7. desember 2017

Ég var í gær eitthvað að tala um upplestra. Í dag ætlaði ég síðan að hneykslast á frétt sem ég sá í Guardian, um undirskriftalista sem verið var að safna til að krefjast þess að málverk Balthusar, Thérèse dreymir, yrði fjarlægt af vegg Metropolitan-safnsins í New York. Ég ætla að halda áfram að hneykslast á því, en samt að nota hið dýrmæta auglýsinga- og kynningarpláss sem mér býðst hérna á vefnum til að minnast aftur á upplestur fjögurra misungra manna í Stúdentakjallaranum í kvöld. Einhverra hluta vegna eru það bara „menn“ sem lesa í gluggalausu byrginu undir Bóksölunni (sem er þó væntanlega undir öðru rými en Bóksölunni) – reyndar er ákveðin ástæða fyrir því að engir kvenmenn eru með í hópnum, því kvöldið er skipulagt sem kynning á nýjum ljóða- og smásagna- eða prósabókum Bjarts, sem sagt ekki skáldsögum. Ef þetta væri skáldsagnakvöld, þá væri kynjahlutfallið að öllum líkindum ofurlítið „réttara“. En hér er tilkynning (að vísu hefur titillinn á bók Ragnars Helga eitthvað misfarist; hann á að vera Handbók um minni og gleymsku):

https://bokmenntaborgin.is/borgin/vidburdir?event=5a257cef9c07071d64c9bf5b

Hér er svo umfjöllun Guardian um hið furðulega mál sem tengist Balthus:

https://www.theguardian.com/artanddesign/2017/dec/06/new-york-metropolitan-museum-art-refuses-remove-girl-balthasar-klossowski-voyeurism-complaint