29. september 2017

Ákvarðanatökur eru erfiðar þessa dagana. Ég var eitthvað að tala um ákveðna hljómsveit í síðustu færslu – svo ákveðna að ég hef ekki enn getað gert upp við mig hvort ég eigi að nefna nafn hennar – og nú sé ég fyrir mér að nokkrar færslur í viðbót eigi eftir að líða – að vera skrifaðar – áður en ég játa endanlega á mig að ég hafi gaman af (ó)nefndri hljómsveit. Dularfullt mál, svo sannarlega. Í sömu bókasafnsferð og ég fékk plöturnar með hljómsveitinni lánaðar fékk ég líka plötu með Antony and the Johnsons, sem heitir Another World. Mér finnst Antony fínn. Eða á maður að segja fín? Another World, sem er fimm laga plata, er ekki síður dularfullt fyrirbæri en þetta sem ég hef haldið aftur af mér að nefna, því ég finn ekkert um Another World á veraldarvefnum; plötuna er ekki að finna á amazon, og þegar ég leita að henni utan amazon-svæðisins á vefnum, þá bara frýs tölvan mín. En ég fann annað með Antony and the Johnsons, sem er ekki eins dularfullt og allt þetta sem ég hef nefnt, því þar (í þessu myndbandi sem þetta er, meira að segja með uppáhaldsleikaranum Willem Dafoe – þeim sem lék Max Schreck í hinni dásamlegu mynd Shadow of the Vampire), er sýnt hvernig á að fara með karlmenn þessa heims – þannig lagað.

Með því að halda mig við „þannig lagað“ fyrirvarann á því að svona eigi að fara með karlmenn þessa heims, þá dettur mér í hug að svona meðferð eigi nafni minn Bragi Páll Sigurðsson „þannig lagað“ skilið fyrir að skrifa dóm um fyrstu bók höfundar eins og hann gerir hér í „stafaruglinu“:

http://starafugl.is/2017/aferdarfallegt-andvarp/

Að fara fram á við höfund að hann prýði sig með „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ er svo óendanlega hallærislegt og þröngsýnt að maður einhvern veginn roðnar allur – ég vona að minnsta kosti að Jóna Kristjana þiggi ekki boð Braga Páls um að gerast félagi í þeim skíthælaklúbbi sem ég vona líka að telji ekki fleiri félaga en Braga Pál. Hvað er þetta annars með þessa kröfu hinna „samanherptu hringvöðva“ í hópi ljóðskálda um að aðrir þurfi endilega að vera eins og þeir? Sjá þeir ekki bara um það sjálfir?