15. desember 2017

Dýrin í skóginum geta aldrei öll orðið vinir. Það hef ég séð í augum hins bengalblandaða Vasily, þegar hann horfir á eftir spörfuglinum eða músarrindlinum, og ræður ekki við sig. Ég myndi aldrei treysta dýrinu fyrir að láta fuglinn í friði – en þegar Basil er í sveitinni, þá er hann með ól um hálsinn, og úr ólinni hangir bjalla; svo er hann líka mest innandyra, þar sem fuglarnir eru ekki. Þegar ég las eftirfarandi orð Símons Vestarr í Kjarnanum áðan, þá spurði ég sjálfan mig hvort ekki væri ráð að láta ákveðna stjórnmálamenn hafa eitthvað um hálsinn á sér.

„Að kalla Bjarna Ben drullu­sokk er ómál­efna­legt og óhjálp­legt. Að kalla hann Pana­ma­prins er kannski líka óþarfi. En að kalla hann spillt­an? Það er ósköp ein­fald­lega sann­leikur sem all­ir lands­menn eiga rétt á að fá að vita. Mál­tækið seg­ir: oft má satt kyrrt liggja. En það á ekki við um heil­indi stjórn­mála­manna. Og hér komum við að lýð­ræð­is­legum þroska íslensku þjóð­ar­inn­ar.

Bak við heift­ina í íslenskri stjórn­mála­um­ræðu er raun­veru­leg neyð fólks sem sam­fé­lag okkar hefur brugð­ist. Við strokum þá neyð ekki út með því að láta Katrínu vera kurt­eisa við Bjarna eða með því að festa upp platta sem á stend­ur: „Öll dýrin í skóg­inum eiga að vera vin­ir.“ Raun­veru­leg sam­ræðu­stjórn­mál byggj­ast á gagn­kvæmu trausti og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er ekki trausts­ins verð­ur.“

(S. V., Kjarnanum, 14. des.)

En hér (á eftir myndinni úr Valhöll, Háaleitisbraut) kemur músík dagsins: La Mourisque eftir Tylman Susato – ég eignaðist þetta nýlega á disk, í þessum sama flutningi Davids Munrow og félaga í The Early Music Consort of London, og þetta vill ekki fara af fóninum.

En nú að gærdeginum. Mig grunar nefnilega að það sé að fæðast sería (hugsanlega jólasería – það á eftir að koma í ljós). Ég fór á pósthúsið í gær (til að senda henni Olgu bók; hún býr í London), og í sömu ferð fór ég í fiskbúðina – allt þetta fótgangandi (bara svo það sé á hreinu); og hvað færði þessi ferð mér annað en gleðina yfir að hafa sent pakkann, og hinn ferska þorskhnakka? Hún færði mér strik á himni. Auðvitað flaug að mér að segja prik á himni – hverjum hefði ekki dottið það í hug? – en ég hélt aftur af mér. Í bakaleiðinni úr fiskbúðinni tók ég mynd af tveimur strikum á himni. Fyrra strikið birtist mér fyrir tilviljun, þegar ég var að taka mynd af Apótekinu og Bleksmiðjunni við Gullteig; seinna strikið varð á vegi mínum vegna þess að ég var að skima eftir fleiri strikum á himni. Ég var staddur á brúnni, þaðan sem ég tók líka mynd af Esjunni – kannski birti ég þá mynd síðar; hér er hvorki staður né stund fyrir hana.