12. maí 2016

Núna í morgun fékk ég póst frá Hermanni Stefánssyni, sem sagði mér frá því að Bæring Ólafsson væri orðinn opinber stuðningsmaður Andra Snæs Magnasonar í forsetakeppninni. Ég er staddur erlendis, og þess vegna fannst Hermanni rétt að senda mér fréttirnar frá Íslandi. Auðvitað hefði ég getað fundið þær sjálfur, með því að fletta upp á þeirri netsíðu sem flutti þær; en Hermann stytti mér leið: hann sendi mér fréttina þangað sem ég er staddur; hann sparaði mér tíma, sem í útlöndum er stundum dýrmætari en heimavið. Með fréttinni um Bæring vildi Hermann meina að Bæring væri orðinn hirðskáld Andra Snæs. Auðvitað hefði farið best á því að ég yrði hirðskáld Bærings, en Bæring er hættur þátttöku, þannig að hann þarf ekki á hirðskáldi að halda. Þegar ég opnaði póstinn frá Hermanni var ekki laust við að ég dæsti, að minnsta kosti innra með mér; mig langaði ekki til að hugsa meira – og þar með ekki lesa – um forsetaframboðsmál. Ég myndi hvort sem er kjósa Andra Snæ. Og held ég þurfi ekki að leiða hugann neitt frekar að því. Þegar kemur að kosningadegi mun ég leggja leið mína niður í Das Rathaus (ef það verður þar sem mér ber að kjósa) og setja krossinn við Andra Snæ. Ég held að hann sé best fallinn til að verða forseti Íslands. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni núna. Þetta er frá. Málið er dautt. Í augnablikinu lítur ekki út fyrir að Andri Snær verði næsti forseti Íslands, en ég ætla samt að kjósa hann. Hvað var það annars sem ég ætlaði að gera að umtalsefni? Ég er búinn að gleyma því. Að fara úr einu landi í annað gerir það að verkum að maður gleymir því sem maður ætlaði að segja. Ég er með minnisbókina fyrir framan mig (til hliðar við tölvuna), og dagbókina líka (hinum megin við tölvuna); en ekkert þar, hvorki í minnisbókinni né dagbókinni, gefur mér til kynna hvað ég ætlaði að tala um. Þar (í minnisbókinni og dagbókinni) eru aðrir hlutir; hlutir sem mig langar til að rifja upp síðar (í dagbókinni), og annað sem ég hef í hyggju að nota í önnur skrif (í minnisbókinni) – önnur en þessi skrif hér. Ég gæti hugsanlega snúið mig út úr þessu með því að birta ljósmynd eða benda á einhverja tónlist á youtube. Ég gæti birt myndina af núverandi forseta og Ratzinger páfa í þriðja skiptið; en væri það ekki svolítið að ofgera hlutina? Tæknimaðurinn á hótelinu er að fixa eitthvað á svölunum fyrir framan mig – ég gæti gert hann að umtalsefni (og er í vissum skilningi búinn að því) – en ég held ennþá í vonina um að hið upprunalega efni komi aftur til mín. Ég ætla að gefa því smástund. Nokkrar mínútur í viðbót. Þær mínútur gera auðvitað ekkert annað en að líða; þær feta sig í burtu ein af annarri, auðvitað mishratt, en það er nú bara einfaldlega það sem þær gera (það sem þeim er þannig séð ætlað að gera): þær líða burt eins og skýin á himninum. Nú leið ein! Og núna önnur! Ég hafði ekki gert upp við mig hversu margar mínúturnar ættu að vera; en núna eru þær liðnar – ég hef ákveðið það. Og nú er bara að ákveða eitthvað annað; allur dagurinn er framundan. Vona ég. (Ég ætla annars að láta eftir mér að birta myndina af forseta Íslands og Ratzinger í þriðja skiptið; hún er svo fyllilega þess virði.)

Unknown-1