16. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

VIÐSKIPTALÍFIÐ

 

„Ég nota alltaf fleiri og fleiri orð.“

 

Nú hafið þér gersamlega gengið fram af mér. Og ekki aðeins mér heldur öllum við borðið. Nú, og hvað á ég við með því, að þér hafið „gersamlega gengið fram af mér“? Ég gríp til þess orðalags í gríni fremur en alvöru. Klukkan er ekki orðin níu að morgni, það er þétt setið á kaffihúsinu; jafnvel með góðum vilja tækist ekki að koma fyrir fleiri en fimm eða sex gestum til viðbótar þeim sem þegar hafa fundið sér sæti við borðin hér inni. Þér gerðuð yður eflaust ekki grein fyrir því sjálfir – slíkur var asinn þegar þér genguð í átt til félaga yðar við borðið í norðausturhorni staðarins (þeirra sem höfðu svo fyrirhyggjusamlega tekið frá einn stól fyrir yður) – en þegar þér genguð framhjá borðinu mínu, og félaga minna, þar sem við höfðum setið á fundi í um það bil hálfa klukkustund, var eins og þér tækjuð eitt örstutt augnablik þátt í þeim fundi okkar. Og það var óþægileg tilfinning. Sem ég segi ekki í gríni, og heldur ekki alvöru; ég held þér skiljið alveg hvað ég á við. Það var þó ekki svo að umræðuefni okkar mætti ekki fréttast yfir á önnur borð – alls ekki. (Nú – geri ég ráð fyrir – er tímabært að taka aftur þá yfirlýsingu að þér hafið „gengið fram af mér“, eins og ég orðaði það, því nær væri að orða það svo að þér hafið gengið framhjá mér, eins og þér vissulega gerðuð.) Tilfinningin sem ég nefndi sem „óþægilega“ var óþægileg vegna þess að á þeirri stundu sem þér genguð framhjá okkur, félögum mínum og mér, langaði mig aðeins til eins, nefnilega til þess að vera á fundi með yður, og yður einum; mig langaði til þess að við værum tveir saman á fundi, en ekki með félögum mínum, og þaðan af síður með félögum yðar. Bara við tveir: þér og ég. Það yrði okkar fundur: yðar og minn. Viðskiptin sem við myndum ræða yrðu í engu samhengi við þau viðskipti sem hafa verið rædd á borði mínu og minna félaga frá því klukkan átta, né þau sem ég geri ráð fyrir að séu í augnablikinu rædd á borði yðar og yðar félaga – þau yrðu ekki í neinni harmony við það viðskiptalíf sem svo snemma vaknar á kaffihúsum borgarinnar. Nei, þau viðskipti sem við myndum ræða myndu eingöngu lúta að því sem að okkur tveimur sneri, yður og mér – mér og yður. Okkur tveimur. En „viðskiptalífið“? Ég segi viðskiptalífið, eins og til að afmarka þá hlið lífsins frá lífinu sjálfu, en auðvitað er viðskiptalífið samofið lífinu í heild; í raun er ekki rétt að nefna þetta tvennt sem aðskilda hluti: viðskiptalífið/lífið. Að skilja þessi „tvö líf“ að leyfi ég mér að fullyrða að líkist helst því að spyrja þann sem maður hefur lánað alla peningana sína: Og hvað skulda ég yður svo?