11. febrúar 2017

Dagur í lífi … Partur af degi í lífi … Faðirinn á heimilinu (pater familias, svona nokkurn veginn) vaknar snemma, hann les tvö dagblöð sem hann fór niður í lyftunni að ná í, hann myndar sér skoðun á því sem hann les (ekki samt alveg öllu), og styrkist í einbeittri skoðun sinni sem hann hafði á ákveðnu málefni, svo sendir hann tölvupóst með gömlum leikritstexta til manneskju sem vill kanna orðnotkun í verkinu (hann kann ekki að orða það betur; kannski vill hún bara telja orðin), og að því loknu les heimilisfaðirinn nokkur ljóð í Ljóðbréfi nr. 1, sem hann fékk sent í póstinum í gær (og ferjaði upp í lyftunni, alveg eins og dagblöðin); hann hrífst af nokkrum ljóðum í bréfinu (og undrast yfir einu þeirra, þar sem ljóðmælandinn hefur hvorki meira né minna en útsett eigin erfidrykkju, sem virðist eiga að fara fram á Hótel Borg við Austurvöll), og hann hrífst líka af því hvernig bréfið er uppsett og prentað, þetta er mjög svo fallegur gripur. En hvað gerir hann næst? Hann undirbýr dagskrá eftirmiðdagsins, sem felur í sér leik og starf, og hann undrast (aftur) hversu hátíðlegt orðalag hann notar yfir þetta allt saman. Og hann passar sig á að lýsa ekki því sem aðrir á heimilinu aðhafast, ekki nema með sjálfum sér – hann kann sig að því leyti. Svo fer hann inn á skrifstofu (hann er reyndar löngu kominn þangað) og setur í geislaspilarann Rock and roll með Velvet Underground (úr hvíta kassanum sem hann fékk í jólagjöf frá hinum á heimilinu):

 

10. febrúar 2017 (aukafærsla)

Rétt áðan, þegar ég fékk mér með kaffinu eina 40% fuldkorn-kexköku frá Svíþjóð, með „custard“ ofan á (ægilega fínu „spreði“ sem kom sem gjöf inn á heimilið um daginn), þá vildi ekki betur til en svo, á því augnabliki sem ég opnaði efri skápinn í eldhúsinu til að ná mér í kaffibolla, að ég hóstaði mjög kröftuglega (búinn að vera með flensu, og eitthvað aðeins eftir af henni); ég var nýbúinn að stinga upp í mig bita af kexkökunni með spreðinu, og við hóstann opnaðist munnurinn, og þónokkur hluti kexbitans líkt og þaut út úr honum, og inn í skápinn, yfir undirskálar og utan í veggi nokkurra kaffibolla, og ofan á hilluna í skápnum – það tók mig svolítinn tíma að hreinsa þetta upp. En það er frá núna. Ég má aftur á móti til með að segja frá öðru sem gerðist um daginn. Ég fór á hádegisfund í Háskólanum, sem haldinn var í tilefni af umræðunni um leikritið Gott fólk. Ég fór með Hermanni Stefánssyni. Við erum nágrannar, við Hermann. Það varð að samkomulagi að hann myndi ná í mig á sínum bíl (reyndar var það ekkert rætt sérstaklega; hann einfaldlega hringdi í mig og spurði hvort hann ætti ekki að kippa mér með; hann væri að fara á sínum bíl); og síðan eftir fundinn keyrði hann okkur Halla Jóns, sem við hittum á fundinum, til baka; mig heim til mín og Halla upp í Listaháskóla, þar sem hann var að fara að kenna. Það er erfitt að hugsa sér betri félagsskap í bíl en þá Hermann og Halla. Þegar við ókum sem leið lá burt frá Háskólanum (Hermann hafði lagt bílnum í Aragötunni) ræddum við eitthvað um efni nýliðins fundar, en svo þegar við fórum yfir Tjarnarbrúna byrjaði ég allt í einu að tala um hús Thors Jensen við Fríkirkjuveginn. Bara eins og allt í einu, eins og mér fyndist að við þyrftum nauðsynlega að skipta um umræðuefni (sem var þó alls engin ástæða til). Ég skil ekki hvað mér gekk til, enda væri ég ekki að minnast á þetta hér ef ég botnaði eitthvað í því. Við Hermann og Halli ræddum eitthvað aðeins um hús Thors (sem núna er í eigu afkomanda hans, Björgólfs Thors), og út frá því ræddum við um íslenska tónlistarmenn sem við höfðum séð spila í kjallara hússins fyrir mörgum árum, nokkrum áratugum. Það var því ekkert meira talað um hádegisfundinn og allt það sem á honum var rætt. Hermann lét mig síðan út úr bílnum á horni Borgartúns og Nóatúns; Halli hélt áfram með honum í átt að Laugarnesinu.

10. febrúar 2017

Á blaðsíðu 289 í bók Gests Guðnasonar og Kristínar Ólafsdóttur, ´68 Hugarflug úr viðjum vanans, er mynd af Geirlaugi Magnússyni, skáldi og þýðanda, að stíga grískan dans að loknu Grikklandskvöldi Æskulýðsfylkingarinnar í Kópavogi. Það segir ekki hvenær myndin er tekin, en þetta er einhvern tíma í kringum 1970. Auk Geirlaugs eru á myndinni Gylfi Már Guðbergsson, Magnús Sæmundsson, Páll Halldórsson, Frans A. Gíslason og Ragnar Stefánsson (og einhver einn í viðbót, með hálft andlitið greinanlegt á milli Gylfa Más og Geirlaugs. Svo sést reyndar í bak einnar manneskju til hliðar við Gylfa, sem mér sýnist vera kvenmaður). Eins og segir í myndtextanum stígur Geirlaugur hinn gríska dans í átt að veitingaborðinu; hann kemur úr vinstra horni myndarinnar og dansar sig í átt að hægra horninu, þar sem Páll, Frans og Ragnar standa við borðið, allir glaðhlakkalegir á svip, enda kaffibrúsi á borðinu, sykurkar og nokkrir hvítir bollar. Geirlaugur, sem er í dökkum jakka, líklega flauelsjakka, og svartri skyrtu með bindi, hugsanlega rautt eða blátt (það nær niður á miðjan maga), hann baðar út höndunum, lætur fingurna vísa niður í gólfið, og er dreyminn á svip – það er eins og grísk tónlist hljómi í kaffistofunni, sem ég efast þó um að hafi gert í raun og veru; það eina sem minnir á Grikkland á myndinni (fyrir utan Geirlaug að dansa gríska dansinn) er plakat á veggnum fyrir aftan Gylfa Má, sem á stendur Frihet åt Grekland. Þessi mynd er alveg stórkostleg. Ég hvet alla til að fletta upp á bls. 289 í ´68 Hugarflug úr viðjum vanans, og skoða hana. Auðvitað er svolítið einkennilegt að Geirlaugur sé ekki með sígarettu á henni, hvorki í munninum né höndunum, en ég geri ráð fyrir að hann hafi kveikt sér í einni eftir að hann fékk sér kaffið sem bíður á borðinu – þangað sem hann stígur hin grísku dansspor. Kannski hefur hann verið með pakka af Hellas í tilefni dagsins? Ég giska samt á að í jakkavasa hans sé pakki af Gauloises. Mikið er óþægilegt að geta ekki framkallað hreyfingu í svona ljósmynd, að fá ekki að vita hvað gerist á næsta augnabliki. Ragnar Stefánsson horfir þannig á kaffibrúsann á borðinu að maður ímyndar sér að hann hafi áhyggjur af því að ekki sé nóg kaffi í honum fyrir alla á myndinni, plús auðvitað hina sem eru fyrir utan rammann.

1. febrúar 2017

Fyrir tveimur, þremur árum heyrði ég Víking Heiðar Ólafsson tala um tónlistargagnrýni í útvarpinu. Hann var að gagnrýna íslenska gagnrýni. Meðal þess sem hann benti á, og mér fannst mjög eftirminnilegt, var að sá dómur sem tónskáld og tónlistarmenn fá fyrir tónleika í þeim örfáu miðlum sem sinna gagnrýni – yfirleitt ekki nema einum eða tveimur, þá aðallega Fréttablaðinu og Morgunblaðinu – er oft eina heimildin um tónleika, það eina sem fólk í framtíðinni getur lesið um það sem gerðist á sviðinu. Víkingur tók nokkur dæmi um lítt uppbyggilega gagnrýni, og það vildi svo til að ég kannaðist við einhver þeirra dæma, meðal annars það sem Jónas Sen, gagnrýnandi Fréttablaðsins, sagði um eina tónleika, að hann hefði saknað þess að vera ekki með eyrnatappa með sér, eitthvað á þá leið, ég man það ekki nákvæmlega. (Ég ætti kannski að fletta því upp. Það sem Jónas Sen sagði orðrétt var: „Eyrnatappar hefðu átt að fylgja miðunum á tónleikana …“ Og fyrst ég er búinn að finna þetta á netinu, þá er ekki úr vegi að kippa því með sem Jónas rammaði inn í lokin sem „niðurstöðu“: „Grófur og óskáldlegur söngur gerði manni lífið leitt.“ Auðvitað er ekki rétt af mér að vera að rifja þetta upp, allavega ekki gagnvart tónlistarfólkinu, en mér finnst það réttlætanlegt í því skyni að sýna fram á aðferð Jónasar Sen sem gagnrýnanda. „… gerði manni lífið leitt.“ !!!) Ástæða þess að ég er að tala um þetta núna er nýr dómur Jónasar Sen í Fréttablaðinu í dag, um tónleika sem haldnir voru í Eldborg í Hörpu fyrir nokkrum dögum. Jónas gefur tónleikunum tvær stjörnur af fimm – allt í lagi með það, fyrst verið er að nota stjörnur á annað borð – en það sem mér finnst ekki allt í lagi – og auðvitað er það smekksatriði – er hvaða orð, eða orðbragð, Jónas notar til að „gagnrýna“ það sem fram fór á sviðinu. Ég er að hugsa um þetta út frá því að gagnrýni eigi að vera uppbyggileg – en líklega hugsar Jónas Sen ekki um gagnrýni á þeim nótum. Ég ætla að taka þrjú dæmi úr dómi dagsins: „Að vísu var einhver gáfuleg útskýring í tónleikaskránni, en hún varpaði ekki neinu ljósi á óskapnaðinn sem heyrðist.“ „Útkoman var fúl, en um leið viðeigandi endir á fremur misheppnaðri dagskrá.“ Og síðasta dæmið er hin innrammaða „niðurstaða“ Jónasar: „Ómerkilegir tónleikar þar sem fátt var um innblástur.“ Jesús minn. Óskapnaður, fúl útkoma, ómerkilegir tónleikar …!!! Ef einhver er ómerkilegur, fúll, misheppnaður, en umfram allt alveg laus við að vera gáfulegur, þá held ég að nokkuð ljóst sé hver sá einstaklingur er.

31. janúar 2017 (aukafærsla)

Vegna vandræðanna með Meisam Rafiei, íslenska landsliðsmanninn í Tae Kwondo, sem Dónald Trump vill ekki að komist til Bandaríkjanna til að taka þátt í Tae Kwondo-keppninni sem á að halda í Bandaríkjunum, segir nýskipaður utanríkisráðherra Íslands, sá sem skipaður var af „klaufanum“, nýja forsætisráðherranum á Íslandi, að íslensk stjórnvöld líti málið mjög alvarlegum augum, að þau ætli að ræða við „þar til bæra“ aðila, meðal annars bandaríska sendiráðið á Íslandi. Utanríkisráðherra bendir hins vegar á að á Íslandi sé enginn starfandi sendiherra Bandaríkjanna, eftir að Robert Barber fór af landi brott í kjölfar þess að ný ríkistjórn tók við völdum í Washington. Auðvitað er þetta alvarlegt mál, að Meisam Rafiei komist ekki til Bandaríkjanna til að taka þátt í keppninni – mér dettur ekki einu sinni í hug að grínast með það, jafnvel þótt hér sé „bara“ um að ræða íþróttakeppni, og að ég kannist ekki einu sinni við nafnið á íþróttinni – en það sem mig langaði til að nefna í þessu sambandi er að ég hef beinlínis fylgst með því þegar Robert Barber yfirgaf íbúð sína í Reykjavík. Hann bjó nefnilega við hliðina á mér. Ég fylgdist með því þegar myndirnar á veggjum íbúðarinnar voru teknar niður ein af annarri; þegar slökkt var á lömpunum á gólfinu (standlömpunum) og þeim pakkað niður; þegar slökkt var á sjónvarpinu í stofunni (sem gerðist í miðjum teiknimyndaþætti, sem ég býst við að hafi verið á Cartoon Networks); og þegar sófanum fyrir framan sjónvarpið var rennt í átt að útidyrahurðinni (hugsanlega lyftuhurðinni, því mér skilst að lyfta opnist beint inn í íbúðina). Svona gerast breytingarnar í heiminum: Robert Barber fer heim til sín – til Bandaríkjanna – og Meisam Rafiei er ekki hleypt inn í Bandaríkin til að keppa í Tae Kwondo. Ég sakna Roberts úr nágrenninu, jafnvel þótt ég hafi aldrei hitt hann – mér fannst bara eins og ég nyti góðs af öryggisgæslunni í kringum blokkina hans – og ég er að hugsa um að byrja að æfa Tae Kwondo. Og keppa, þegar ég er orðinn nógu góður. Sem gæti tekið einhvern tíma. En væntanlega verður þá búið að opna Bandaríkin aftur fyrir þeim sem iðka Tae Kwondo. Kannski er Tae Kwondo einhver stórhættuleg íþrótt?

31. janúar 2017

Núna erum við (við sem búum á jörðinni) komin með Bandaríkjaforseta sem rekur ráðherra sína á nóttunni. Og yfirmenn tollgæslu- og innflytjendaeftirlitsins. Sjá frétt í ríkisfjölmiðlinum:

„Donald Trump Bandaríkjaforseti leysti Daniel Ragsdale, starfandi yfirmann tollgæslu- og innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, frá störfum fyrirvaralaust í nótt. Hann var skipaður í embættið af Barack Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Uppsögn Ragsdale var tilkynnt tæpri klukkustund eftir að Trump rak Sally Q. Yates, starfandi dómsmálaráðherra.“

Nú er spurning hvort Dónald hafi sofnað fyrst, og legið þannig á ákvörðun sinni, þangað til hann vaknaði í nótt og gekk í málið. Eða hvort hann var vakandi fram á nótt, hafi látið vera að fara að sofa – Dónald Trump er jú bindindismaður á áfengi og tóbak, og eflaust kaffi líka, ég sé það alveg fyrir mér – og hann hafi síðan rekið þessa starfsmenn sína ósofinn, og kannski farið í háttinn eftir það? Sally Yates (sem var að vísu bara starfandi dómsmálaráðherra; hún var ráðin af Barack Obama) þarf að minnsta kosti ekki að vakna til vinnu í fyrramálið, ef hún fór þá að sofa yfirhöfuð. Daniel Ragsdale getur líka slakað á, og velt því fyrir sér í rólegheitum (hugsanlega í svefni, ef hann fór að sofa) hvort hann eigi að vakna. (Núna ætlaði ég, í framhaldi af þessu með Daniel og Sally, að lýsa því yfir að við hin gætum líka öll slakað á, en svo fannst mér það hljóma einhvern veginn of krúttlegt. Þannig að ég sleppi því. Ég veit samt ekki hvað ég á að segja í framhaldi af þessu með Daniel og Sally. Er ég hræddur? Nei, það hljómar líka of krúttlegt. Meira að segja nafnið Dónald hljómar of krúttlegt. Auðvitað gæti ég velt þessu fyrir mér fram eftir degi, en mér liggur á að senda færsluna af stað, því það fer bráðum að birta af degi í Bandaríkjunum – við erum fimm klukkustundum á undan þeim þar, eða fjórum, ég man það ekki alveg – og ég er búinn að vera að tala um „í fyrramálið“, að Sally eða Daniel muni vakna (eða vera enn vakandi) í fyrramálið osfrv. Best að segja ekki meira núna. Ég er að minnsta kosti vaknaður sjálfur – eftir að hafa sofið. Ég svaf á meðan Dónald rak Sally og Daniel.)

15. janúar 2017

RÚSSNESK TÓNLIST

 

„Ég set niður á blaðið fagran hljóm – og allt í einu ryðgar hann,“ sagði Alfred Schnittke.

 

Dimítrí Sjostakóvits var einhverra hluta vegna ekki mjög velviljaður Alfred Schnittke – kannski voru þeir um margt of líkir. Sjostakóvits var öllu vingjarnlegri við Sofiu Gubaidulinu.

 

„Mér finnst að þú eigir að halda áfram á þinni röngu braut,“ sagði hann við hana.

 

(Af því tilefni er hér fiðlukonsert Sofiu, In tempus praesens. Um leið minnir titill verksins mig á að allt í einu er fyrsti mánuður ársins hálfnaður. Sem er svakalegt.)

 

11. janúar 2017

Það er allt að fara að gerast:

 

Í sjávarútvegsmálum:

 

Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

 

Í landbúnaðarmálum:

 

Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

 

Í gjaldmiðlamálum:

 

Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands[…]

 

Í Evrópumálum:

 

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

 

Í stjórnarskrármálum:

 

Unnið verður að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár.

 

(Fengið að láni úr Kvennablaðinu, úr grein Viktors Orra Valgarðssonar: http://kvennabladid.is/2017/01/11/malamidlun-ekkert/)

10. janúar 2017

 

„Þetta er auðvitað allt saman tómur þvættingur og fyrirsláttur og ekkert nema pólitík.“ (Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið 7. janúar 2017) Með öðrum orðum – og algerlega berum orðum – viðurkennir verðandi forsætisráðherra að hann sé ekki í pólitík. Enda hefur lengi verið ljóst að hann er það ekki. Verðandi fjármálaráðherra nefnir síðan lygi verðandi forsætisráðherra „slaka dómgreind og klúður“. Og verðandi heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að endurskoða – og væntanlega taka aftur – orð sín um að forsætisráðherrum sem tengdir eru aflandsfélögum sé ekki stætt í embættinu. Honum finnst það allt í lagi núna. Ég vil fara aftur upp í sveit. Ég var nefnilega uppi í sveit (þótt „uppi í sveit“ finnist mér einkennilegt orðalag. „Úti í sveit“? …„í sveitinni“? … „in the countryside“ … „en el campo“ …). Ég var á Árbakka, á Hvítársíðu, í Reykholtssveit. Og þar gerði mikið veður eina nóttina, og í þykku myrkrinu í kringum húsið tóku að heyrast einhver ókennileg hljóð; og þessi hljóð urðu meiri og meiri, á meðan vitneskjan um hvað þeim ylli var engin – þetta hljómaði eins og einhver þungstígur væri reiður gagnvart pallinum fyrir utan. En svo kom skýringin – að minnsta kosti skýring sem hægt var að ímynda sér að hefði einhver skynsamleg rök. En þótt skýringin hafi komið, varð ekki mikill svefn þessa nótt. Og þess vegna var rænan ekki 100% í gær (eða 90%, 85%, 75%, 60%? … ég skal ekki segja hversu hátt hún mælist almennt). Ég kýs aftur á móti að líta svo á að þessi óhugnanlegu hljóð í Reykholtssveitarnóttinni hafi táknað reiði þeirra kjósenda Bjartrar framtíðar (og jafnvel Viðreisnar líka) sem enn líta svo á að þátttaka í ríkisstjórn eigi að fela í sér pólitík, ekki bara sérhagsmunavörslu. Og að forsætisráðherra landsins sé ekki lygari. Að landsmenn eigi að minnsta kosti að geta haft þá tilfinningu að forsætisráðherra segi stundum satt. En landsmenn eru ekki vanir því. „Landsmenn“? Er maður landsmaður? „Countryman“? Og núna eru landsmenn að fá yfir sig enn einn forsætisráðherra af þeirri sort sem ekki er hægt að reikna með að segi satt. Við (we, the countryfolk of Iceland) erum að fara úr öskunni í eldinn.

ps. í dag er eitt ár frá því David Bowie lést. Næsti kafli ætlar af því tilefni að hafa tóndæmi af youtube:

 

4. janúar 2017

Þeir sem kusu Bjarta framtíð í október síðastliðnum kusu Viðreisn. Og til að Viðreisn komist í ríkisstjórn þarf Sjálfstæðisflokkurinn að vera í forsæti. Eða framsæti. Ég þekki fólk sem kaus Bjarta framtíð. Eina leiðin til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum virðist hafa verið sú að kjósa Pírata. Þess vegna kaus ég Pírata. Ég myndi kjósa Pírata aftur. Samfylkingaratriðið í áramótaskaupinu er klassískt grín. Mér finnst að Smekkleysa eigi að gefa út lagið. Svo er ekki meira með það. Jólasýningar stóru leikhúsanna halda áfram að fá tvær stjörnur í Fréttablaðinu – mér er sagt að rithöfundur á facebook hafi spurt sjálfan sig (og þar með lesendur facebook) hvers vegna leiklistargagnrýni sé óvægnari en önnur listgagnrýni. Mér dettur í hug að svarið liggi í því – og þá er ég að hugsa um tveggjastjörnusýningar síðustu daga – að höfundar þeirra sýninga eru að semja texta í nafni leikskáldanna sem um ræðir; þeir eru að láta William Shakespeare og Halldór Laxness tjá sig um búsáhaldabyltinguna sem átti sér stað (ef hún átti sér stað) árið 2008 – og stöðu kvenréttinda á Íslandi árið 2016. Ég held ég skilji alveg hvers vegna leiklistargagnrýni síðustu vikna á Íslandi er óvægnari en önnur listgagnrýni.