17. nóvember 2016

Nú langar mig bara til að vitna í hið stórfína þakkarávarp Sigurðar Pálssonar í tilefni af verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar í gær:

„Með því að berjast fyrir hinni skáldlegu vídd tungumálsins þannig að fólk verði virkir notendur, skapandi lesendur og túlkendur tungunnar, og jafnframt með því að læra önnur mál, með öllu þessu erum við ekki bara að berjast gegn hinni eitruðu einsleitni heldur í raun beinlínis að hjálpa til við að byggja upp lýðræðislegt samfélag.“

Hin eitraða einsleitni … Það finnst mér vel orðað. Óvinur número uno. Og número dos ekki síður: sérhagsmunasamtök í stjórnmálum.

14. nóvember 2016

Nú veit ég ekki hvort maður hefur leyfi til að segja frá því sem gerist á facebook, sé maður ekki skráður þar inn sjálfur, en ég frétti af því að Ari Eldjárn grínisti hefði rekið augun í myndina sem fylgdi þessum bókardómi í DV og sagt frá því á facebook að hann hefði eitt augnablik haldið að myndin væri af Brynhildi Guðjónsdóttur leikkonu. Hann er ekki sá fyrsti sem ruglast. Og ekki númer tvö eða þrjú. Kannski mátti ég ekki segja frá þessu, en ég mátti til. Þó ekki væri nema til að ýta burt þeirri freistingu að láta einhver orð falla um þau orð sem þegar hafa fallið um Bjarta framtíð og fundina sem þeir sitja þessa stundina. Myndefni dagsins (fyrir utan myndina sem fylgdi dómnum hér fyrir ofan) er af samskonar plötuspilara og ég átti þegar ég var unglingur í unglingaherberginu mínu. Ég fann þetta á bland punktur is, og dauðlangar til að eignast svona aftur. En mun ekki láta það eftir mér. Samt myndi þessi græja nýtast mjög vel sem vinnugagn í tengslum við verkefnið sem ég vinn að; ég gæti meira að segja skráð hana í bókhaldið sem kostnað. En samt. Ég ætla að láta mér nægja að horfa (og hlusta ekki á gömlu vínilplöturnar sem ég geymi í geymslunni).

11. nóvember 2016

Ein af sterkustu minningum mínum frá útlöndum er sú að hafa séð Leonard Cohen á sama hóteli og ég dvaldi á (ásamt hinum Sykurmolunum) í New York árið 1988. Hótelið var Mayflower við Central Park West. Hann sat við gluggann á kaffiteríunni eða í lobbíinu, ég man ekki alveg hvort var; hann var í svargráum jakkafötum, og minnir mig svartri skyrtu eða rúllukragapeysu. Mjög smartur og elegant. Mér finnst reyndar svolítið skrítið að þessi minning sé jafn sterk og hún er, því ég hef aldrei haft mikil kynni af Leonard Cohen sem tónlistarmanni, hann hefur aldrei höfðað sérstaklega til mín. En þetta var í fyrstu heimsókn minni til Ameríku, og myndin af Cohen, þar sem hann sat þarna í sínum fallegu jakkafötum, hefur eflaust greipst í huga minn vegna þess að mér fannst að svona ættu menn að klæða sig. Og mér finnst það enn. Í næstu eða þarnæstu heimsókn minni til New York eignaðist ég reyndar jakkaföt ekki ósvipuð þeim sem Leonard Cohen klæddist þarna á Mayflower-hótelinu. Ég keypti þau samt ekki. Ég fékk þau frá starfsmanni á hótelinu sem við dvöldum á í þeirri ferð, Morgans-hótelinu á Madison Avenue. Starfsmennirnir voru allir klæddir sams konar fötum; mjög elegant, svargráum jakkafötum, sem eins og hótelið, voru afar fallega hönnuð, án þess þó að manni dytti í hug að nota orðið hönnun yfir þau. Einhvern veginn komst ég að því að það stæði til að endurnýja fatakost starfsmanna hótelsins – hvernig í ósköpunum komst ég að því? – og það varð úr að ég skipti við einn þeirra á glænýjum Sykurmolajakka (ég veit það hljómar fáránlega: það var nýbúið að framleiða einhverja voðalega popparajakka á okkur popparana, með nafni hljómsveitarinnar og eflaust einhverjum fleiri upplýsingum saumuðum í efnið, ég man það ekki alveg); ég skipti sem sagt á þeim jakka (sem starfsmanninum fannst ógurlega fínn og spennandi) og búningnum hans, svargráu Morgans-fötunum. Þetta eru einhver bestu viðskipti sem ég hef átt. Og líklega bestu föt sem ég hef átt sömuleiðis. Ég notaði þau mjög lengi, í nokkur ár, eða þar til buxurnar urðu eftir – þær gleymdust – í einhverri rútunni sem keyrði okkur milli borga í Evrópu. Jakkinn nýttist þó eftir það. En hvað með hótelið? Morgans er ennþá til, þótt eitthvað hafi útlitið breyst. Sömu sögu er ekki að segja um Mayflower-hótelið; það er horfið. Og núna er Leonard Cohen allur. Þegar ég fletti upp á netinu Leonard Cohen og Mayflower, þá birtist mynd af honum sitjandi við glugga á hótelinu, mynd frá 2001. Hann hefur sem sagt bókað sig aftur inn á hótelið við Central Park. En þótt ég sé ekki aðdáandi Leonards Cohen númer eitt (mig grunar reyndar að aðalástæða þess sé sú að ég á mjög erfitt með hversu framarlega rödd hans er alltaf höfð í hljóðblönduninni – ég veit: ekki mjög sannfærandi ástæða), þá finnst mér mjög leiðinlegt að hann sé dáinn. Það er sorglegt þegar svona sterk element hverfa úr heiminum. Og mér verður hugsað til annars Kanadamanns, Rufusar Wainwright. Rufus á barn með dóttur Cohens, Lorca Cohen. Og þeir voru góðir vinir, Leonard og Rufus. En áður en ég hætti, þá er hérna smá meira slúður: mér skilst að forræði dóttur Lorca og Rufusar, Viva Katherine Wainwright Cohen, sé bæði hjá móðurinni og Rufus og eiginmanni hans. Slúður lokast. Nú er bara spurning hvort maður dustar rykið af tónlistarmanninum og semur lag sem heitir Mayflower Hotel (því enn hef ég ekki reynslu af því að gista á Chelsea Hotel). Lagið gæti líka heitið Morgans Hotel. Það myndi fjalla um jakka. Popparajakka og jakkaföt.

Leonard Cohen, the influential singer-songwriter, at the Mayflower Hotel by Central Park in New York 2001. Photograph: Suzanne DeChillo/The New York Times

10. nóvember 2016

Béla dagsins:

 

 

Enska orðið crispy þýðir ekki bara stökkur eða ferskur, heldur líka ótvíræður og afdráttarlaus. Og gneistandi. Stundum verður maður að reiða sig á orðabókina. Og Bartók!

9. nóvember 2016 (aukafærsla)

Hinn myrki „nine eleven“:

 

„A month ago I tried to write a column proposing mean nicknames for president-elect Donald Trump, on the basis that it would be funny to turn the tables on him for the cruel diminutives he applied to others.

 

I couldn’t pull it off. There is a darkness about Trump that negates that sort of humor: a folly so bewildering, an incompetence so profound that no insult could plumb its depths.“

(Thomas Frank, The Guardian, 9. nóvember 2016)

9. nóvember 2016

„Ég vona að Donald vinni,“ sagði ég við Guðrúnu Eggertsdóttur í afgreiðslu Bókhlöðunnar um daginn; hún var á leiðinni til Chicago með syni sínum, og þau ætluðu að vera yfir kosninganóttina þar. „Þá verður kannski einhver hreinsun,“ bætti ég við. Og ég held ég hafi meint þau orð, að minnsta kosti á meðan ég var inni í Bókhlöðunni. Við Guðrún urðum samt sammála um að líklega myndi Hillary vinna. En nú hefur Donald unnið. Mér varð að ósk minni. Næsta ósk mín er sú að þessi úrslit skili sér inn í stjórnarmyndun á Íslandi; að hinum pólitískt ómögulega manni, formanni Sjálfstæðisflokksins, verði haldið frá ráðherrastóli, hvað sem það kostar. Nú þarf Ísland á pólitískum möguleika að halda, og hann er ekki bandarískur, heldur evrópskur. Mér líður eins og Ingvi Hrafn Jónsson sé orðinn valdamesti maður heims.

8. nóvember 2016

Ég lét mig hafa það að horfa á heilan þátt um Robin Williams í Ríkissjónvarpinu í gær, ætli hann hafi ekki verið sirka klukkustundarlangur, kannski rúmlega það. Og það var ekki minnst á bíómyndina Birdcage, þar sem Robin Williams lék hinn samkynhneigða föður unga mannsins sem hugðist giftast dóttur repúblíkanans, þess sem Gene Hackman lék. Nú sé ég fyrir mér að framleiddur verði þáttur um Gene Hackman, rúmlega klukkustundarlangur, þar sem ekki verður vikið einu orði að bíómyndinni Birdcage. Þessi heimur verður æ skrítnari með hverri mínútunni sem líður, og hverjum þætti sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu. Í ævisögu leikkonunnar Claire Bloom er heldur ekki minnst á þátttöku hennar í bíómyndinni The Haunting. Og samt skrifar Claire Bloom ævisöguna sjálf; þetta er sjálfsævisaga. En eins og svo oft áður, þá er þetta (sem ég hef nú gert að umtalsefni) alls ekki það sem ég ætlaði mér að tala um. Ég ætlaði mér að rifja upp setningu úr leikdómi í Fréttablaðinu sem birtist um daginn. Ég hafði punktað þessa setningu niður hjá mér, hún er úr dómi um leikrit eftir Sölku Guðmundsdóttur, Extravaganza, en það er alveg stolið úr mér hver skrifaði dóminn. Setningin er svona:

 

„Þrátt fyrir fögnuðinn sem fylgir ávallt nýjum íslenskum leikverkum þá er einhver ógnvænleg undiralda sem þjakar íslenska leikritun um þessar mundir.“

 

Ég varð mjög hugsi yfir þessum orðum. En veit ekki hvað skal segja. Væri ég sjálfur að skrifa leikrit (sem getur verið að ég sé að gera – það er skilgreiningaratriði), þá fyndust mér þessi orð gagnrýnandans í Fréttablaðinu mjög svo uppörvandi fyrir skrifin; ég myndi hreinlega stökkva á þessa undiröldu sem minnst er á, eins og brimbrettamaður/brimbrettakona sem stekkur á næstu öldu sem hann/hún sér. En undiralda er flóknara fyrirbæri en aldan á yfirborðinu. Satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvað þetta merkir. Það var heldur ekki útskýrt neitt frekar í ritdómnum – ég held að minnsta kosti ekki. „Undiralda sem þjakar …“ Ég þyrfti að fletta þessu upp aftur. En þangað til, þá verður þetta að fá að standa svona. Nú bíð ég bara eftir þættinum um Gene Hackman. Þar er leikari með undiröldu. French Connection, The Conversation, Unforgiven … Og Birdcage! Það hefði verið gaman að sjá fleiri myndir með Gene Hackman og Robin Williams saman. Fyrir stuttu las ég að Gene Hackman væri skáldsagnahöfundur. Ég verð að tékka betur á því. Og skoða betur ritdóminn í Fréttablaðinu.

 

4. nóvember 2016

Þegar ég nálgaðist Hörpu á hjólinu mínu í hádeginu í dag spurði ég sjálfan mig þeirrar spurningar (sjálfan mig, vel að merkja; það var ekki annað fólk nálægt nema nokkrir japanskir túristar, og amerískt par sem ég taldi víst að væri hérna vegna Iceland Airwaves – ég hefði svo sem getað varpað spurningunni til þessara „aðila“, en ákvað að beina henni frekar til mín, þar sem ég sat á hjólinu) hvort Alfred Jarry sálugi VÆRI ennþá hjólandi á hjólinu sínu, VÆRI hann á lífi. Augljósasta svarið VÆRI auðvitað það að Jarry VÆRI orðinn allt of gamall til að vera að þeysast um á reiðhjóli; hann VÆRI orðinn 143 ára gamall (VÆRI hann á lífi); en hitt svarið sem mér kom í hug var að líklegast myndi Jarry ferðast um götur borgarinnar (Parísar – nú eða Reykjavíkur, ef við gefum okkur að hann hefði ákveðið að dvelja hér í Reykjavík í ellinni, orðinn 143 ára gamall, væntanlega einn elsti rithöfundur sem sögur færu af) á mótorhjóli. Jú, ætli það ekki. Ég er kominn heim úr hádegishjólatúrnum (VÆRI varla að færa inn þessa færslu sitjandi á hjólinu), og eftir að hafa velt þessu með Jarry svolítið betur fyrir mér, er ég nokkuð viss um að hann myndi ferðast um götur borgarinnar á mótorhjóli en ekki reiðhjóli, eins og hann var vanur á sinni tíð. Ég ferðast aftur á móti um borgina á reiðhjóli, þegar ég er ekki á bíl eða fótgangandi (eða í flugvél). Oftast er maður fljótari að komast milli staða á reiðhjóli en bíl (innan borgarinnar, það er að segja); í gær var ég til dæmis heilan hálftíma að komast úr Mordor upp í Efstaleiti; ég lenti milli bíla á Kringlumýrarbrautinni, og bíllinn fyrir framan mig var einnig staddur milli bíla, og bíllinn á undan honum sömuleiðis, og svo framvegis. Það hefði tekið mig 12 til 14 mínútur að hjóla úr Mordor upp í Efstaleiti. Það hefði tekið Alfred Jarry sirka 6 til 7 mínútur á mótorhjólinu sínu, hefði hann laumað sér upp á gangbrautina (sem hann hefði auðvitað gert).

2. nóvember 2016

Stella, Bankastræti. Ég heyrði lesna auglýsingu frá þeirri búð (þeirri verzlun) rétt áður en útvarpsfréttir hófust kl. 7 í morgun. Ég man eftir að hafa farið í þá búð með föður mínum fyrir jólin til að kaupa Gazella-náttkjól fyrir mömmu. Ég man líka eftir að hafa notað Stellu í skáldsögu: … på et rødt, lodret skilt, som sad fast på det sydvestlige hjørne af det gamle stenhus nummer tre på Bankastræti: Stella. (þrjú på í hálfri setningu? er það ég eða þýðandinn?) Ég man … Reyndar man ég ekki. Ég ætlaði að tala um eitthvað annað hér, nú þegar nóvember nr. 2 er genginn í garð, en mig grunar að boðaður fundur forseta og hins pirraða sérhagsmunavarðhunds úr Valhalla, Háaleitisbraut, hafi ýtt öllum góðum áætlunum úr minninu, að minnsta kosti tímabundið. En Stella, Bankastræti, er betra umræðuefni en Valhalla, Háaleitisbraut. Björt framtíð myndi ekki skaðast af því að kaupa sér náttkjóla í Stellu; ég sé Óttarr og Björt (Bjarta?) og öll hin fyrir mér í fölbleikum Gazella-kjólunum, eins og pabbi keypti fyrir mömmu. Ég man eftir því að pabbi spurði mig: „Hvernig líst þér á þennan?“ Og ég svaraði: „Mér líst vel á þennan.“ „Þá kaupum við hann fyrir mömmu þína,“ sagði pabbi. Og ég man líka þegar mamma opnaði pakkann. Pabbi hefði aldrei kosið Bjarta framtíð, ef hann hefði grunað að þeir opnuðu á þann möguleika að fara í ríkisstjórn með Valhalla-samtökunum. Ég veit reyndar ekki hvað hann hefði kosið í nýafstöðum kosningum; hann var vanur að kjósa Alþýðuflokkinn, og síðan Samfylkinguna (sem hann var hálfpartinn orðinn afhuga áður en hann dó, fyrir tólf árum) – ég get samt alveg ímyndað mér að við hefðum orðið sammála um að kjósa Pírata að þessu sinni, þó ekki hefði verið nema vegna þess að þeir geta ekki hugsað sér að vinna með X-D, og X-D getur ekki hugsað sér að vinna með þeim. En nú er ekki annað eftir en að velja lag:

 

31. október 2016

John Lydon er væntanlegur til landsins, í þeim tilgangi að veita pönksafni í Bankastræti 0 blessun sína, og lesa upp ljóð eða texta á Airwords-dagskrá Iceland Airwaves. Ég á eina mjög skemmtilega minningu um John Lydon. Þegar Sykurmolarnir voru á tónleikaferðalagi með New Order og Public Image Ltd í Bandaríkjunum sumarið 1989, spiluðum við í Buffalo, New York. John Lydon átti eitthvert skyldfólk þar, sem hann hitti eftir tónleikana (þetta fólk er í minningunni afar venjulegt, ekki neitt í líkingu við John; eiginlega alveg eins og maður ímyndar sér að fólk frá Buffalo líti út); og einhvern veginn atvikaðist það að ég fór með John og þessu fólki upp á hótelherbergið hans. Ég man ekki mikið eftir þeirri heimsókn, var líklega búinn að drekka eitthvað meira en tvö eða þrjú glös í búningsherberginu (eins og John Lydon líka, geri ég ráð fyrir); en það sem festi þetta í minninu var að allt í einu, í miðju spjalli við skyldfólkið, ældi John yfir rúmið sem hann sat í – það var enginn formáli að því, eins og sjaldnast er þegar fólk ælir; hann afsakaði sig ekki einu sinni áður en spýjan kom út úr honum – og ég (sem eftir á að hyggja var þá ekki búinn að drekka eins mikið og ég ýjaði að hér áðan) hljóp til og náði í handklæði eða pappír inn á baðherbergi til að þurrka upp gubbið af rúmábreiðu Johns. Minningin nær ekki lengra en þetta. Ég man ekki hvort ég hjálpaði sjálfur til við að hreinsa upp æluna, eða hver viðbrögð hinna gestanna voru; ég man bara að ég náði í handklæði eða pappír. Mér finnst þó eins og að þetta atvik hefði ekki brotið upp heimsóknina eða breytt taktinum á nokkurn hátt, en það er kannski bara ímyndun. Ég man ekki einu sinni eftir neinni lykt. En talandi um lykt:

 

Drive to the forest in a Japanese car

The smell of rubber on country tar

Hindsight does me no good

Standing naked in this back of the woods

The cassette played poptones

I can’t forget the impression you made

You left a hole in the back of my head

I don’t like hiding in this foliage and peat

It’s wet and I’m losing my body heat

The cassette played poptones

This bleeding heart

Looking for bodies

Nearly injured my pride

Praise picnicking in the British countryside

Poptones

(John Lydon: Poptones)

 

ps. á forsíðu Fréttablaðsins í dag er nánast gefið í skyn að Óttarr Proppé (sem ég sé fyrir mér að verði viðstaddur opnun pönksafnsins í Núllinu) ætli að liðka til fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði í nýrri ríkisstjórn. Ég mun ekki bara rífa hár mitt og skegg (væri það til staðar) ef það gerist; ég mun éta hár Óttarrs (sem vissulega er til staðar). Og æla því. (En líklega er ég með óþarfar áhyggjur: Óttarr er of góður gaur til að láta sér detta eitthvað svona í hug.)

 

30. október 2016

Holdsveikissjúklingur íslenskra stjórnmála fær 29% atkvæða. Hinn sjúklingurinn 11,5%. Allt í einu er pólitískur ómöguleiki eitt fallegasta hugtak íslenskrar tungu. Ég lofaði sjálfum mér í morgun að hugsa ekki eina hugsun framar um pólitík, en nú þegar hádegið er liðið, og miður dagur tekur við, þá verður hugsunin um að hugsanlega vilji enginn hinna fimm flokkanna koma nálægt jafn sjúkum flokki og þeim holdsveika afar aðlaðandi. Ekki að sú hugsun sé eitthvað óskaplega ný eða fersk. En á sunnudegi fer maður ekki fram á það af sjálfum manni að hugsanir séu nýjar eða ferskar. Og ég er að hugsa um að hugsa aðeins meira um þetta. Og í tilefni dagsins að hafa músík. Joni og Jaco (af hinni frábæru plötu Don Juan´s Reckless Daughter):

28. október 2016

Föstudagslagið:

 

 

Þetta er af plötunni The Bells frá 1979. Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað með kosningar morgundagsins að gera – hvort nokkuð í heiminum hafi með þær kosningar að gera, annað en þær sjálfar – en þetta lag er í algerum sérflokki, eins og reyndar lagið á undan þessu á sömu plötu, All through the night. Það er ekki hægt annað en að láta það fylgja með líka. Þannig að það hlýtur því að vera föstudagslag nr. 2:

 

27. október 2016

„A beating would do me a world of good.“

 

Svo er ekkert annað eftir en að styrkja sig í þeirri ákvörðun að kjósa Pírata á laugardag. En styrkja sig með hverju? Kaffi eða nýjustu sjónvarpsauglýsingunni frá fjármálaráðherra? Eða búrbón? Og talandi um auglýsingar og búrbón, þá eru þær ansi fínar, auglýsingarnar frá Vinstri-grænum. Sú nýjasta þeirra fékk meira að segja einn Samfylkingarmann til að minna fólk á að hann væri á lista Samfylkingarinnar, og þar með dauðrota þann flokk í eitt skipti fyrir öll: að veita honum náðarhöggið:

 

http://www.visir.is/simon-sakadur-um-kerlingarvael-af-vinum-sinum-vegna-auglysinga-rassa/article/2016161028984

 

„A beating would do me a world of good.“

26. október 2016 (aukafærsla)

Það er auðvitað spurning hversu hátíðlega á að tala um nóbelsverðlaun í bókmenntum, en ég get samt ekki annað en verið sammála þessum orðum – ef, það er að segja, nóbelsverðlaunin hafa einhverja dýpri merkingu en að vera bara einhver verðlaun sem hópur fólks kemur sér saman um að veita einstaklingi:

 

For almost a quarter of a century, ever since Toni Morrison won the Nobel in 1993, the Nobel committee acted as if American literature did not exist — and now an American is acting as if the Nobel committee doesn’t exist. Giving the award to Mr. Dylan was an insult to all the great American novelists and poets who are frequently proposed as candidates for the prize. (Adam Kirsch, New York Times, 26. okt.)

 

Og alveg er ég viss um að Dulúðarmaðurinn (eins og Guðmundur Andri kallaði hann um daginn: Bob frá Duluth) er sammála Adam Kirsch. Enda er umræðan um það hvaða tónlistarmaður eigi næst að fá nóbelsverðlaun í bókmenntum farin að verða nokkuð áberandi. Ég hallast að Rufus Wainwright, þó ekki væri nema fyrir textann í laginu Montauk. Sem sagt: mér finnst líklegt að Rufus Wainwright verði næsti handhafi nóbelsverðlaunanna í bókmenntum frá þessu svæði í heiminum (Bandaríkjunum/Kanada) – ég óttast nefnilega að Leonard Cohen og Joni Mitchell verði fallin frá þegar sænska nefndin horfir næst til Kanada/Bandaríkjanna í sínum ákvarðanatökum.

26. október 2016

Í gær las móðir mín, Soffía Sigurjónsdóttir, upp smásögu eftir sjálfa sig í Seltjarnarneskirkju. Kirkjan býður stundum höfundum að lesa upp eitthvað – það er gott að vita til þess að í kirkjum landsins sé ekki bara lesið upp úr biblíunni. Mamma hefur ekki skrifað mikið um ævina, en fyrir stuttu datt henni í hug að setja á blað mjög skemmtilega – en líka svolítið krassandi – æskuminningu; og til að gera langa sögu (sem reyndar er ekki svo löng) aðeins styttri, þá frétti presturinn af því að mamma lumaði á sögu eftir sjálfa sig, og hann bauð henni að lesa hana upp í guðshúsinu. Það tók mömmu svolitla stund að ákveða sig hvort hún ætti að þiggja boðið, en hún gerði það að lokum (með hvatningu frá mér, því mér fannst sagan hennar góð); og hún spurði mig, eldri son sinn, hvort ég vildi ekki lesa upp með henni; hana langaði til að ég læsi ákveðna smásögu eftir mig sem gerist (eða á að gerast) í íbúð sem við bjuggum í við Hagamelinn á áttunda áratugnum. Ég tók vel í að lesa, en svo kom í ljós að ég komst ekki á þeim tíma sem lesturinn átti að fara fram, og það varð úr að Sigurjón bróðir tók að sér lesturinn. Hann ætlaði þó ekki að lesa smásöguna mína, og heldur ekki upp úr bókinni sem hann gaf út sjálfur á síðasta ári (Bókinni um vefinn) – nei, hann ákvað að lesa upp úr Hinni nýju sýn eftir Vestur-Íslendinginn Harald C. Geirsson, bók sem Smekkleysa gaf út árið 1990, með trúarlegum ljóðum (og reyndar veraldlegum í bland); honum fannst eins og tími væri kominn til að rödd Haraldar C. Geirssonar heyrðist í kirkjum landsins (þótt ekki yrði það rödd hans sjálfs, Haraldar, sem heyrðist; hann er ekki lengur meðal vor – eða Kanadabúa, réttara sagt). Það er annars skrítið til þess að hugsa að þessi ágæta bók sem rataði á fjörur Smekkleysu fyrir 26 árum skuli aldrei fyrr hafa verið kynnt meðal íslenskra kirkjugesta. En það gerðist sem sagt í gær. Sigurjón valdi nokkur kvæði úr bókinni, og las nokkur aðfararorð (sem ég, einn af útgefendum bókarinnar, hripaði niður í skyndi) – þetta gekk víst nokkuð vel í áheyrendur; það var spurt hvort bókin væri fáanleg í búðum, sem hún er því miður ekki: hún er uppseld fyrir löngu. Smekkleysa dreifði bókinni í nokkrar búðir, mest á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landi, og ef ég man rétt, þá fóru flest eintökin í Kirkjuhúsið í Kirkjuhvoli. Hvað varð um Kirkjuhúsið veit ég ekki – ég veit ekki heldur hvað varð um eintök bókarinnar. Ég veit samt um eitt eintak til sölu í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi; mér er sagt að það kosti 2500 krónur. En hér er kynningarbrotið um hinn vestur-íslenska Harald C., og tvö þeirra kvæða sem lesin voru upp í kirkjunni, auk eins annars, Trúvillunnar, sem okkur útgefendunum fannst á sínum tíma eitt af sterkari kvæðum bókarinnar.

 

HARALDUR C. GEIRSSON – Hin nýja sýn

 

Harla lítið er vitað um ævi Haraldar C. Geirssonar, annað en það að hann var af íslenskum ættum, bjó alla sína tíð í Toronto, Kanada, var ógiftur, og starfaði lengst af sem bókhaldari hjá vöruflutningafyrirtæki. Það fyrirtæki virðist ekki lengur vera til, og ekki hefur tekist að finna skyldfólk Haraldar, hvorki í Kanada né á Íslandi. Hann lést fyrir um það bil tíu árum. Þegar ljóðabók Haraldar, Hin nýja sýn, kom út á Íslandi árið 1990, fékk útgefandi bókarinnar, Smekkleysa, einhverjar frekari upplýsingar sendar frá höfundi, en þær upplýsingar hafa týnst, og ekkert virðist vera að finna um Harald á veraldarvefnum, utan fréttatilkynningu í íslensku dagblaði í tilefni af útgáfu bókarinnar. Haraldur sendi handritið að Hinni nýju sýn til Smekkleysu einu eða tveimur árum áður en ákveðið var að ritið út; útgefandi hafði þá hug á að bjóða honum til landsins af því tilefni, en ekkert varð af þeim áformum, hver sem ástæðan fyrir því kann að hafa verið, áhugaleysi Haraldar eða þröng fjárhagsstaða útgáfunnar á þeim tíma. Einhver tvö eða þrjú nýrri ljóð bárust frá Haraldi eftir að bókin kom út, en þau ljóð voru meira í ætt við tækifærisljóð, ort í tilefni giftingar og/eða afmælis. Það er óhætt að segja að Haraldur hafi haft nokkuð gott vald á íslenskri tungu, miðað við að hann ólst ekki upp við að tala málið, og kom aldrei til Íslands svo vitað sé. Eitt kvæðanna í Hinni nýju sýn lýsir flugferðalagi, en í ljósi þess að það hefst á línunum „Aldregi á ævi minni / upp í flugvél komið hef“, má ætla að Haraldur aldrei látið verða af því að ferðast til lands forfeðra sinna. Hvað varðar hinn trúarlega þátt Hinnar nýju sýnar, sem vissulega er fyrirferðarmestur í bókinni, þá er ekki hægt að efast um sannfæringu höfundar, sem virðist einlæg og hrein, þótt sitthvað í biblíuskilningi hans hafi ef til vill skolast svolítið til. Nokkur vandlætingartónn er í sumum kvæðanna, en það má segja að hann bæti þann tón upp með þeim létta takti sem sleginn er í fyrrnefndu kvæði um flugferðalögin, þar sem hann í lokalínunum gerir grín að sjálfum sér fyrir að vera dagdraumamaður, í fyllstu merkingu þess orðs: „En oft mig dreymir daga langa / dásemd himins meðan sef.“

 

TIL FLUGSINS

 

Aldregi á ævi minni

upp í flugvél komið hef.

En oft mig dreymir daga langa

dásemd himins meðan sef.

 

Hugvit mannsins hefur komið

honum ofar skýjahnjúk.

Á milli landa fljótt hann ferðast

með farangur og eigin búk.

 

Og vélar þessar þykja fínar

og þjónusta er víða góð.

Færð er á bökkum fæða og drykkur

og ferðin er örugg, snögg og hljóð.

 

Hægt er að versla varning margan

við vægri borgun og frjálsan skatt.

Hlutir þeir sem hægt er að eignast

hafa mæður og frændur glatt.

 

Og sæki að þorsti þarf ei annað

en þrýsta á lítinn rauðan hnapp,

og birtist þá stúlka með blíðum orðum

og býður þér drykki, hvílíkt happ!

 

Aldregi á ævi minni

upp í flugvél komið hef.

En oft mig dreymir daga langa

dásemd himins meðan sef.

 

 

SUNNUDAGUR

 

Til kirkju er farið

við klukknahljóm

 

og klukkustund varið

við helgan óm.

 

 

TRÚVILLAN

 

Tóm eru orðin sem trúvillan mælir

og tárin sem hún fellir eru rykug og þurr.

Frá orði Drottins hún fólkið fælir

og fölsk hún hljómar sem hundsins urr.

 

Hún birtist fólki í mörgum myndum

og miskunn enga hún sýnir þeim

sem lifa og hrærast í sætum syndum

og sigla án Guðs um þennan heim.

 

Og þeir sem orð hennar boða og bera

með bros á vör og ylfingsglott

illsku mannsins upp munu skera

og ávallt bera því slæma vott.

24. október 2016

Tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Þegar ég kíkti í nýja (eða nýja og gamla) bók Sjónar (Sigurjóns B.), CoDex 1962, í bókabúð Máls og menningar í gær, þá sá ég, mér til hrellingar, að hann notar yfirstrikanir í textanum. Í bókinni sem ég er að skrifa nota ég nefnilega yfirstrikanir. Þannig að á næsta ári kemur út önnur skáldsaga þar sem yfirstrikanir eru notaðar – mér finnst rétt að nefna þetta hér, svo lesendur „hinnar“ skáldsögunnar, sem kemur út á næsta ári (þeir lesendur hennar sem lesa þetta líka), hugsi ekki sem svo: „Já, hann hefur líka ákveðið að nota yfirstrikanir í sinni bók, hm …“ Auðvitað ætti ég að taka út þessar yfirstrikanir í minni bók, en í fljótu bragði sé ég ekki hvernig það er hægt. Skáldsaga veitir manni ekki meira frelsi en það: það sem einu sinni er komið í hana verður ekki tekið út úr henni aftur. Ég hef þó alltént látið vita af þessu. Og kannski mun mér auðnast að strika yfir þessar yfirstrikanir mínar, þannig að ekki verði um neinar yfirstrikanir að ræða. Það er vandlifað. Og ekki nema tveir mánuðir í aðfangadag jóla. Til að gleyma þessu öllu í bili ætla ég að bregða á það ráð að hafa mynd:

20. október 2016 (aukafærsla)

Í smásagnasafni sem ég er meðfram öðru að vinna að, á að vera saga sem fjallar um svolítið dularfullt fyrirbæri, einhvers konar sjálfkæfingu. (Reyndar er þetta smásagnasafn ekki beinlínis smásagnasafn, heldur bók sem fjallar um safn smásagna eftir höfund sem ekki er ólíklegt að sé ég sjálfur.) Ég nefni þetta hérna (í aukafærslu, vel að merkja) vegna þess að ég var að lesa í nýútgefnu smásagnasafni eftir Þórarin Eldjárn, Þáttum af séra Þórarinum og fleirum (ég fékk bókina lánaða hjá vini sem fékk hana senda frá ÞE – kannski er hún ekki enn komin út?); og í þessari bók Þórarins er brot sem á óbeinan hátt minnti mig á áðurnefnda sjálfkæfingu. Ég ætla að birta þessar línur hér, í algeru leyfisleysi (enda er ég alvarlega að bræða með mér að kjósa Pírata eftir rúma viku); þær er að finna í sögu sem nefnist Músin sem æðir; sagan gerist í Elko-búðinni, og segir frá því þegar sögumaður kemur auga á gamlan skólafélaga úr Mynd og hand í biðröðinni við afgreiðsluna:

 

Mér gafst því gott tækifæri til að stúdera Dúdda meðan við biðum. Það var tvennt eða þrennt á milli okkar í röðinni. Ég tók strax eftir því að hann var enn eftir öll þessi ár með sinn gamla kæk, að naga sífellt lausar húðflögur af vörunum. Ég gat fylgst vel með þessu alltaf þegar hann leit til hliðar og í framhaldinu fór ég að hugsa eitthvert rugl um að þannig ætti hann líklega eftir að éta sjálfan sig upp til agna með tímanum. Var þetta kannski einskonar hægfara konseptverk hjá honum? (Þættir af séra Þórarinum og fleirum, bls. 90)

20. október 2016

Sjö ára gamalt „dagbókarbrot“ í tilefni dagsins. Ég var að hugsa um að skrifa um nafna minn Gunnar, og nýjustu tíðindin af honum (Matís og allt það), en svo hugsaði ég: Æ, nei. Ekki eitthvað svoleiðis, það er búið að segja frá því í fréttamiðlum veraldarvefsins (þó væntanlega ekki á Mbl, mér finnst það ólíklegt; ekki heldur í gamla Tímanum, ef hann er enn til). En hér er „dagbókarbrotið“:

 

FÍN MÚSÍK

 

„Þetta er fín músík,“ segir sú litla, þegar ekki nema tvær eða þrjár mínútur eru liðnar af spilunartíma þrettán og hálfrar mínútu langs lags með Eric Dolphy, Ted Curson, Charles Mingus og Dannie Richmond. Ég passaði mig á að hafa tónlistina ekki mjög hátt stillta í hljómflutningstækjunum – við erum stödd í stofunni; við sitjum við sama borð – en ég leyfi mér að hækka ofurlítið eftir að sú litla hefur gefið mér leyfi til þess, ef svo má að orði komast.

 

Sú litla er þriggja ára. Ég á nokkur ár í fimmtugt.

19. október 2016

„Sá sem heldur sig við staðreyndir mun ekki komast hinum megin við þær, að kjarna hlutanna. Ég afneita staðreyndum, þeim öllum, án undantekninga. Fyrir mér hafa þær ekki nokkurt gildi; þess vegna forðast ég þær áður en þær ná að draga mig niður til sín.“ (Arnold Schoenberg, 1874 – 1951) Maður hefði haldið að þetta væri einhvers konar leiðarvísir fyrir listamenn og skáld, enda settur fram af tónskáldi; en „staðreyndin“ virðist samt vera sú að það séu frekar stjórnmálamenn sem líta til þessara orða Austurríkismannsins. Enda er oft talað um að stjórnmál séu listgrein. Og þess vegna eru þau ríkisstyrkt.