9. september 2017

Eins og allir muna var enska hljómsveitin The Who háværasta rokkhljómsveit síns tíma (kannski allra tíma), með sín 80.000 vött á Wembley Stadium. Það komst engin önnur hljómsveit með tærnar þar sem Keith Moon og félagar höfðu hælana. Ekki einu sinni Spinal Tap síðar, með sinn sérsmíðaða gítarmagnara sem var hægt að stilla upp í ellefu. Hugsi maður til Íslands, þá efast ég líka um að hérlend hljómsveit hafi nokkurn tíma haft yfir 80.000 vöttum að ráða á sviðinu, ekki einu sinni Ham eða Mínus. En við eigum annað sem heyrist svolítið í, því nú höfum við eignast háværasta forseta íslenskrar lýðveldissögu, Guðna Th. Í gegnum fjölskyldutengsl heimsótti ég Bessastaði í gær. Það var gaman. Ég hef ekki komið á Bessastaði í 12 eða 13 ár – óþarfi að rifja upp ástæðuna fyrir því, og sömuleiðis óþarfi að láta það hljóma eins og sjálfsagt mál sé að fara á Bessastaði (ég er að reyna að ímynda mér hversu mörgum prósentum þjóðarinnar hefur aldrei verið formlega boðið þangað) – en nú í gær hljóp aldeilis á snærið: það hafði komið inn um lúguna boð frá forsætisembættinu – það hafði með Bókmenntahátíðina að gera – og það var eiginlega ekkert annað í stöðunni en að þiggja boðið, þótt ekki allir úr fjölskyldunni kæmust með, t.d. ekki aðstoðarmaður minn Basil (vegna anna). En hér er löng saga stutt (kaflahaldari hefur ekki meiri tíma aflögu í augnablikinu): Mér er sagt að forsetinn „sem var“ (á undan Guðna Th.) hafi notað míkrófón þegar hann talaði við gesti sína. Það gerði Guðni Th. aftur á móti ekki í gær, jafnvel þótt svo margmennt væri í „stofunni“ hjá honum að nánast ógjörningur væri að ná til alls fólksins með röddinni einni. En bara „nánast“. Guðna tókst að gera sig heyranlegan með því að tala hátt. Eiginlega mjög hátt. Það má segja að hann hafi hrópað, jafnvel æpt, á mannskapinn. Ég veit það hljómar ekki vel þegar sagt er frá því, en Guðni hljómaði afar hressilega með þessari raddnoktun. Og mjög svo óforsetalega. Enda gerir hann svolítið út á að vera „óforsetalegur“, sem er mjög fínt. Mér datt meira að segja í hug að þarna í gær, á þessari háværu bókmenntasamkomu, hefði hann getað kallað sig Guðni THX. Og í raun væri það vel við hæfi, til dæmis í ljósi þess að í gær sagði hann útlensku gestunum (og þeim innlendu) frá því að hann hefði einu sinni þýtt bók eftir Stephen King; og síðast þegar ég heyrði hann tala (live), þá vitnaði hann í Arnold Schwarzenegger. Það var í Hannesarholti. Aftur er ég kominn langt frá því sem ég ætlaði að tala um í þessari færslu. Ég ætlaði nefnilega að minnast á Frederic Sjöberg, Timothy Snyder og Etgar Keret, þrjá höfunda sem hafa talað á hátíðinni, en það verður að bíða betri tíma. (Sem táknar auðvitað að ekki verður af því.) Ég ætlaði líka að minnast á hinn suður-kóreska höfund Han Kang, en hann, eða hún réttara sagt, talaði svo lágt að það heyrðist ekki neitt í henni, jafnvel þótt hún hefði talað í míkrófón. En það skildist alveg.