7. september 2017 (aukafærsla)

Örlagaránið hefur alltaf verið eitt af mínum uppáhaldsorðum, eftir að ég heyrði það sagt í Spaugstofunni einhvern tíma í fyrndinni – ég man samt ekki alveg samhengið. Og síðan þá hefur mér verið tamt að kalla hitt og þetta örlaga-hitt og þetta. En nú þarf ég að gera játningu. Ég kíki stundum á vefsíðu Jónasar Kristjánssonar. Í gær gerði Jónas að umtalsefni grein Ragnars Önundarsonar um harmsögu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, eins og Ragnar nefnir þá sögu réttilega; og Jónas segir í lok pistilsins að örlagaverkefni þjóðarinnar næstu árin ætti að vera það að endurheimta norræna velferðarkerfið og hætta að hossa ríkum á kostnað fátækra – með öðrum orðum: leiðrétta Örlagaránið. Ég sé fyrir mér forsíðu sérstaks bæklings sem ríkisstjórn Íslands gefur út um átakið: Örlagaverkefni ríkisstjórnar Íslands – næstu árin.