15. ágúst 2017

Á dauða mínum átti ég von (og á enn) – en ekki því að við Hjörleifur Guttormsson yrðum sammála um nokkurn hlut. En nú hefur það gerst; ég las um það í Fréttablaðinu í morgun. Það vill nefnilega svo til að hið skelfilega fyrirbæri, sjómannsmyndin á vegg Sjávarútvegshússins, er horfið af veggnum, og ekki nóg með það: Hjörleifur Guttormsson, sem býr við Vatnsstíginn, rétt hjá Sjávarútvegshúsinu, fagnar því að sjómaðurinn hefur verið málaður af veggnum. Það segir í frétt blaðsins að Hjörleifur hafi verið hávær andstæðingur sjómannsins. Ég hef sjálfur verið þögull andstæðingur sjómannsins (hingað til); ég hef blótað í hljóði í hvert sinn sem sjómaðurinn á veggnum hefur lent í sjónlínu minni, rétt eins og ég hef blótað (og stundum upphátt) þegar ég horfi á myndirnar á húsaveggjunum í Vesturbænum, t.d. við Seljaveg. Þetta er alger hörmung. Þetta er versta tegund af kitsi. Ekki það að myndirnar séu ljótar í sjálfu sér, þær eru alls ekki illa gerðar (og hugurinn á bakvið þær eflaust ekki vondur heldur) en „drengurinn með tárin“ á ekki heima þar sem ekki verður hjá því komist að taka eftir honum – hann á auðvitað helst heima einhvers staðar bakvið hurð. Gott hjá þér, Hjörleifur. Kannski hefur Hjörleifur sjálfur fyrirskipað að myndin af sjómanninum yrði máluð burt, því enginn vill kannast við að hafa gert það. Ef svo er, þá endurtek ég: Gott hjá þér, Hjörleifur, maður á að taka málin í sínar hendur, ef enginn annar nennir að standa í því. Einu sinni vann ég í fiski á Neskaupstað. Það var árið 1981, og þá var Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra. Ég man eftir því einn daginn þegar hann kom akandi á gljáfægðum Mercedes Benz (væntanlega í aftursætinu) inn á bryggjusvæðið fyrir framan frystihúsið. Svo steig hann út úr bílnum. Og við fiskvinnslufólkið horfðum á hann. Þarna var hann á sínum heimavelli, í Litlu-Moskvu. Gott ef einn starfsmaðurinn í frystihúsinu var ekki kallaður Stalín (sá sem fór alltaf á klósettið kl. tólf á hádegi – alltaf á slaginu). En á Neskaupstað 1981 var engin mynd af sjómanni máluð á fimm hæða háan húsvegg. Þar var heldur ekki mikið um fimm hæða hús. Og þess vegna gat Hjörleifur horft í kringum sig án þess að láta eitthvað svoleiðis fara í taugarnar á sér. Og við í frystihúsinu gátum fylgst með Hjörleifi stíga úr Benzinum, án þess að eitthvað í umhverfinu færi í taugarnar á honum, iðnaðarráðherranum úr Alþýðubandalaginu. En kannski fór eitthvað í taugarnar á honum, eitthvað sem hann sá þegar hann steig út úr bílnum. Kannski við, starfsmennirnir í frystihúsinu? Það var þó ekki að sjá að honum mislíkaði nokkuð þegar hann steig út úr bílnum. Ég man einmitt að okkur fannst reisn yfir honum, og bara sú staðreynd að við sæjum hann í eigin persónu stíga út úr ráðherrabílnum setti aukalit á daginn, og lyfti okkur upp. Ég held meira að segja að ég hafi sagt frá þessu í dagbókinni minni sem ég hélt á þessum tíma. En nú hef ég sagt frá þessu með Hjörleif og sjómannsmyndina hér í Næsta kafla, þótt Næsti kafli sé langt frá því að geta kallast dagbók. Og ég gleðst yfir því að við Hjörleifur erum sammála um að minnsta kosti eitt í lífinu: að svona myndir á húsveggjum borgarinnar, eins og af sjómanninum, eigi frekar heima bakvið hurð (t.d. úti á landi).