14. október 2017


„Gesundheit?“·

„Ég er kominn upp í sveit, þannig að nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af heilsunni í bili. Ég horfi bara til jöklanna og hugsa: Það eru þeir sem eru veikir, ekki ég. Svo er áin byrjuð að renna aftur, eftir sumarlangt hlé. Reyndar fór hún af stað, af veikum mætti, einn daginn í sumar, en rann þá ekki lengur en sirka sólarhring. Kannski bara til að minna sjálfa sig á að hún væri á, en ekki eitthvað annað. Allt þetta leiðir hugann að því að ef til vill er ég spámaður í eigin föðurlandi. Ég lýsti því nefnilega yfir um daginn – það var eitthvað í tengslum við fótboltaleikinn á Laugardalsvelli milli Íslendinga („strákanna okkar“, „hú-mannanna“) og Kosóvó„strákanna“ – að enginn væri spámaður í sínu eigin föðurlandi. En það er bara ekki rétt. Það lítur út fyrir að ég sé sá maður: spámaðurinn í föðurlandinu. Því einnig um daginn spáði ég því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá fleiri atkvæði frá landsmönnum í kosningunum 28. okt. nk., fleiri en Vinstri græn; og nú er að koma á daginn í skoðanakönnunum að sú verði niðurstaðan. Kannski var ég með hugann við fylgi þessara tveggja flokka (eða samtaka) þegar ég spáði því að úrslitin í Ísl./Kos.-leiknum yrðu 1 – 1? Sjálfstæðisflokkurinn 1 – Vinstri græn 1. En svo urðu úrslitin í leiknum 2 – 0. Og þetta held ég nefnilega að verði úrslitin upp úr kjörkössunum núna í lok mánaðarins: Sjálfstæðisflokkurinn 2 – Vinstri græn 0.“

„Þú ert ekki sérlega bjartsýn manneskja.“

„Ég er ekki einu sinni viss um að ég sé manneskja.“

„En þú ert samt búinn að stíga út í ána?“

„Já. Tvisvar. Mér tókst að afsanna orð Heraklítosar, um að enginn stigi tvisvar í sama lækinn. Því fyrr í morgun gerði ég einmitt það: ég steig tvisvar út í Litlafljót. Það var nákvæmlega sama fljótið í bæði skiptin, þótt vatnið sem ég steig út í fyrst væri runnið burt þegar ég steig aftur út í. Litlafljót hélt áfram að vera Litlafljót – það breytti ekki um nafn á þeim tíma sem leið milli þess að ég steig fyrst út í rennslið, og síðan aftur.“