málið. Eða hvort hann var vakandi fram á nótt, hafi látið vera að fara að sofa – Dónald Trump er jú bindindismaður á áfengi og tóbak, og eflaust kaffi líka, ég sé það alveg fyrir mér – og hann hafi síðan rekið þessa starfsmenn sína ósofinn, og kannski farið í háttinn eftir það? Sally Yates (sem var að vísu bara starfandi dómsmálaráðherra; hún var ráðin af Barack Obama) þarf að minnsta kosti ekki að vakna til vinnu í fyrramálið, ef hún fór þá að sofa yfirhöfuð. Daniel Ragsdale getur líka slakað á, og velt því fyrir sér í rólegheitum (hugsanlega í svefni, ef hann fór að sofa) hvort hann eigi að vakna. (Núna ætlaði ég, í framhaldi af þessu með Daniel og Sally, að lýsa því yfir að við hin gætum líka öll slakað á, en svo fannst mér það hljóma einhvern veginn of krúttlegt. Þannig að ég sleppi því. Ég veit samt ekki hvað ég á að segja í framhaldi af þessu með Daniel og Sally. Er ég hræddur? Nei, það hljómar líka of krúttlegt. Meira að segja nafnið Dónald hljómar of krúttlegt. Auðvitað gæti ég velt þessu fyrir mér fram eftir degi, en mér liggur á að senda færsluna af stað, því það fer bráðum að birta af degi í Bandaríkjunum – við erum fimm klukkustundum á undan þeim þar, eða fjórum, ég man það ekki alveg – og ég er búinn að vera að tala um „í fyrramálið“, að Sally eða Daniel muni vakna (eða vera enn vakandi) í fyrramálið osfrv. Best að segja ekki meira núna. Ég er að minnsta kosti vaknaður sjálfur – eftir að hafa sofið. Ég svaf á meðan Dónald rak Sally og Daniel.)