4. september 2017

John Ashbery, bandaríska ljóðskáldið sem dó í gær, 90 ára gamalt, skrifaði einu sinni flokk ljóða sem hann nefndi French Poems. Ástæðan fyrir nafngiftinni var sú að hann orti ljóðin á frönsku, tungumáli sem hann þekkti vel og þýddi mikið úr, og snaraði þeim síðan yfir á sitt móðurmál, ensku – hann fór þessa leið til að forðast venjubundin orðasambönd í ljóðunum, eins og hann orðaði það sjálfur. Árið 1967 hrósaði John Ashbery ljóðum annars bandarísks ljóðskálds, Franks O´Hara, fyrir að hafa ekkert „prógramm“, og einkum fyrir að sneiða hjá því að fjalla um Víetnamstríðið, sem þá var auðvitað algengt umfjöllunarefni bandarískra skálda. Annað ljóðskáld, Louis Simpson, var ekki ánægt með þessi jákvæðu orð Ashberys í garð O´Hara, og hann skammaði Ashbery fyrir að gera lítið úr samvisku annarra ljóðskálda. Svar Ashberys var á þá leið að hann hefði verið að hrósa O´Hara fyrir að gefa samvisku sinni einstaka rödd, sem væri mun meira virði en sá pólitíski kveðskapur sem flestir væru að sinna á þeim tíma. Og hann bætti við: „Ljóðlist er ljóðlist. Mótmæli eru mótmæli.“ Ég þekki ljóð Ashberys ekki mjög vel, en fannst ég samt hafa leyfi til að nota nokkrar af línum hans sem tilvitnun í ljóðabókina sem ég gef út í haust, Öfugsnáða. Ég hafði ætlað að nota þau óþýdd, en Magnús Sigurðsson, ljóðskáld og þýðandi, sem kíkti á handritið fyrir mig, spurði hvort hann mætti ekki snara þeim yfir á (hið hverfandi) móðurmál okkar, íslensku, og ég þáði það með þökkum. Hér eru þessar línur sem ég mér fannst ég þurfa að hafa með í bókinni minni, í þýðingu Magnúsar:

Eitthvað

ætti að skrifa um áhrif þessa á þig

þegar þú yrkir:

hinn miskunnarlausa nöturleika nánast tæmds huga

sem slær saman við ríkulegt, Rousseau-legt laufskrúð þeirrar þrár hans að miðla

einhverju milli andardrátta …