19. janúar 2019

Nú jæja. Ég er sem sagt byrjaður að tala um bestu og mestu lög rokksögunnar (sjá færslu gærdagsins). Að vísu skýldi ég mér bakvið þá aumu vörn að það væri ákveðinn aðili sem tæki svo til orða, en ekki ég sjálfur: „mestu“ þetta og hitt; en nú dettur mér í hug hvort ekki væri tilvalið að halda þessu áfram; að gerast virkilega leiðinlegur, og fara að velja bestu lögin, eins og enginn sé (eða væri) morgundagurinn. Kannski næst að velja besta popplag poppsögunnar? Og síðan „mestu“ jazzplötu jazzsögunnar, osfrv. Og í framhaldi af því, til dæmis, „albestu“ leikkonu kvikmyndasögunnar (því mig langar svo til að koma Stephane Audran að í þessu bloggi, eftir að ég sá hana um daginn í lengri útgáfunni af Apocalypse Now. Nú eða Leslie Manville). En jæja – aftur. E kom í kaffi í gær. Ekki Mister E, heldur E, the actor. Og við ræddum um tónlist, eins og við gerum oftast. Og líka einhverjar bækur. Svo töluðum við illa um ákveðnar persónur, án þess að nokkuð hallaði á þær – það gerum við aldrei; við höfum sómatilfinningu. En við sem sagt ræddum um tónlist, en samt ekki Roxy Music, því mig grunar að E hafi ekki gaman af Roxy Music; hann er af kynslóð sem hefur engan sérstakan áhuga á Roxy Music. Ég nefni hljómsveitina Roxy Music, því Roxy Music var einmitt nafnið sem fyrst kom í hugann þegar ég fór að velta þessu fyrir mér með „mesta“ popplag poppsögunnar. Nú grunar mig – og tel mig vita – að sumir séu orðnir spenntir að vita hvort ég ætli virkilega að velja eitthvert lag með Roxy Music sem besta popplag poppsögunnar. Og það er einmitt það sem ég ætla að gera. Fyrir valinu verður The Bogus Man af hljómplötunni For your pleasure frá árinu 1973. (Ég veit að það stenst eiginlega ekki að hafa hástafi í titli lagsins, en ekki titli plötunnar, en ég ætla samt að láta þetta standa svona.) Þetta lag, The Bogus Man, er kannski ekki augljósasti kosturinn í stöðunni, þegar kemur að því að velja besta popplag sögunnar – og það er ekki laust við að ég komi sjálfum mér á óvart með þessari ákvörðun – enda hef ég í framhaldi af þessu ákveðið að afsaka valið með því að besta lagið sé ekki endilega besta lagið að eilífu, heldur eitthvert ákveðið lag einn daginn, og síðan eitthvert allt annað lag hinn daginn. En af því að í dag er laugardagur, þá liggur einhvern veginn beint við að útnefna The Bogus Man sem besta – og „mesta“ – popplag þeirrar löngu sögu sem poppsagan er. (Löngu í þeim skilningi að hún er eldri en ég.) En hér er lagið – það er ekkert að vanbúnaði að spila það:

Er ég sá eini sem heyrir áhrif frá Holger Czukay í þessu óviðjafnanlega lagi? Alveg örugglega ekki. En hvílíkt lag. Ég hugðist setja það á fóninn á heimili mínu í gær, en sú ákvörðun mæltist svo illa fyrir að ég hætti við. (Þetta er það besta við svona blogg: maður setur eitthvað „á fóninn“, án þess að það trufli nokkurn. Því bloggið er ekki heimili manns; það er eins konar home away from home.) En nú grunar mig að ég hafi tapað þræðinum í þessum skrifum mínum, að minnsta kosti þarf ég að rifja upp það sem ég hef þegar sagt, til að vita hvað skal koma næst. En líklega kemur ekkert meira – ekki í bili. Ég er búinn að senda „mesta“ popplagið „út í kosmósið“; það er frá, og nú get ég farið að sinna öðru. Mér kæmi þó ekki á óvart að ég yrði eitthvað aðeins upptekinn við það næstu daga að velja næstu „mestu“ og bestu hitt og þetta – þetta er eitthvað sem svo auðvelt er að ánetjast, í allri þeirri ofgnótt sem úr er að velja. The Plethora. Í stað „the horror, the horror“ (úr Heart of Darkness, og Apocalypse Now), má alveg kenna í brjósti um sjálfan sig með orðunum „the plethora, the plethora“.