1. desember 2017 (aukafærsla)

Ekki nema klukkustund liðin frá færslu dagsins, og „kaflanum“ hefur borist kvörtun. Og það á fullveldisdegi Íslands, á degi nr. 2 í lífi nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins. „Einn“ er ekki sáttur við valið á tónskáldi mánaðarins, og „minn“ verður auðvitað að taka slíka athugasemd til greina – hvaða annað hlutverk hefur „hann“? Sá sem kvartar fer fram á að bandaríska tónskáldið Milton Babbitt sé tónskáld desembermánaðar, ekki Spánverjinn Joan Cabanilles. Ég kannast sjálfur ekki við að hér hafi áður verið valið eitthvert sérstakt „tónskáld mánaðarins“, og þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna kvörtunaraðilinn orðar þetta á þann hátt að „tónskáld desembermánaðar“ þurfi að vera Milton Babbitt. En mér er ljúft að verða við ósk hans (ábyggilega kominn í einhvers konar jólaskap). Ég ætla samt að hafa tóndæmið með Milton Babbitt úr jazzheiminum, ekki þeim „klassíska“ eða elektróníska, sem ef til vill væri „eðlilegra“; ég ætla að „setja undir nálina“ (var næstum búinn að segja undir fóninn) heila plötu sem skráð er á Bill Evans og hljómsveit, þar sem er að finna tónsmíð eftir Milton Babbitt, All set; hún er númer fimm, og hefst á 33. mínútu, plús átta sekúndur: