24. janúar 2019

Var hægt að læsa smiðjunni, eða var ekki hægt að læsa smiðjunni? Þórbergur Þórðarson útskýrir málið:

Smiðjan var með timburþili niður að stétt. Það var auðséð, að það hafði aldrei verið tjargað eða málað. Það var hvítgrátt og gamallegt af sól og veðri. Á því voru dyr með hurð á hjörum. Ég man ekki, hvernig henni var lokað. Jú, nú man ég það. Henni var lokað með nokkuð stórum lykli. Það er ekki rétt, sem ég sagði áður, að það hefði ekki verið hægt að læsa neinum útidyrum á Hala. Það var hægt að læsa smiðjunni. Mér fannst alltaf Benedikt afi minn eiga smiðjuna og hún vera ættuð eins og hann austan úr Nesjum. Ég vissi aldrei, af hverjum mér fannst þetta. (Steinarnir tala)

En ætlar Bergþór Ólason að mæta aftur í vinnuna sína í alþingishúsinu? Já, hann ætlar að gera það. Og hann útskýrir hvers vegna; hann sendi frá sér grein um málið í íslensku dagblaði í morgun, rétt áður en hann myndi mæta í vinnuna. Þar segir hann meðal annars: „Í okkar fámenna hópi á veitingahúsinu voru þessi orð ósmekklegt en meiningarlaust raus yfir glasi, sem engan særði. Það var ekki okkar ákvörðun að þau skyldu borin á borð fyrir alla þjóðina.“

Mér verður aftur hugsað til Suðursveitar Þórbergs. Í Steinarnir tala fer um það bil ein og hálf blaðsíða í að lýsa kamrinum á Hala, þeim sem Þórbergur notaði ekki sjálfur, nema einu sinni, að eigin sögn („Ég var ekki mikill kamarmaður.“); og það er held ég bara alveg óumflýjanlegt að rifja upp nokkrar setningar úr hinni ítarlegu kamarlýsingu Þórbergs, þegar Klaustursmálinu, eða anda Klaustursins (sbr. andi jólanna, eins og í Jólasögu Dickens) er blásið enn á ný inn á alþingi með þeim áþreifanlega hætti að Bergþór og Gunnar Bragi ætla aftur að taka til hendinni; aðeins að létta undir með hinum þingmönnunum við þingstörfin. Þessar setningar Þórbergs eru á blaðsíðu 78 í Steinarnir tala:

Ég man eftir skelfilegum ólátum einhverntíma í kamrinum. Þau voru í hundum frá Breiðabólsstaðarbænum. Þeir voru lokaðir þar inni til þess að forða þeim frá hundafári, sem gekk í sveitinni. En þeir voru skilningsdaufir á sóttvörnina og geltu og urruðu og spangóluðu og ýlfruðu, eins og þeir væru að hágráta. Ég man ekki, hvernig þessi ósköp enduðu.