4. desember 2018

„Bókmenntir eru til fyrir aðeins eina ástæðu. Þær koma í veg fyrir ógeð rithöfundanna á lífinu.“ Haft eftir Durtal, persónu J.K. Huysmans í skáldsögunni Í neðra. Ég hafði punktað hjá mér þessa setningu í gærmorgun, því klukkan eitt í gær fór ég í spjall í Lestinni í Ríkisútvarpinu til að tala um bók sem fólk ætti endilega að lesa nú í desember árið 2018 (eins og fólk hafi ekki úr nógu mörgum bókum að velja í augnablikinu, nú þegar nokkur hundruð titlar íslenskra bóka hafa spýst út úr prentsmiðjum í mið- og austur-Evrópu undanfarnar vikur, og hafa verið fluttar til landsins, og inn í Bónus og Nettó). Annar Lestarstjórinn, Eiríkur, hafði hringt í mig kvöldið áður, og spurt hvort ég vildi velja einhverja bók til að tala um í þættinum sínum. Ég þurfti ekki að hugsa mig um lengi. Ég valdi A rebours, skáldsögu Huysmans, um dekadentinn Des Esseintes, með hliðsjón af yfirskrift innslagsins í Lestinni: bók sem ætti erindi við samtímann. Almennt er ég ekki mikið með hugann við hvort bækur eigi eitthvert sérstakt erindi við samtímann; það er frekar að ég reyni að forðast bækur sem fá á sig þann stimpil; en sumar bækur eru bara þannig að þær eiga alltaf erindi við lesandann, á öllum tímum; og bók Huysmans, Á móti straumnum (eða Gegn náttúrunni, hvernig sem fólk kýs að kalla hana á öðrum málum en frummálinu), er þannig bók. Gildi hennar liggur í því að hún „talar inn í samtímann“ með því að gera það ekki. (Guð hvað þetta er orðið útjaskað hugtak, að bækur eða listaverk tali inn í samtímann. Og nú verður mér hugsað til leiklestursins á Klausturspjallinu í Borgarleikhúsinu í gær – agalegt …) En nú er ég hvorki að fara að tala um hina yndislegu bók Huysmans, né að velta fyrir mér þeirri spurningu hvort skáldverki eigi að spegla „samtímann“, eða samtíminn að spegla „skáldverkin“ – ég ætlaði bara að koma því að, eins og sem afsökun vegna spjallsins í útvarpinu í gær, að vegna tæknilegrar stríðni í Efstaleitinu klipptist aftan af því sem ég sagði um bókina; það vantaði að minnsta kosti hálfa mínútu í spjallið, þar sem ég held ég hafi einmitt sett einhvers konar lokapunkt á það. Plús það að mér auðnaðist ekki að koma að öllum hinum punktunum sem ég hafði sett á blað áður en ég fór í Efstaleitið; átta mínútur eru ekki langur tími í útvarpi; og vegna þess hversu gjarn ég er á að tafsa, og taka fram í fyrir sjálfum mér, þegar ég tala í hljóðnema, kom ég held voðalega fáu til skila af því sem ég hafði ætlað mér að segja um bók Huysmans. Og um Huysmans sjálfan. Þann „djöfullega“ höfund. Mikið sem hann er fínn. (Hann vann hjá Innanríkisráðuneyti Frakklands í einhver þrjátíu ár, minnir mig. Og skrifaði mikið af sínum bókum á bréfsefni ráðuneytisins. Í vinnunni.) En allavega. Ég vildi bara koma þessu að. Því mér fannst spjallið um bókina ekki alveg nógu greinargott. Mig hafði til dæmis langað til að koma að nokkrum fallegum orðum frá James Joyce um skrif Huysmans (í mjög vondri þýðingu): „… hin ofsafengna rotnun sem lýsir upp daprar blaðsíður Huysmans með sýktum ljóma sínum …“ Ég hafði líka ætlað mér að minnast á bók Michels Houellebecq, Undirgefni, í tengslum við Huysmans, því Huysmans sjálfur er eitt undirlag þeirrar bókar. Og síðast en ekki síst hefði verið „afar mikilvægt“ að ræða aðeins um bíómyndina La Grande bouffe eftir Marco Ferreri, með vísun í skáldsögu Huysmans um munk sællífsins Des Esseintes, því það er svo sterkur þráður milli þessara tveggja verka, Átveislunnar miklu og Á móti straumnum. Ég verð bara að fara aftur í Lestina einhvern tíma seinna. Og taka með mér minn eigin hljóðnema (sem virkar). Ef ég ætti hljóðnema. Sem ég á ekki. Nema auðvitað í símanum, býst ég við, þótt ég kunni ekki á hann. Ég kann bara á vasaljósið í símanum. Og það, vasaljósið, hefur heldur betur komið í góð not, þá helst í sveitinni, þar sem nóttin er ekki lýst upp eins og í bænum. En talandi um hljóðupptökur: hvers vegna í ósköpunum er forseti alþingis að biðja þjóðina afsökunar á subbuskap sexmenninganna á Klaustri? Af hverju ekki frekar að láta eins og þetta fólk sé ekki til, fyrst ekki er hægt að reka það úr vinnunni? Sniðganga er það eina sem dugar. Og einelti. Af hverju ekki að einelta Sigmund Davíð út úr alþingishúsinu? En svo vil ég bara benda á pistil Hermanns Stefánssonar um herbergi 305; hann er í Kvennablaðinu:

https://kvennabladid.is/2018/12/02/herbergi-305/