12. október 2018

Í tilefni af því að ég fer á leikritið um Ellý Vilhjálms eftir rúma viku, og líka vegna þess að núna er föstudagur, bara akkúrat núna – helgin framundan, allt lífið framundan, þannig lagað – ætla ég að spila lag með Frank Zappa. Þetta er af plötunni sem ég átti einu sinni (í unglingsherbergi mínu í Vesturbænum, á Hagamel 26) – og nú verð ég allt í einu óskaplega hryggur, því ég á þessa plötu ekki lengur, núna þegar ég hef eignast plötuspilara (aftur), og hef breytt herberginu mínu, skrifstofunni, í unglingsherbergi (með því að koma þar fyrir plötuspilaranum) – en þetta er gott lag, lagið um frændann; og ekki er verri athugasemdin sem Andres Lemoine birti fyrir einu ári um lagið, Uncle Remus, á youtube (hún sést reyndar ekki, athugasemdin, þegar lagið opnast hér á Frænda, og þess vegna pikka ég hana inn sjálfur) – en hún fjallar líka um tónlistarmanninn Frank Zappa (og nú verð ég að taka fram að ég hef ekki hugmynd um hver þessi Andres Lemoine er; hann er bara einhver gaur sem setur inn athugasemd á youtube): „Incredible, unsurpassed FZ. You are not dead, you just smell funky.“