21. nóvember 2018

Mér er sagt að Þórarinn Eldjárn viðri ljóð alla miðvikudaga á facebook. Í dag er miðvikudagur, og ég ætla að láta eins og frændi hafi heyrt af þessu uppátæki Þórarins, og hafi ákveðið að apa eftir honum, án þess að láta nokkurn vita að hann hefði vitneskju um ljóðaviðrun Þórarins. Sem hann hefur ekki. En hvaða ljóð velur frændi á svona miðvikudegi? Ég veit að hann fór í miðbæinn í gær (þótt auðvitað sé spurning hvað teljist vera miðbær á þessum tímum reykvískrar útþenslu); hann kom við í bókabúðinni í Austurstræti, þar sem hann velti fyrir sér úrvalinu, með það í huga að fá eitthvað fyrir inneignarnótu sem hann átti (og á enn); og það er fyrir áhrif frá þessari bæjarferð frænda sem hann velur ljóð eftir Unni Eiríksdóttur, Grasaferð um Austurstræti. Ljóðið er úr bók Unnar, Í skjóli háskans, sem kom út árið 1971. Þetta er ein af þeim bókum sem frændi hefur jafnan með sér í gömlu skólatöskunni sinni, þegar hann kemur í stofuna og sest í hornstólinn; ég veit að það eru þrjár eða fjórar bækur sem hann ferjar með sér í töskunni milli staða. Þetta er svolítið skrítin venja, eða uppátæki; en kannski ekkert skrítnara en það að lesa bækur á göngu um göturnar, eins og hún gerir, söguhetja bókarinnar sem ég er að lesa í augnablikinu, Milkman (og reyndar sjálfur höfundurinn bókarinnar, Anna Burns – hún segist hafa lesið bækur á göngu þegar hún var ung). En allavega, hér er ljóð Unnar, það sem frændi valdi til að viðra hérna á „frændanum“; og í framhaldi af ljóðinu koma svolitlar upplýsingar um Unni Eiríksdóttur, sem ég fann á vefsíðunni skáld punktur is:

 

GRASAFERÐ UM AUSTURSTRÆTI

 

Undarlega dapurleg

eru andlitin

þessi slokknuðu.

 

Undarlega björt

eru andlitin

þessi lífsglöðu.

 

Og svo þessi yngstu

með augu eins og bláa spegla.

 

Undarlega fjölskrúðugur er gróður malbiksins.

 

Unnur Kristjana Eiríksdóttir fæddist á Bíldudal, 7. júlí 1921, ein af 15 dætrum Eiríks Einarssonar bónda, Réttarholti, Reykjavík, og konu hans Sigrúnar Kristjánsdóttur. Hún ólst frá barnæsku upp hjá föðurbróður sínum Þorsteini Einarssyni, kennara að Höfðabrekku í Mýrdal.

 

Unnur hóf rithöfundarferil sinn með smásögum og Ijóðum sem birtust í blöðum og tímaritum. Fyrsta bók hennar, Villibirta, kom út árið 1969, næst kom ljóðabókin Í skjóli háskans 1971 og loks smásagnasafnið Hvítmánuður, 1974. Hún þýddi skáldsögur, m.a. eftir Jean-Paul Sartre og Friedrich Durrenmatt og las margar þýðinga sinna í útvarpi.

 

Unnur lést 7. janúar 1976 eftir langvarandi veikindi, 55 ára að aldri. Sambýlismaður hennar síðustu árin var Stefán Hörður Grímsson, skáld.