20. mars 2017

Setning dagsins: „Ekki virðast allir vera á eitt sáttir við það að Gunnar Smári Egilsson og Mikael Torfason hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í íslensku samfélagi …“ (DV, 20. mars 2017) Ég þori ekki að bæta neinu við þetta. Ég hef heldur ekki tíma, ég þarf að vinna fyrir kaupinu mínu. Nú er samt spurning hvort ég láti einhverja músík fylgja – það virðist vera komin hefð fyrir því á þessari „heimasíðu“, að músík fylgi færslum – og þá er ég helst að hugsa um Sibelius, því það er Sibelius sem rúllar (rúlar?) á heimilinu þessa stundina, eða allt frá því að ég hlustaði á 2. sinfóníu Sibeliusar í Hörpu á föstudaginn var, og reyndar dagana á undan líka, því maður þarf alltaf að gíra sig upp fyrir svona tónleika. En hvaða Sibelius ætti það að vera, ef ég læt eftir mér að setja tóndæmi? Soldið djarft að setja heila sinfóníu eða Tapiolu eða eitthvað svona stórt og mikið; mér dettur í hug þetta:

Nú er ég kominn ansi langt frá því sem ég nefndi hér fyrst í færslunni, Mikael og Gunnari Smára og öllu því, og að ekki sé almenn ánægja með að þeir tveir hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í ísl. samfélagi. Ég vil nefnilega ekki fjarlægjast það umræðuefni um of. Ég ætla að því að leyfa því að vera endapunkturinn hér í dag: „Ekki virðast allir vera á eitt sáttir,“ osfrv. (sjá „heimasíðu“ DV í dag)