14. október 2018

Ef mér dytti í hug að hafa einhvers konar bókmenntagetraun hér á síðunni myndi ég pikka inn eftirfarandi þrjár setningar, sem eru setningar númer tvö til fjögur í skáldsögu frá liðinni öld, og passa mig á að sleppa fyrstu setningu sögunnar, því hún gefur of sterklega til kynna hvað sagan heitir, og eftir hvern hún er – og ég myndi spyrja: úr hvaða sögu er þetta, og hver er höfundurinn? Ég veit svarið sjálfur (nei, er það?), því ég þreytist ekki á að lesa þessar fallegu myndir, sem mér finnast jafnvel minna svolítið skemmtilega á upphafið á Dauðum sálum Gogols – á ská, að minnsta kosti. Það vill reyndar svo til að ég á þessar tvær bækur í samskonar útgáfu frá Everyman´s Library. En nú er ég að gefa of mikið uppi – eins gott að ég er ekki að lofa einhverjum verðlaunum fyrir rétta svarið. En hvert eiga þeir að snúa sér, þeir sem telja sig vita það? Ég hafði ekki hugsað út í það. Ég bíð við símann. Passa mig á að svara ekki neinum símtölum næstu klukkustundirnar og dagana, til að ekki verði á tali þegar svarendur í getrauninni hringja. En hér eru setningarnar (og fyrir neðan þær ljósmynd frá bænum sem um ræðir – og nú fatta þetta allir; síminn hjá mér verður rauðglóandi):

It is an unlikely town, huddled, quiet, pretending to be asleep. Its streets are narrow, not quite self-evident as streets and with meetings which seem accidental. Small shops look closed but are open.