5. desember 2017

Aðstoðarmaður minn Basil hafði í nokkra daga í heimsókn hjá sér annan aðila af sömu tegund, en nú er sá aðili farinn til síns heima, og Basil er hvorki mönnum né dýrum sinnandi (hugsanlega þó dýrum, en þau er bara ekki að finna í neinu magni þessa stundina). Hann fæst ekki einu sinni til að aðstoða mig við skrifstofustörfin. Blöðin sem þjóta út úr prentaranum vekja ekki lengur áhuga hans, alveg sama þótt á þeim sé að finna glæný paragröf, eða brakandi ferskar línur um fánýti mannlegs lífs. Hans eina huggun er að hlusta á tónverk Miltons Babbitt, líklega vegna þess að hann skilur ekkert í þeim. Svipurinn í augum hans, þegar hann horfir á mig (líklega vitandi að það sama fer inn um mín eyru og hans), felur í sér þá spurningu hvort ég skilji eitthvað í þessu sjálfur. En það er sem sagt augljóst af þessu að Milton Babbitt heldur enn stöðu sinni sem tónskáld desembermánaðar (þótt Joan Cabanilles banki fast á dyrnar með sínum þriggja alda gömlu hnúum).