2. ágúst 2017

Þegar ég horfi af svölunum mínum (t.d. þegar ég ákveð að nú sé tími til að anda að sér hreinna lofti en því sem leikur um skrifstofuna), þá lít ég stundum í áttina til Hallgrímskirkju. Og hugsa um það sem gerist þar innandyra. Eða hugsa ekki neitt. En nú er svo komið að verið er að byggja íbúðablokk við Skúlagötuna, sunnanmegin við Fosshótelið í Þórunnartúni (stærsta hótel á landinu), og sú blokk á að vera tólf hæðir, samkvæmt upplýsingaskilti á girðingunni sem lokar af byggingarsvæðinu. Mér sýnist á öllu (meðal annars af því að bera saman þær hæðir sem þegar hafa risið í nýju byggingunni, og hæð Fosshótelsins, sem er, að mig minnir, sextán eða sautján hæðir, kannski átján) að nýja blokkin í Skúlagötunni muni á endanum taka af mér útsýnið yfir að Hallgrímskirkju. Hugsanlega mun þó spíran á henni – og krossinn ofan á – gægjast upp yfir tólftu hæðina. Það verður kannski til þess að þegar ég fer út á svalir (til að anda að mér hreina loftinu) hugsi ég frekar um hvað mögulega sé að gerast innandyra í nýju tólf hæða blokkinni í Skúlagötunni, en inni í Hallgrímskirkju. Kannski held ég bara áfram að hugsa ekki neitt. En þegar ég nefndi „tólf hæðir“ í upphafi þessarar færslu núna rétt áðan, þá grunaði mig að ég myndi freistast til að birta ljóð í lok færslunnar. Ég eiginlega vissi það. Hin raunverulega ástæða þess að ég nefndi Hallgrímskirkju og hálfu blokkina við Skúlagötuna (sem þeir segja að verði fullkláruð á næsta ári) er sú að mig langaði til að hafa lítið ljóð í færslunni. Færslan átti í upphafi bara að vera ljóð. Svo bættist hitt við, eins og í framhjáhlaupi. Ljóðið er úr bók sem kallast Fjórar línur og titill.

ÞRETTÁNDA HÆÐIN

 

Þegar ég fékk að vita að þeir ættu ekki herbergi

nema á tólftu og fjórtándu hæð,

spurði ég hvort þá þrettándu vantaði.

Nei, hótelið var ekki hærra en þetta.