16. október 2018

Ef mér dytti í hug að mæla með einhverju sjónvarpsefni, á sama hátt og mér datt í hug í fyrradag að mæla með bók, reyndar án þess að gefa upp hver bókin var, þá myndi ég mæla með viðtali Egils Helgasonar (ég var næstum því búinn að skrifa Agls Helgasonar – og er núna búinn að því) við Lawrence Lessing í Silfri sunnudagsins sem var. Því á meðan ég sat og hlustaði á þennan Lessing tala varð mér hugsað til allra íslensku ungmennanna sem hefðu kosið Pírata, jafnvel Samfylkinguna, hefðu þau farið að kjósa í síðustu alþingiskosningum, í staðinn fyrir að kjósa ekki (og gefa þar með Vinstri grænum rýmra svigrúm til að búa til ríkisstjórn með sérhagsmunasamtökunum, eins og þeir síðan gerðu). En mér dettur samt ekki í hug að fara að mæla með einhverju sjónvarpsefni – á ég að vera að eyða tímanum í það? Eða hvað? Er ég ekki þegar búinn að láta mér detta það í hug? Og ætti ég ekki einmitt að mæla með því að þeir sem misstu af þessu fína viðtali við Lawrence Lessing ættu að horfa á það? Ég geri það hér með. En um síðustu helgi, á laugardeginum, fór ég á tónleika. Þeir voru haldnir í tónskóla í nágrenni heimilis míns, þar sem ungmenni af öllum stærðum og gerðum (jafnvel þjóðernum) léku á fiðlu og píanó. Og þá datt mér svolítið í hug. Ég fékk hugmynd. Ég hef margoft farið á svona tónleika; þeir eru yfirleitt um helgar, eftir hádegi; og oftar en ekki fæðast einhverjar furðulegar hugmyndir í höfði mínu á meðan ég horfi og hlusta á unga fólkið spila (það er eitthvað við „helgina“ sem ríkir á svona samkomum) – og þessar hugmyndir sem ég fæ eru stundum þannig að mér finnst ég þurfi endilega að nota þær í sögu eða leikrit. En svo gerist það reyndar sjaldnast – að ég noti þær. Fæstar hugmyndir sem maður fær öðlast annað notagildi en það að halda manni uppteknum á meðan þær verða til, og stundum jafnvel gleðja mann – sjaldnar að gera mann hryggan. En nú á laugardaginn, á píanó- og fiðlutónleikunum, vildi svo til að á meðan ég horfði og hlustaði á eitt barnið spila fékk ég þessa fínu hugmynd (að mér fannst), sem ég þóttist um leið vita að myndi nýtast mér sem efniviður. Hugmyndin kætti mig að minnsta kosti svo mikið að ég fór að brosa innra með mér, og síðan beinlínis að hlæja hið innra; og eins og stundum gerist – en samt ekki oft – var ekki nógu mikið pláss innan í mér fyrir hláturinn í huganum, þannig að hann varð fljótlega greinanlegur utan á mér, sem ekki var alveg nógu sniðugt, ekki á þessum stað og þessari stund, því auðvitað hefði mátt skilja á mér að ég væri að hlæja að einhverju sem fram fór þarna í tónleikasalnum, og nærtækast að líta svo á að mér fyndist eitthvað sérlega fyndið við það sem fram fór á sviðinu. Þannig að ég reyndi allt hvað ég gat til að halda niðri í mér hlátrinum. Það bara tókst ekki nógu vel. Hláturinn fór jafnvel að hljóma svolítið eins og grátur, eins og stundum gerist þegar maður reynir að kæfa niður hlátur. Og ég fékk illt augnaráð frá samferðafólki mínu, og meira að segja þau tilmæli að ég yrði að forða mér út úr salnum, ef ég héldi þessu áfram. En auðvitað vildi ég það síður – að yfirgefa salinn. Ég beitti mig því hörðu. Og hætti að hugsa um það sem mér hafði dottið í hug. En það var bara ekki hægt. Og svo fór að ég missti aftur út úr mér hláturinn. Og var aftur beðinn (af manneskjunni við hliðina á mér) vinsamlegast um að lauma mér burt, áður en fleira fólk í salnum færi að taka eftir þessu – áður en ég hreinlega springi úr hlátri. En til allrar hamingju auðnaðist mér að leiða hugann að einhverju allt öðru – og um leið og ég segi frá þessu, þá hvarflar að mér að viljastyrkur minn sé mun öflugri en ég hef hingað til talið hann vera. Að minnsta kosti fór þetta betur en á horfðist. Mér tókst að forða sjálfum mér frá því að verða mér til skammar. Barninu við píanóið tókst að ljúka við lagið sitt, án þess að fá á tilfinninguna að verið væri að hlæja að því (vona ég allavega); og ég – fíflið á þriðja bekk (af fjórum) – náði að sitja út tónleikana, svona nokkurn veginn svipbrigðalaus. En hvað segir þetta manni? Það er varasamt að fá hugmyndir. Maður á að vera einn, og út af fyrir sig, þegar eitthvað svoleiðis fer að gerast. En allt í lagi – ekki meira um þetta. Var ég ekki með einhverja getraun í fyrradag, hér á síðunni? Ég spurði hver hefði skrifað textann um þorpið, þar sem búðirnar litlu líta út fyrir að vera lokaðar, en eru opnar. Ég geri mér grein fyrir að hér á síðunni er ekki hægt að svara – það er einungis ég sem get sett inn texta eða myndir – en ég átti svona hálfpartinn von á því að einhver myndi hringja í mig, eða senda mér tölvupóst; mér fannst eins og flestir hlytu að vera spenntir fyrir því að freista gæfunnar með uppástungu. En það hefur enginn hringt í mig. Enginn sent mér tölvupóst. Að vísu hef ég ekki svarað í símann frá því ég „henti þessu út í kosmósið“, því ég vildi ekki bjóða upp á að hugsanlega yrði á tali þegar einhver hringdi; en öðru gegnir með tölvupóstinn: ég hef opnað hann nokkuð reglulega. Getraunin er því enn opin. Svarið liggur á lausu. Textinn býður eins og opinn faðmur, og hann mun umvefja þann sem nefnir rétt nafn á bók og höfundi.