18. janúar 2019

Góð – hugsanlega fullkomin – byrjun á föstudegi: Sway með The Rolling Stones, 4 blaðsíður í Steinarnir tala eftir Þórberg Þórðarson (alger tilviljun að steinar komi fyrir í báðum þessum „hlutum“), og síðan Fimm hljómsveitarstykki eftir Arnold Schoenberg. Þá er hægt að byrja að vinna. Ég geri mér alveg grein fyrir að þetta hljómar eins og hefðbundin facebook-færsla (en það er líka allt í lagi); það eina sem vantar er mynd af morgunverði (áður en hann er snæddur). Í stað myndar langar mig til að pikka inn eina málsgrein úr Steinarnir tala:

Ég varð þess snemma var í upplagi mínu, að ég hafði orðið nokkuð afskiptur í úthlutun þeirrar eðlisgáfu, sem kölluð er metnaður. Ég var lítið hneigður til samkeppni og langaði aldrei til að verða öðrum meiri. Það má vera að þessi vöntun hafi dregið úr framförum mínum í dugnaði. En hún leiddi þá blessun af sér þar á móti, að vesöld mín og ónytjungsháttur náðu aldrei að sýkja minn innra mann. Ég fann aldrei til sjúklegrar vanmáttarkenndar gagnvart umhverfi mínu og þar af leiðandi aldrei til mannhaturs og hefnigirni. Ég vissi vel, að ég stóð að baki öðrum krökkum að hreysti og líkamsburðum. En mér stóð bara alveg á sama. Ég tók vesaldómi mínum léttilega, eins og lítið væri, lét sem minnst á honum bera, talaði aldrei um hann. En ég gat ekki komizt hjá þeim kvilla að hafa skömm á læknum, og engin orð í máli Suðursveitar þekkti ég eins viðbjóðsleg og „að leita lækninga“. Ég fékk velgju, þegar ég heyrði þau. (bls. 28-29)

Og í stað Fimm hljómsveitarstykkja eftir Schoenberg er hér „mesta rokklag allra tíma“, eins og ákveðinn aðili myndi orða það: