Maður hlær og engist um til skiptis

Guðrún Elsa Bragadóttir fjallaði nýlega um fyrstu bók Braga Ólafssonar, Hvíldardaga, á bloggsíðunni Druslubækur og doðrantar sem er vistuð á vefsvæði Miðjunnar. Guðrún Elsa hafði ekki lesið aðrar bækur eftir Braga en séð leikritið Hænuungana. Eftir lesturinn er hún nokkuð viss um að eiga eftir að lesa fleiri bækur eftir höfundinn.

Grípum niður í umfjöllunina þar sem hún fjallar um aðalsögupersónuna:

„Lesandi fær að sjá í honum alla þessa smávægilegu og hlægilegu galla sem ég held að allir hafi upp að vissu marki, en eru svo fáránlegir að við viljum ekki að aðrir komist að því að við höfum þá. Hann hugsar til dæmis óþarflega mikið um það hvað aðrir séu að hugsa, eyðir töluverðum tíma í langa og ítarlega dagdrauma um það hvernig það væri að þekkja fólk sem hann þekkir ekki og hann á erfitt með að taka einfaldar ákvarðanir. Hann segir meinlausar lygar til að komast hjá því að hitta fjölskyldu sína og eyðir mikilli orku í það að komast hjá því að gera hluti, en endar auðvitað á því að eyða meiri tíma og orku í undanbrögð og fresti heldur en það hefði tekið að gera hlutinn bara strax. En það eru þessi smávægilegu, hlægilegu atriði sem eru uppistaðan í aðalsögupersónu og í raun meginefni bókarinnar. Og maður hlær og engist um til skiptis.”

Sjá umfjöllun í heild sinni.

Fimm stjörnur í DV

DV birti dóm þann 22. desember um bók Braga Ólafssonar Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson. Gagnrýnandi blaðsins gaf bókinni fimm stjörnur af fimm mögulegum og í niðurlagi dómsins segir:

Eins og í flestum af sínum fyrri skáldsögum tekst höfundinum að koma lesandanum á óvart allt fram á síðustu blaðsíðu. Húmorinn vellur sem fyrr af textanum, persónur eru vel skapaðar og aðstæðurnar sem þær eru settar inn í og samtöl þeirra oft átakanlega vandræðaleg og fyndin. Handritið að kvikmynd … staðfestir enn á ný hversu frábær rithöfundur Bragi Ólafsson er.

Kristján Hrafn Guðmundsson

Hænuungarnir fá fimm stjörnur

Leikritið Hænuungarnir var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í febrúar og naut strax mikilla vinsælda. Þetta bráðskemmtilega leikrit um nútíma Íslendinga hefur verið sýnt fyrir fullu húsi síðan þá. Sýningin hlaut fimm tilnefningar til Grímunnar 2010 og Kristbjörg Kjeld hlaut Grímuna sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Þegar einhverju er stolið úr geymslunni manns í sameigninni er ekki nema eðlilegt að maður vilji vita hver þjófurinn er. Það er að minnsta kosti skoðun jazzáhugamannsins Sigurhans. Og þótt það hafi ekki verið nema nokkrir kjúklingar á tilboðsverði sem hurfu úr frystikistunni finnst Sigurhans ástæða til að halda aukahúsfund. Enda telur hann sig vita hverjir voru að verki.

Hænuungarnir eru annað leikrit Braga Ólafssonar fyrir leiksvið. Hið fyrra, Belgíska Kongó, með Eggerti Þorleifssyni í aðalhlutverki og í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var sýnt hundrað sinnum í Borgarleikhúsinu.

Leikdómar um Hænuungana

Kliðurinn í fullsetnum sal Kassans í Þjóðleikhúsinu þegar Hænuungarnir, nýtt leikverk eftir Braga Ólafsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar, var við það að hefjast bar vott um almenna eftirvæntingu. Bragi og Stefán leiða hér saman hesta sína í annað sinn og ljóst að áhorfendur eru komnir á bragðið eftir hina vinsælu sýningu Belgíska Kongó. Í þetta sinn bjóða þeir félagar áhorfendum á húsfund sem Sigurhans, ögn hallærislegur jassunnandi á miðjum aldri, boðar til í kjölfar þess að nokkrir kjúklingar hverfa úr frystikistu hans í sameign hússins. Skemmst ber að segja að framvindan verður önnur en til var ætlast.

Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af leiksýningunni var ljóst að kvöldið yrði hin besta skemmtun. Eggert Þorleifsson gaf tóninn í yndislegu upphafsatriði þar sem hann stendur einn við stofugluggann, smellir fingrum í takt við jassplötu í góðu grúvi en passar þó upp á að blása sígarettureyknum út um gluggann með tilheyrandi handasveiflum til að styggja ekki frúna. Það er fagnaðarefni að Bragi Ólafson sé loks farinn að skrifa sviðsverk, það er svo sannarlega vettvangur fyrir persónur hans sem eru svo trúverðugar að það hálfa væri nóg líkt og unnendur skáldsagna hans vita.

Virkilega vel tekst til við framsetningu leikritsins á öllum vígstöðvum og undirstrika tæknilegir þættir vel raunsæið í sögunni. Búningar leikaranna eru réttilega valdir til þess að leggja áherslu á persónuleika hvers og eins. Sviðsmyndin, skeljasandshús í gamla stílnum þar sem áhorfendur fylgjast með atburðarás í tveimur íbúðum hússins, er mjög skemmtilega útfærð og nostrað við hvert smáatriði. Þessi uppsetning er rammi sögunnar og undirstrikaður með góðri lýsingu. Þegar líður á sýninguna og andrúmsloftið verður rafmagnaðra (húsfundur á þriðjudagskvöldi þar sem ásakanir um þjófnað vofa yfir er ekki ávísun á huggulega kvöldstund) þá er eins og sviðsmyndin fari að þrengja að íbúum hússins. Þeir hafa ekkert lebensraum enda innilokaðir í gráum kassa þar sem enginn virðist vera sérstaklega hamingjusamur þrátt fyrir að hafa nýlega fjárfest í flatskjá eða langþráðu plötusafni. Eru hér hænuungarnir í titli verksins komnir?

Þessi ádeila afhjúpast æ betur þegar líður á sýninguna. Litla fjölbýlið verður að íslenskum míkrókosmos þar sem greina má allmargar manngerðir Íslands í dag. Einstaklingarnir eru upphaf og endir eigin tilveru sem hvergi skarast við heimsmynd hinna. Af því leiðir gagnkvæmt skilnings- og áhugaleysi, auk þess sem grunnt er á hvers kyns fordómum gagnvart gildum sem ekki samræmast þeirra eigin. Skortur á víðsýni afhjúpast í því sem á að vera kurteisislegt hjal á milli nágranna, ekki síst þegar sá sem mælir telur sjálfan sig vera holdgerfing heimsborgarans og umburðarlyndis yfirleitt. Braga tekst einstaklega vel að forðast steríótýpur, við þekkjum öll þetta fólk bæði í öðrum og – úps! – okkur sjálfum. Eins og gjarnan hjá höfundinum er atburðarásin allt að því aukaatriði, það eru aðstæðurnar og fólkið sem gera verkið bæði áhugavert og bráðfyndið. Það er ekki öllum gefið að fá áhorfendur til þess að veltast um af hlátri yfir annars óáhugaverðum og niðurdrepandi húsfundi. Allir aðstandendur sýningarinnar eiga því mikið hrós skilið.

Ekki er hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að hrósa frammistöðu leikaranna. Stefán Jónsson er traustur leikstjóri sem tekist hefur að kalla fram það besta í hverjum og einum; það er raunar langt síðan undirrituð hefur séð jafngóðan leik á sviði. Allir skila persónu sinni óaðfinnanlega og erfitt er að gera upp á milli. Fremsta meðal jafningja verður þó að telja Kristbjörgu Kjeld í hlutverki ekkjunnar á efri hæðinni. Kristbjörg vinnur hér leiksigur með fullkominni tímasetningu, blæbrigðum og líkamstjáningu og stelur senunni áreynslulaust í hvert sinn sem hún birtist. Eggert er traustur sem endranær og áttu hann og Ragnheiður mjög gott samspil sem hjón sem þróast hafa í ólíkar áttir með tímanum. Feðgarnir í meðförum Pálma og Friðriks voru bráðskemmtilegir og steig hvorugur feilnótu í túlkun sinni. Þegar upp var staðið voru þeir kannski víðsýnustu íbúar hússins þrátt fyrir að bera það ekki með sér í fyrstu. Þeir voru reyndar þeir einu sem horfðu reglulega á sjónvarp, gæti verið að þar væri skýringin fundin?! Síst heilsteypta persóna verksins er Lillý, dóttir nýlátins íbúa á efri hæðinni, sem er að hreinsa út úr íbúðinni á meðan á húsfundinum stendur. Að mínu mati voru of mörg spurningarmerki sem tengdust aðkomu hennar og hlutverki í atburðarásinni sem kann að hafa leitt til þess að Vigdís Hrefna, sú ágæta leikkona, hafi ekki haft úr eins miklu að moða og hinir.

Þegar upp er staðið eru Hænuungarnir einstaklega vel gerð og skemmtileg leiksýning sem hiklaust er mælt með fyrir alla sem hafa áhuga á mannlegu eðli og samskiptum. Það er auðvelt að vera kóngur í ríki sínu (eða haninn í hænsabúinu) innan fjögurra veggja heimilisins, en stundum verður ekki hjá því komist að eiga samskipti við umheiminn og þar gilda aðrar leikreglur. Hér væri freistandi að fara út í pælingar tengdum Icesave, en ég held ég láti hér við sitja og hvetji þess í stað til þess að fólk fari í leikhúsið og dragi eigin ályktanir. Góða skemmtun!

9. mars 2010

Kristín Una Friðjónsdóttir