11. ágúst 2016

Auðvitað á maður ekki að tala þannig um fólk, eins og ég er um það bil að fara að gera, EN (ég ætla að taka einn Illuga Jökulsson á þetta: „Nú má vel vera að X sé góður maður, en …“ osfrv.): mig grunar að með útgáfu nýrrar bókar sinnar, Hyldýpið, sé innrímið í Ómari Ragnarssyni (þeim mikla rímmanni) eitthvað að gefa sig. Hvað gengur honum til? Af hverju núna? Ég veit að hinir og þessir hafa verið að spyrja sig þessarar sömu spurningar í fjölmiðlum síðustu daga, en (þetta er að verða mikil EN-færsla) ég get samt ekki stillt mig um að bætast í hópinn (jafnlítið og ég er fyrir að vera í hópi). Í skáldsögunni sem ég gaf út árið 2012, Fjarverunni, er ofurlítið vikið að Geirfinnsmálinu. Ég „luma þar á“ svolitlum upplýsingum sem skálduð persóna í bókinni hefur yfir höndum, og hefur komið fyrir (til geymslu) í söngtexta við tónlist vinar síns. Ég nefni þetta vegna þess að allt í einu núna – þegar Ómar Ragnarsson hefur gefið út í bók gamlar upplýsingar um hið fræga morðmál – eða mannshvarf/hvörf – sem hann óvart gleymdi í einhverri hirslu í híbýlum sínum í fleiri, fleiri ár, finnst mér eins og þær upplýsingar sem ég miðlaði um sama mál (eða réttara sagt sú ábending um að upplýsingar væri að finna í ákveðnum söngtexta) hafi öðlast mun meiri vigt en ég taldi þær (upplýsingarnar) hafa þegar ég skrifaði bókina. Ég veit það hefur ekkert upp á sig að vera að tala um þetta, en ég á afmæli í dag, og það liggur svo vel á mér. Auk þess hef ég verið að hlusta á Edgar Varèse í dag, og vegna þess að tónskáldið í Fjarverunni, Markús Geirharður, sá sem samdi músíkina við texta Ármanns Vals Ármannssonar sem vísaði í hið hleraða samtal í Klúbbnum árið 1972, það sem sagt er frá í bókinni – og það sem fól í sér upplýsingarnar um Geirfinnsmálið – hann, Markús, var að hlusta á Edgar Varèse morguninn þegar þau Esther Símonar elskuðust í kjallaraíbúðinni við Rauðarárstíginn, og Monika, konan á hæðinni fyrir ofan Ármann Val heyrði öll lætin út um glugga Markúsar (ég veit að þetta er ruglingslegt, en það ætti samt að skiljast) – það er út af öllu þessu sem mér datt í hug að minnast á hina einkennilegu útgáfu Ómars Ragnarssonar á bókinni Hyldýpið nú á dögunum. FjarveranHyldýpið … þetta eru svakalegir titlar. Ef ég væri ekki að hugsa svona mikið um Ómar Ragnarsson í augnablikinu, og hans miklu hæfileika í að ríma og búa til vísur, þá myndi ég halda að þessi tvö orð, fjarveran og hyldýpið, rímuðu hvort við annað. (Myndefni dagsins í dag er ljósmynd sem ég tók fyrir rúmum fjórum árum í nágrenni sögusviðs Fjarverunnar.)

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni