18. desember 2017

Eins gott að vera ekki að hafa of mörg orð með þessu:

Ég fékk annars póst frá ónefndum aðila í gær (vil ekki nefna hans hans, því pósturinn fjallaði um vandamál tengt jólagjöfum, og ekki ætla ég að fara að ljóstra upp einhverju svoleiðis, það gæti skemmt jólagleðina fyrir öðru fólki tengdu aðilanum), og hann, aðilinn, sagði mér frá því að fjölskyldan lægi á baki hans með þá spurningu – nei, annars: réttara að orða þetta svona: fjölskyldan stæði yfir honum frá morgni til kvölds, og æpti á hann: Hvaða bók? Hvaða bók viltu fá í jólagjöf! Segðu okkur: hvaða bók!!! En hann hafði ekkert svar á reiðum höndum, og þess vegna sneri hann sér til mín. En ég gat ekki hjálpað honum. Mér datt bara ekki ein einasta bók í hug, ekki einu sinni mín eigin bók, því varla ætlaði ég að hvetja hann til að beina þeirri ósk til fjölskyldunnar að hún gæfi honum í jólagjöf bók sem hann átti nú þegar. Ég einfaldlega stóð á gati. Ég nefndi einhverjar bækur út í loftið, einhvern veginn alveg hugsunarlaust, og fljótlega fann ég að mig var farið að sundla, ég hálfpartinn riðaði til falls; og það var þess vegna sem ég greip til þess ráðs að setja lagið með Louis Armstrong á fóninn – reyndar ætlaði ég að setja annað lag af þessari sömu plötu með lögunum eftir Fats Waller (Ain´t misbehaving, þar sem eitthvert fínasta trompettsóló í sögu trompettsins er að finna), en ég var orðinn svo ringlaður í höfðinu, eftir að hafa reynt að láta mér detta í hug einhver bókartitill sem hinn ráðvillti „spurnaraðili“ gæti stungið upp á við fjölskyldu sína að hún gæfi honum í jólagjöf, að ég ýtti óvart á þetta lag, Blue turning grey over you; og þess vegna hljómar það hér, en ekki hitt lagið með sólóinu sem ég nefndi.