2. nóvember 2018

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

Hér er texti af vef Ríkisútvarpsins, upphaf umsagnar um nýja ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Sálumessu:

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

Sálumessa er gamalkunnugt fyrirbæri úr kaþólsku allt frá 14. öld og reis líklega hæst í Evrópu á þeirri átjándu og nítjándu. Hún var sungin til að heiðra minningu ástvinar og stytta dvöl hans í hreinsunareldinum. Sálumessa tengist eðlilega fyrst og fremst tónlist, trúarbrögðum og kirkjulist en hún er ekki síður vettvangur bókmennta. Íslenskir höfundar eins og Gunnar Gunnarsson og Ari Trausti Guðmundsson hafa notað titilinn Sálumessa á skáldverk, Þorsteinn Antonsson, Eva Hauksdóttir og margir fleiri hafa ort ljóð með þessu þema og heiti. Að ógleymdum Esra Péturssyni, lækni, sem ritaði æviminningar sínar undir lok síðustu aldar og greindi þá frá kynlífssambandi sem hann átti við sjúkling og olli bók hans, Sálumessa syndara (1997), miklu hneyksli í samfélaginu öllu. (birt á vef Ríkisútvarpsins 2. nóv. 2018)

Frændi, sem situr úti í horni stofunnar og laumar upp í sig bláum Ópal (áður en börn systkina hans koma í heimsókn og hópast að honum í þeirri vissu að hann muni gauka að þeim nýjum, óuppteknum Ópalpakka), vill af þessu tilefni rifja upp enn einn sálumessutitilinn, þann sem hann þekkir best (fyrir utan sálumessur Mozarts og Verdis, og ljóð Önnu Akhmatovu). Frændanum finnst við hæfi að birta þetta ljóð á fyrsta föstudegi nóvembermánaðar, þegar borgaryfirvöld hvetja fólk til að „hvíla bílinn“, eins og það er orðað í útvarpinu, vegna mikillar svifryksmengunar (sem frændi ber sjálfur enga ábyrgð á, eða litla, þar sem hann notast eingöngu við leigubíl og strætó í sínum samgöngum, en ekki einkabíl). Ljóðið kemur úr bókinni Rómantískt andrúmsloft:

 

SÁLUMESSA

 

Þetta er ekki fyrir mig. Ég heyri

það alveg. En þetta er ekki í fyrsta skipti

sem ég reyni.

Á Háaleitisbrautinni

 

er þrjátíu kílómetra hámarkshraði.

Og græjurnar í bílnum

eru á vissan hátt betri

en græjurnar heima í stofu.

 

En þetta er ekki fyrir mig.

Ég heyri það. Og þess vegna

set ég í tækið hina tónlistina

sem ég kom með að heiman:

 

píanótríóin, hin efri:

the late piano trios.

En allt í einu,

þegar ég hef gengið frá messunni

 

inn í hulstrið, og tekið út úr hinu

tríóin með píanóinu,

ekur bíll í veg fyrir bílinn minn,

svo hratt að sögnin að aka

 

á engan veginn við. Hann

þeytist inn á götuna

eins og eitthvað hinum megin í borginni

þoli enga bið.

 

Og ég snarhemla.

Og það tekur mig svolitla stund

að jafna mig. Og ég bíð

með tríóin; ég bíð

 

á meðan stund sannleikans líður.

Það munaði engu. En þó því.