23. desember 2015

Ofgnótt. Það er ekki vegna hátíðanna sem ég fer að hugsa um orðið ofgnótt. Alls ekki. Dytti það ekki í hug. Ég er að hugsa um amerísku kvikmyndina Three Amigos frá árinu 1986. Hún er að verða 30 ára gömul. Og leikararnir í henni þar með jafnmörgum árum eldri en þeir voru í myndinni. Steve Martin, Chevy Chase og Martin Short. Ég hef ekki hugmynd hvað hinir leikararnir heita, t.d. þeir sem léku Mexíkanana, en þeir voru ekki síðri í sínum hlutverkum en Steve, Chevy og Martin. Þegar ég horfði á þessa mynd á sínum tíma, fyrir næstum 30 árum, lærði ég orð á ensku sem þýðir ofgnótt á íslensku. Ég ætla mér ekki að fara að rifja upp efni eða þráð Three Amigos – geri það kannski síðar, í betra tómi – en þegar fer að síga á seinni hluta myndarinnar kemur að því að El Guapo, skúrkurinn, sá sem Vinirnir þrír eiga í höggi við, verður fertugur. Og vinir hans, vinir El Guapos (sem eru ekki Vinirnir þrír, vel að merkja), halda honum mikla veislu í þorpinu þeirra. Eftirfarandi samtal á sér stað þegar verið er að undirbúa veisluna, og El Guapo er að ræða við sinn helsta vin, sína hægri hönd má segja, persónu sem ég man ekki í augnablikinu hvað hét, eða hvað hún var kölluð; en sá maður er með fallegan sombrero á höfðinu (eins og þeir flestir, dólgarnir í liði El Guapos); og undan hattinum teygja sig fallegir grásvartir, síðir lokkar sem ná yfir byssubeltin á brjósti hans. El Guapo er sjálfur með drengjalegt hrokkið hár, og hann er fjallmyndarlegur, eins og nafn hans, eða gælunafn, gefur til kynna – jafn mikill óþokki og hann er. Sá síðhærði talar til yfirmanns síns, sem situr í háum söðli á hrossi sínu – þeir hafa verið að ræða um á hverju sá síðarnefndi megi eiga von í afmælisgjöf: „You will like your other presents too. I have put many beautiful piñatas in the storeroom, each of them filled with little surprises.“ Og El Guapo svarar, með tilhlökkun í augum: „Many piñatas?“ „Yes, many!“ segir sá síðhærði, og leggur mikla áherslu á orð sín með höndunum. En El Guapo finnst hann þurfi frekari fullvissu: „Would you say I have a plethora of piñatas?“ Smá þögn. „A what?“ spyr sá síðhærði. Og El Guapo endurtekur orðið: „A plethora.“ Sá síðhærði hefur ekki hugmynd um hvað foringinn á hestbakinu á við; hann verður hálfkindarlegur á svip, en svarar síðan, 100% viss í sinni sök (eða hugsanlega bara 40%): „Oh yes. You have a plethora.“ Þá brosir El Guapo og nefnir nafn vinar síns, sem nú kemur í ljós að er kallaður Jefe: „Jefe, what is a plethora?“ Jefe verður enn kjánalegri til augnanna en áður, og spyr: „Why, El Guapo?“ Og El Guapo svarar: „Well, you told me I have a plethora, and I just would like to know if you know what a plethora is. I would not like to think that a person would tell someone he has a plethora and find out that that person has no idea what it means to have a plethora.“ El Guapo er í senn reiður og fullur hneykslunar á Jefe. „Forgive me, El Guapo,“ segir Jefe afsakandi. „I know that I, Jefe, do not have your superior intellect and education. But could it be that once again you are angry at something else and are looking to take it out on me?“ „Like what, Jefe?“ spyr El Guapo, og virðist ekki kannast við nokkuð af því tagi sem Jefe hefur ýjað að. Og Jefe spyr: „Could it be because you are turning 40 today?“ Og svar El Guapos er einfalt – en ákveðið: „No!“ Svo heldur samtalið áfram; það kemur inn á konuna sem El Guapo þráir, þá sem myndin fjallar í raun um, þannig séð. Ég gæti vel hugsað mér að halda áfram með þetta spjall þeirra Jefes og El Guapos – ég gæti reyndar vel hugsað mér að horfa á myndina núna (í sjötta eða sjöunda skiptið) í staðinn fyrir að vera að skrifa upp úr henni samtölin – en ég hef bara ekki tíma. Aðfangadagur á morgun.

22. desember 2015

Í nýlegum ritdómi um skáldsöguna Sögumann var ég ranglega sakaður um að hafa skrifað póstmóderníska bók. Held ég. Þegar ég heyrði – eða las – umsögnina, þá leið mér svolítið eins og glæpamanni (að minnsta kosti meintum glæpamanni), því mér varð hugsað til orða sem ég las fyrir stuttu (og ég held að sé óþarfi að vera að þýða): Modernism is about finding out how much you could get away with leaving out. Postmodernism is about how much you can get away with putting in. (John Lanchester: The Dept to Pleasure)

21. desember 2015

Út um gluggann á efri hæð kirkjunnar, af svölunum, þaðan sem ég hef komið mér fyrir til að sjá betur yfir tónlistarfólkið við altarið – og hugsanlega heyra betur í því – vill svo til að ég sé inn um glugga á efstu hæð í fjölbýlishúsi í nágrenninu. Það er kveikt í tveimur gluggum, þetta er greinilega stofan í íbúðinni; og það er líka greinilegt að einhverjar deilur eiga sér stað milli fólks sem statt er í íbúðinni. Eru það íbúarnir? Eða innbrotsþjófar sem koma sér ekki saman um hverju þeir eiga að stela? Það er skrítið að verða vitni að einhverju svona út um glugga á kirkju. Misklíð fólksins lýsir sér í bendingum og áköfum handahreyfingum; þetta eru maður og kona – sem í huga mér útilokar að þau séu innbrotsþjófar. Þegar fyrstu hljómar tónlistarfólksins berast til mín, þar sem ég sit á kirkjusvölunum, er ég of upptekinn við að fylgjast með senunni í fjölbýlishúsinu til að einbeita mér sem skyldi að tónlistinni. En ég skynja þó í henni einhverja uppbyggingu, líkt og fyrstu tónarnir séu að afsaka það sem á eftir kemur. Þetta er ósköp lágstemmt. En um leið og ég veit að tónlistin passar engan veginn við það sem ég sé vera að gerast í glugga fjölbýlishússins veit ég að hún á eftir að verða að einhverju meiru, jafnvel bíta svolítið frá sér. Og ef ég þekki þau sem standa að henni eins vel og ég tel mig gera, þá á lagið – eða verkið, eins og þau vilja eflaust kalla það – eftir að ná ákveðnum hápunkti, og í kjölfar þess punkts fjara út. Þetta er einmitt það sem mér mislíkar við tónlist þessa hóps: hún leitar alltaf í sama áþekka hápunktinn, sem er alltaf svo innantómur og tilgerðarlegur; og síðan kemur langdreginn hali, eins og tónlistarmennirnir þurfi allir að jafna sig eftir eitthvað sem ekkert var. En nú er eitthvað meira að gerast í glugganum. Maðurinn reiðir til höggs. En slær samt ekki strax. Það líður einkennilega langur tími án þess hann láti hendina vaða. En svo gerist það. Og konan sem stendur andspænis honum tekur við högginu. Maðurinn stendur síðan einn eftir; konan er horfin úr rammanum.

18. desember 2015

Einhvers staðar í djúpum kassa á ég vetrarprógramm Fjalakattarins, kvikmyndaklúbbsins sem var starfræktur í Tjarnarbíói. Prógrammið var í A4-broti; ég man ekki hvaða mynd var framan á, bara að grár var fyrirferðarmesti liturinn í henni. Samt er Fjalakötturinn, og heimsóknirnar þangað, einhver litríkasta minning sem ég á frá árunum fyrir tvítugt: að ganga að heiman og í bíóið í Tjarnargötunni, búinn að lesa sér til um myndina sem maður átti í vændum; og síðan að ganga heim til sín í myrkrinu eftir sýningu, allur grár að innan, og svartur og hvítur, en fullur af skáldskap og óhugnaði. Og spurningum sem mig grunar að ég hafi ekki enn fengið svör við. Það var mun meira um liti í mánudagsmyndum Háskólabíós en laugardags- og sunnudagssýningum Fjalakattarins. Af mánudagsmyndunum man ég sérstaklega eftir mynd Romans Polanski, Hvað? Myndir sem Marcello Mastroianni leikur í gleymast ekki svo auðveldlega. Ég man líka eftir Slöngueggi Ingmars Bergman. Blásýruatriðið í lok þeirrar myndar er enn ljóslifandi í huga mér, þótt ég hefði gleymt því að Liv Ullman og David Carradine léku í henni; ég þurfti að fletta því upp á netinu. Ég þurfti líka að fletta því upp að aðalleikkonan í What?, þeirri hálfgleymdu, ef ekki algleymdu mynd Polanskis, hét Sydne Rome. Einhverra hluta vegna sá ég ekki hina alræmdu mynd Marcos Ferreri, Átveisluna miklu (La Grande bouffe), þegar hún var sýnd sem mánudagsmynd í Háskólabíói; ég man samt eftir umtalinu sem hún vakti. Kannski var ég ekki orðinn nógu gamall til að komast framhjá Gunnari í dyrunum – ég man nefnilega eftir að maðurinn sem reif af miðunum í bíóinu hét Gunnar. En þrátt fyrir að hafa ekki séð La Grande bouffe á þessum tíma situr hún í minninu sem eins konar tákn fyrir þann sérstaka heim sem mánudagsmyndirnar voru, rétt eins og popplyktin upp úr ristinni við vesturvegg bíósins var – og er ennþá – eins konar rammi utan um bíóupplifun manns í Háskólabíói hina daga vikunnar. Ég held annars að lokaatriði La Grande bouffe (sem ég sá löngu síðar, þegar ég keypti hana á disk) hljóti að vera með fallegustu lokaatriðum í bíómyndum. Í fyrstu gerð skáldsögunnar Sögumaður (þar sem minnst er svolítið á La Grande bouffe) hafði ég þetta atriði með – eða réttara sagt: lýsingu á því – en tók það út ásamt fleiri senum, þegar bygging sögunnar breyttist frá því sem ég hafði upphaflega séð fyrir mér. Dómarinn Philippe (leikinn af Philippe Noiret – og nú verð ég að gefa mér að þeir sem lesa þetta þekki þráð og efni La Grande bouffe) er einn eftir á lífi af þeim fjórum herrum sem myndin segir frá. Hann og Andrea, kennslukonan sem heimsækir þá:

Philippe sest á bekkinn. Hann heldur á innrömmuðu myndinni af móður sinni. Hann er í hvítri skyrtu, svörtu vesti, og með ljóst ullarsjal yfir herðum. Hann er veiklulegur að sjá. En þó ekki svo að mann gruni að þarna muni hann deyja. Það hvarflar jafnvel að manni að hann muni lifa þetta af; að þau Andrea muni lifa hamingjusöm saman það sem eftir er ævinnar; að ævintýrið taki á sig mynd hinnar fáguðu formfestu.

Og vissulega bendir allt til þess, þegar Andrea kemur labbandi í átt til Philippe, með mjög svo ákveðin form á flötum kökubakka: tvö stór, fagurbleik brjóst úr einhvers konar búðingi, með brúnum geirvörtum ofan á.

Hún leggur bakkann varlega frá sér á borðið við bekkinn, og brosir fallega til Philippes. „Þetta er fyrir þig. Þetta er mjög sætt og gott.“ Svo strýkur hún kolli hundsins sem hafði haldið Philippe félagsskap á bekknum, og Philippe byrjar að fá sér af búðingnum; hann stingur skeiðinni í hægra brjóstið.

Andrea sest hjá honum. Hún strýkur á honum bakið, og horfir ástúðlega til hans. Á milli þess sem hann stingur upp í sig skeiðinni telur Philippe upp nöfn hinna látnu félaga sinna.

„Marcello. Michel. Og Ugo.“

Hann verður klökkur í framan. Og segir: „Guð veit hvaða álit þeir hafa á mér. Þeim hlýtur að finnast ég hafa svikið þá. Svo sitjum við hér, tvö saman, hamingjusöm. Og þeir …“

Þau heyra bíl renna í hlað, og Andrea biður hann að bíða, hún ætli að athuga hver sé að koma. Og hún stendur upp og gengur út úr myndrammanum.

Philippe heldur áfram að borða. Svo sjáum við hvítan sendiferðabíl bakka inn í garðinn, það er sams konar bíll og kom með kjötið frá slátraranum í upphafi sögunnar. Það er komin ný sending. Slátrarinn (síðskeggjaður maður, feitur, í skítugum slopp) spyr Andreu hvar þeir eigi að setja kjötið; og hún bendir á garðinn.

„Garðinn?“

„Já, í garðinn.“

„En þetta er fínasta kjöt.“

„Ég veit það. Setjið það í garðinn.“ Og hún bendir þeim hvar.

Þeir hlýða henni. Þeir byrja að tína út úr bílnum heilu skrokkana, og henda þeim á jörðina.

Philippe er langt kominn með annað brjóstið þegar Andrea kemur aftur til hans.

„Það var að koma ný sending af kjöti,“ lætur hún hann vita.

„Lítur það vel út?“ spyr hann.

„Mjög vel.“

Svo hrópar Philippe til slátraranna að þeir megi skila til yfirmanns þeirra að kálfakjötið í síðustu sendingu hafi verið annars flokks. Það reynir á hann að hrópa. Hann er orðinn þreyttur. Hann er að niðurlotinn kominn. Hann er að fyllast af búðingi. En heldur samt áfram að borða.

Allt í einu virðist sem hann nái ekki andanum; hann segist ekki geta meira; hann missir út úr sér síðasta bitann, og hallar höfðinu fram, en reisir sig við aftur.

Andrea tekur um öxl hans.

Hann biður hana að afsaka; honum segist vera kalt. Og hann hvílir höfuðið á brjósti Andreu; hann tekur um upphandlegg hennar, og endurtekur að honum sé kalt. Svo stynur hann, kippist snöggt til, og lognast síðan út af með lokuð augun, með ennið á ljósblárri peysu Andreu.

Það tók fljótt af.

Andrea hrópar nafn hans; hún kyssir hann á ennið og leggur hann varfærnislega frá sér við arminn á bekknum. Svo breiðir hún teppið betur yfir magann á honum, hagræðir sjalinu um axlirnar og stendur upp til að fara. Þegar hún gengur upp á veröndina og inn í húsið, eru slátrararnir enn að losa farminn á mölina, innan um hundana; og annar þeirra hengir einn skrokkinn milli greina á nöktu, haustlegu tré – og hlær og gerir grín.

17. desember 2015

“All the people run from the horizon” (Julia Holter: How long? af Have you in my wilderness, plötu ársins skv. popptímaritinu) Ég veit ekki nákvæmlega um hvað lagið fjallar, ef hægt er að segja að það fjalli um eitthvað, umfram það að vera bara lag og texti. En í textanum eru líka þessar línur: Do you know the proper way to ask for a cigarette?/I´m asking before winter comes.

 

16. desember 2015

Góður vinur minn á það til að bera ýmislegt bóka- eða blaðakyns inn á heimilið. Um daginn kom hann með nýjasta tölublað bókmenntatímaritsins Skjaldar. Í því tölublaði er að finna 84 ára gamlan pistil eftir Tómas Guðmundsson skáld, sem upphaflega birtist í Stúdentablaðinu. Pistillinn nefnist Eftir kl. 10 á kvöldin. Ég get ekki stillt mig um að birta fyrstu málsgrein textans (sem lýkur um leið og skáletrið hættir), bara rétt til að kveikja í þeim sem gætu hugsað sér að lesa áfram: Vinur minn hefur sagt mér frá manni vestur í bæ sem alltaf er farinn að hátta kl. 10 á kvöldin. Oft hef ég hugsað um það hvernig heimurinn muni líta út í höfði slíks manns og talsvert myndi ég vilja á mig leggja til að öðlast þekkingu á sálarástandi hans og lífsskoðunum ef þess væri kostur, en þar sem reynsla mín er sú að engum manni sé unnt að kynnast til hlítar fyrri en eftir kl. 10 á kvöldin, þá segir sig sjálft að þetta getur ekki orðið. Og svo framvegis. En fyrst hér er á annað borð minnst á vini (fyrst þann sem kom með Skjöld inn á heimilið, síðan vin Tómasar sem segir honum frá kl. 10-manninum), þá er ekki úr vegi að bæta þriðja vininum við, þótt sá vinur flokkist fremur í huga mér sem kunningi en vinur. Á þennan mann hefur verið minnst á áður; þetta er hinn nafnlausi höfundur frá 14. desember sem hafði áhyggjur af því að honum tækist ekki að hemja þá löngun sína að láta hafa eitthvað eftir sér opinberlega um ástandið í heiminum eða einhvers konar samfélagsmál. Hann hringdi í mig í gærkvöldi. Og hann var ekkert sérlega ánægður. Með mig, það er að segja. „Maður hittir þig á förnum vegi,“ sagði hann, „og fær síðan að lesa um það nokkrum dögum síðar í einhverjum miðli sem allur heimurinn hefur aðgang að.“ „Það les þetta enginn sem ég er að skrifa,“ svaraði ég. „En af hverju ertu þá að birta þetta?“ spurði hann. „Ég er nú meira svona að tala við sjálfan mig, frekar en að tala við aðra,“ sagði ég, og bætti við: „Kannski er þetta eintal sálarinnar, eins og Þórbergur kallaði það.“ Og ég reyndi að sannfæra hann um að enginn færi að velta því fyrir sér hvaða höfundur þetta væri sem ég sagðist hafa hitt um daginn; í fyrsta lagi læsi enginn þessi skrif mín á vefnum, eins og ég hafði þegar sagt honum; í öðru lagi væri hann (höfundurinn áhyggjufulli) ekki svo vel þekktur sem höfundur að einhver færi að brjóta heilann um hver þetta gæti verið sem ég (svona álíka þekktur höfundur og hann) væri að segja frá að ég hefði hitt á förnum vegi. Það væri t.d. annað mál ef X (mjög þekktur höfundur, sem ég læt vera að nefna með nafni) hefði hitt Y (annan álíka þekktan höfund, sem ég nefni ekki heldur, af þeirri ástæðu að þá gæti ég átt von á fleiri símtölum) – ef þessir tveir höfundar, X og Y, hefðu hist á förnum vegi, og annar þeirra (eða jafnvel ég sjálfur) myndi segja frá því á alheimsvefnum, myndu lesendur þeirra (sem ég veit að eru mun fleiri en okkar beggja samanlagðir, mínir og áhyggjufulla höfundarins) virkilega fyllast áhuga; þeir myndu setja af stað einhvers konar rannsókn. En nóg um þetta; þetta leiðir ekki neitt. Núna er ég aftur á móti búinn að nefna bæði Tómas Guðmundsson og Þórberg Þórðarson í sömu færslu; þessa tvo menn sem Matthías Johannessen talaði við og sagði frá í viðtalsbókunum sínum. Og það minnir mig á að mig langar til að lesa nýju bókina sem var að koma út um Þórberg Þórðarson. Ég mæli líka með pistlinum eftir Tómas.

14. desember 2015

Ungverski rithöfundurinn Dezsö Kosztolányi, höfundur hinnar yndislegu bókar Lævirkinn, lýsti sjálfum sér sem Homo aestheticus, andspænis annarri tegund af rithöfundum: Homo moralis. Af hugrekki og léttúð kaus hann sem höfundur að lýsa hinu „þvaðrandi yfirborði“ en ekki hinu „þögla djúpi“, eins og hann á að hafa orðað það. Með öðrum orðum: hann þóttist einungis hafa eitt yrkis- eða umfjöllunarefni: dauðann. „Ekkert annað,“ skrifaði hann í dagbókina sína. „Það var ekki fyrr en ég var tíu ára, þegar ég horfði á afa minn látinn, þá manneskju sem ég elskaði meira en annað fólk, sem ég varð að mannveru. Það var ekki fyrr en þá sem ég varð að skáldi, listamanni og hugsuði. Hin mikla gjá sem skilur lifendur frá dauðum, þögn dauðans, gerði mér skiljanlegt að ég varð að taka mér eitthvað fyrir hendur. Ég byrjaði að yrkja.“ Svo segist hann sem skáld hafa einungis frá einum hlut að segja; að hann sé að deyja. „Ég hef algera fyrirlitningu á þeim höfundum sem þykjast hafa frá einhverju öðru að segja: frá félagslegum vandamálum, samskiptum karlmanna og kvenna, kynþáttaerjum, og svo framvegis og svo framvegis. Mér verður bókstaflega illt af því að hugsa um þröngsýni þeirra. Hversu yfirborðskennt er starf þeirra, aumingja mannanna, en svo eru þeir svo óendanlega stoltir af því.“ Um daginn hitti ég íslenskan rithöfund (ég ætla ekki að gera honum það, og ekki mér heldur, að nefna hann á nafn) sem trúði mér fyrir því að á undanförnum vikum hefði hann oft verið að því kominn að segja meiningu sína á hinum ýmsu umræðu- og deiluefnum líðandi stundar; að viðra skoðun sína opinberlega. En hingað til hefði honum tekist að halda aftur af sér. „En hversu lengi held ég það út?“ spurði hann mig, án þess vitaskuld að búast við svari. Og hélt síðan áfram: „Maður á ekki að segja neitt um neitt.“ (Ég held ég sé að vitna til hans svona nokkurn veginn orðrétt.) „Maður á að láta þögnina segja það sem manni virkilega liggur á hjarta. Fyrir utan það að manni liggur í raun aldrei neitt á hjarta, nema hugsanlega í nokkrar mínútur í senn, í mesta lagi klukkutíma eða tvo.“ Ég held ég hafi tekið undir hvert einasta orð. Og gerði mitt besta til að hughreysta þennan kunningja minn með áðurnefndum orðum ungverska rithöfundarins, höfundar Lævirkjans – þótt eftir á efist ég um að hughreystingar hafi verið þörf.

12. desember 2015

Laugardagur er ekki verri en hver annar dagur til að leiðrétta það sem sagt var á föstudegi. Mér varð nefnilega á að segja (lesist: skrifa) í gær að franska skáldið Max Jacob hefði snúist til kaþólskrar trúar á sínum efri árum. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Max Jacob varð aldrei neitt sérlega gamall – ekki nema 68 ára þegar hann lét lífið í útrýmingarbúðum nasista í Drancy – en hann var tiltölulega ungur maður þegar hann tók kaþólska trú (í skiptum fyrir gyðingdóminn); hann var um fertugt. Það tók hann reyndar sex ár að taka þá ákvörðun, því sex ár liðu frá því að Kristur birtist honum óvænt í kvikmyndahúsi og þangað til Max skipti um trú; og það var einmitt sýnin í bíósalnum, að sögn Max, sem olli trúskiptunum. Þannig að hann hefur gert þetta af yfirlögðu ráði. Nú ætla ég ekki að dæma um hvort ég sjálfur geri hlutina af yfirlögðu ráði almennt; ég hallast svona frekar að hinu gagnstæða; mér finnst ég aftur á móti skulda Max eitthvað fyrir að láta út úr mér þessa vitleysu um aldur hans við trúskiptin. Og til að bæta honum þetta upp (lesist: til að mér líði betur), þá ætla ég að birta hér annað ljóð eftir hann, ljóð sem kemur í beinu framhaldi af því sem ég birti í gær, en það nefndist Bókmenntalegir mannasiðir I. Framhaldsljóðið birtist líka í tímariti Bjarts og frú Emilíu árið 1993 (í þeirri íslensku mynd sem það birtist hér); það heitir einfaldlega Bókmenntalegir mannasiðir II: Kaupsýslumaður nokkur frá Havana hafði sent mér vindil vafinn í gull sem þegar hafði verið reyktur svolítið. Skáldin sem sátu við borðið með mér héldu því fram að hann hefði verið að grínast með mig, en Kínverjinn gamli sem hafði boðið okkur heim til sín sagði þetta vera gamlan sið í Havana og tákn um mikla virðingu. Þá sýndi ég þeim tvö stórkostleg kvæði sem einn lærður vinur minn hafði þýtt og skrifað fyrir mig á pappírssnepil eftir að ég hreifst af þeim í upplestri hans. Skáldin sögðu þessi kvæði vera vel þekkt og einskis virði. En Kínverjinn gamli sagði það ekki mögulegt, þau væru aðeins til í einu handskrifuðu eintaki á palímáli, máli sem enginn þeirra væri kunnugur. Þá litu skáldin hvert á annað og sprungu úr hlátri eins og smákrakkar og Kínverjinn gamli horfði á okkur dapur.

11. desember 2015

Um daginn minntist ég aðeins á rithöfundinn Joris-Karl Huysmans í tengslum við nýjustu bók Michels Houellebecq, sem ég gerði að umtalsefni; en Huysmans leikur svolítið hlutverk í þeirri bók. En þetta var um daginn; núna er annar dagur. Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna það gerist, en í augnablikinu, í miðju hinu svokallaða jólabókaflóði, verður mér mjög oft hugsað til áðurnefnds Huysmans, hvernig hann myndi taka sig út í flóðinu, og mér verður ekki síður hugsað til annars fransks rithöfundar, gyðingsins Max Jacob, sem eins og Huysmans snerist til kaþólskrar trúar á efri árum. Það má vel vera að mér hafi orðið hugsað til fleiri látinna rithöfunda í þessu tilliti (hvernig þeir tækju sig út, væru þeir lifandi, í íslenska jólabókaflóðinu), en ég ætla láta nægja að telja upp þessa tvo, Huysmans og Max Jacob. Og af því tilefni langar mig til að rifja upp gamla þýðingu (eða snörun öllu heldur) á prósaljóði eftir Max Jacob; mér finnst það á einhvern hátt eiga mjög vel við á þessum vikum sem nú líða – eða kannski langar mig bara til þess að það eigi við. Ljóðið, sem upphaflega birtist í bók Max, Teningabauknum, árið 1918, og á íslensku í tímariti Bjarts og frú Emiliíu árið 1993, kallast Bókmenntalegir mannasiðir 1: Þegar hópur bókmenntamanna hittir annan hóp er venjan, þegar tekist er í hendur, að fylgja því eftir með brosi. Þegar hópur bókmenntamanna hittir einn stakan herra, og heilsast er með virktum, taka kveðjurnar að dvína frá einum til annars, og það kemur fyrir að sá síðasti í hópnum heilsar bara alls ekki. Ég á víst að hafa sagt á prenti að þú hafir bitið konu nokkra í geirvörtuna og henni hafi blætt. Ef þú trúir því virkilega á mig, af hverju heilsarðu mér þá? Heldurðu að ég myndi heilsa þér ef ég teldi þig trúa því á mig? Svo gerðist það að við hittumst heima hjá einni af þessum barmmiklu konum með gleraugu og prjónasjal á herðunum, þú tókst í hönd mína, og við enduðum uppi í svefnherbergi hennar og þú fórst að henda koddunum hennar í hausinn á mér. Koddarnir voru mjög í anda átjándu aldarinnar. Það er sagt að ég hafi hent þeim aftur í þig í stað þess að biðjast fyrirgefningar, en ég er ekki viss um að það sé alveg rétt. Þegar hópurinn minn hittir þig og ég er síðastur í röðinni og heilsa þér ekki, þá máttu ekki halda að það sé út af þessu með koddana; en ef hópurinn minn hittir hópinn þinn og skipst er á hefðbundnum brosum, skaltu ekki halda að neitt þeirra komi frá mér.