23. júní 2016

Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna, en mér finnst þessi dagsetning, ásamt ártalinu, alveg sérstaklega falleg. Það hefur ekkert með úrslit gærdagsins að gera. Sá dagur, gærdagurinn, virkar reyndar á pappírnum ekkert sérlega aðlaðandi: 22. júní. Of miklar sléttar tölur. 22 finnst mér heldur ekki mjög skemmtileg tala, þótt ég hafi búið við Tómasarhaga 22 nokkur ár í æsku minni. En í gær var ég að velta fyrir mér „stöðunni“. Og dró inn í þá „umræðu“ vin minn Ásmund Jónsson. Staðan í dag er gerbreytt frá stöðunni í gær. Ekki bara vegna fótboltakeppninnar í Frakklandi, heldur almennt. (2 – 1 er samt falleg staða, þótt ég hafi spáð henni öfugri: 1 – 2.) Ég hitti Andra Snæ í gær; ég var að keyra eftir götum Reykjavíkur, og hver annar en Andri Snær, ásamt Margréti konunni sinni, er þá að ganga eftir götum sömu borgar. Við heilsuðumst í gegnum framrúðu bílsins, svo gekk hann að bílnum, ég opnaði dyrnar, og við heilsuðumst með handabandi. Andri var á leiðinni niður á Ingólfstorg til að fylgjast með leiknum. Ég á sjálfur mjög erfitt með að taka þannig þátt í stemmningunni; að standa mitt í fjöldanum og gleðjast eða syrgja einhver úrslit; ég er svo hræddur við að fólkið í kringum mig fari að syngja einhver lög, eins og til dæmis Lofsongur, því ég kem svo illa út í slíkum aðstæðum; það verður svo áberandi að ég vil ekki taka þátt í söngnum. Þetta er ekki ósvipað því þegar ég herpi saman munninn í útförum þegar kirkjugestir byrja að taka undir með prestinum í Faðirvorinu. Það er vandlifað. En ég á engan miða á leikinn í Nice á mánudaginn. Og ég á ekki heldur farmiða út. Enda til lítils að eiga bara miða út, ef maður á ekki miða á leikinn. Ekki ætla ég að fara að svindla mér inn, eins og mig minnir að ég hafi einhvern tíma gert á Melavellinum á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar. En hvað er ég að fara? Af hverju kem ég mér ekki bara að efninu, eða játa fyrir sjálfum mér að það sé ekkert efni. Það er engu líkara en ég sé kerfisbundið að forðast hið augljósa umfjöllunarefni dagsins, það er að segja úrslit gærdagsins. Drakk ég bjórinn sem ég setti í frystinn í gær? Eða er hann ennþá í frystinum, orðinn tvöfaldur að ummáli í afmyndaðri dósinni sem er við það að springa? Ég ætla ekki að svara svona spurningum.

22. júní 2016

Unknown-1

„Ó, nei.“ Allt í einu fannst mér ég þurfa að setja þessi orð (innan gæsalappa) fram opinberlega. Þau spruttu fram af vörum mér (og núna fingrum) þegar ég sá frétt á vísi punktur is um Íslendinga að syngja íslenska þjóðsönginn (Lofsongur) fyrir framan Rauðu mylluna í Parísarborg. „Ó, nei,“ verða orð sem eiga við í lok dags (um sexleytið), hvernig sem úrslitin í leiknum við Austurríkismenn verða. Ég keypti bjór í tilefni dagsins. Og ég setti hann í frystihólf ísskápsins til að hann yrði kaldur klukkan fjögur. Núna er ég aftur á móti að hugsa um að taka hann ekkert úr frystinum, að leyfa honum bara að vera þar. Fá mér kaffi í staðinn. Ég veit alveg hvað mun gerast fyrir bjórdósina – hún mun springa. En er það ekki bara allt í lagi? Þegar hljómsveitin Purrkur Pillnikk ferðaðist um England árið 1982, í þýskum rúgbrauðsbíl (minnir mig), vorum við með nokkra kassa af umslögum utan um hljómplötuna Googooplex aftan í bílnum. Hvort sjálf platan var ekki komin í umslögin man ég ekki, en líklega áttum við eftir að raða þessu saman, plötunni og umslaginu – allavega man ég að við ætluðum að selja þetta í tónleikahúsunum þar sem við vorum að hita upp fyrir The Fall á þessu ferðalagi. Ásmundur Jónsson, sem rak útgáfuna okkar Gramm, var með okkur í bílnum. Ásgeir heitinn Bragason keyrði. Og ég man að hann keyrði oft mjög hratt, svo okkur hinum varð ekki um sel. Og hann hefur ábyggilega verið að keyra eitthvað mjög hratt þegar afturdyrnar á bílnum opnuðust allt í einu, og nokkrir kassar með plötuumslögunum utan um Googooplex hentust út úr bílnum og lentu á enska sveitaveginum. Við gerðum okkur strax grein fyrir hvað hafði gerst. Ásgeir hefur ábyggilega hemlað mjög snöggt, en Ási hrópaði: „Hvernig er staðan!“ Sem var í sjálfu sér alveg eðlileg spurning, en vissulega einkennileg. Ég rifja þessa sögu upp núna vegna þess að í morgun fór ég eitthvað að velta fyrir mér hvernig staðan í leik Íslendinga og Austurríkismanna yrði klukkan átján í dag. Það þarf samt engan fótboltaleik til að rúgbrauðssagan frá Englandi komi upp í huga minn, því ég rifja þessa sögu mjög oft upp, við ólík tækifæri, ýmist þegar um er að ræða stöðu í fótboltaleik, stöðu gjaldmiðils, eða bara stöðu mála almennt. En nú að öðru, en þó því sama. Ég fékk svakalegan aulahroll þegar ég sá myndir í sjónvarpsfréttum í gær af íslenskum fyrirmennum standandi við einhver tjöld í Frakklandi í gær; þau voru að njóta einhverra veitinga, og forsætisráðherra var á staðnum. Það er að segja forsætisráðherra Íslands, sá sem hefur þann titil núna. Honum er ætlað að horfa á leikinn á Stade de France í Saint Denis. Og hann mun gera það. En nú að öðrum hrolli. Hrollinum sem ég fékk við að horfa á ólöglega markvörslu króatíska markvarðarins í gær. Sá hrollur var af allt annarri tegund. Króatar voru ansi fínir, og máttu alveg vinna leikinn fyrir mér (Spánverjar eru hvort eð er komnir áfram); en vítaspyrnuna hefði átt að endurtaka. Þetta var svakalegt. Markvörðurinn fór einhverja tvo eða þrjá metra fram fyrir línuna áður en Spánn sparkaði boltanum. Það má ekki. Mín yfirgripsmikla þekking á tækniatriðum fótboltaíþróttarinnar fullyrðir það. Síðustu tíðindin af EM í bili eru aftur á móti kennslustund Ronaldos, hins portúgalska, í því hvernig bregðast skal við kjánalegum spurningum fjölmiðlafólks. Hann tók bara hljóðnemann af manninum og henti honum í ána. Mér fannst eins og þetta kæmi úr bók eftir Óskar Árna.

21. júní 2016

Er ekki réttast að bíða með alla tjáningu þangað til spænska liðið hefur tjáð sig á vellinum í kvöld? Króatar eru eitt skemmtilegasta liðið í keppninni, svo þetta verður án efa einhver keppni. En myndefni dagsins er spænskt, eða öllu heldur katalónskt.

20. júní 2016

Hvíldardagur er samkvæmt orðabók júnímánaðar sá dagur sem notaður er til að hvíla sig á fótboltaáhorfi. Sá dagur var sem sagt í gær. Ég reyndi auk þess að fjarlægja mig því hugarástandi sem fylgir EM með því að horfa (aftur) á hina stórkostlegu bíómynd Burn after reading (sem ég held að hljóti að vera einhvers konar meistaraverk), og lesa (aftur) nýjustu bók Michels Houellebecq, núna í íslenskri þýðingu. Svo horfði ég líka á fyrsta þátt (reyndar ekki aftur) í nýrri franskri sjónvarpsseríu sem kallast Marseille, með Gérard Depardieu í aðalhlutverki. Þátturinn hófst á atriði sem gerist á hinum risastóra fótboltavelli Marseille-borgar, þar sem Íslendingar voru næstum því búnir að vinna Ungverja! En þetta var alger skelfing, þessi þáttur – agalegt sjónvarpsefni. Hann var svo vondur að ég hljóp í burtu frá sjónvarpstækinu. Eða var að minnsta kosti að hugsa um það. „Leikurinn“ í Marseille var reyndar ekki mikið betra sjónvarpsefni. En auðvitað má ekki gera of miklar kröfur til þess sem er framleitt fyrir sjónvarp, sérstaklega ekki þegar það er framleitt í beinni útsendingu. En Undirgefni. Það staðfestist við endurlestur þeirrar bókar að nokkrir kaflar hennar eru skelfilega flatir, nánast eins og í verksmiðjuframleiddri glæpasögu (eða Frank og Jóa, svo maður grípi til mikið tekinnar líkingar); en þessir kaflar skemma þó ekki söguna í heild. Mér finnst þetta ennþá jafn fín saga og mér fannst fyrst. Og umfram allt er hún skemmtileg. Hvernig höfundurinn fléttar inn í hana verkum og karakter Joris-Karls Huysmans er rosalega vel gert (og hlýtur að verða til þess að einhverjir kynni sér þann höfund); og sú mynd sem Houellebecq dregur upp af þjónkun – eða undirgefni – fólks við peningaöfl og trúarbrögð er svo fínleg og húmorísk að maður fær aldrei á tilfinninguna að hann sé að ota einhverjum pólitískum eða andtrúarlegum skoðunum að manni. Ég verð var við að sumir lesa þessa bók eingöngu sem einhvern spádóm, en það liggur við að hægt sé að ræða hana algerlega án þeirrar hliðar; hún virkar einfaldlega mjög vel sem mynd af miðaldra bókmenntafræðingi sem upplifir líf sitt – og lífsþreytu – í gegnum viðfangsefni sitt sem fræðimaður: rithöfundinn Huysmans. Það sem mér finnst í raun standa upp úr sögunni er einmitt sá höfundur – sá merkilegi og makalaust skemmtilegi höfundur – og hvernig sögumaður speglar sig í honum. Í því ljósi verður myndin af íslömsku Frakklandi nánast aukaatriði. En svo tengist auðvitað Huysmans, og hans „flótti“ yfir í kaþólsku, íslömsku spurningunni í bókinni. Burtséð frá öllu þessu má líka lesa söguna sem „tíðabók“ um áfengisneyslu, örbylgjumat og skyndikynlíf, rétt eins og Aftur á bak Huysmans var lýst sem „tíðabók“ dekadentismans. Hér er ein setning úr Undirgefni (þýð. Friðrik Rafnsson): Það er ansi erfitt að skilja annað fólk, komast að því hvað því býr í brjósti og án blessaðs áfengisins tækist okkur það ef til vill aldrei. Á sama hátt má kannski segja (svo maður laumi sér snyrtilega aftur yfir í fótboltann) að án marksins sem Íslendingar fengu á sig undir lok leiksins við Ungverja hefði maður ekki gert sér fulla grein fyrir hversu óspennandi fótbolta Íslendingar spila í Evrópukeppninni. En samt – áfram Ísland (svo langt sem það nær). Svo mæli ég með myndinni eftir Coen-bræður – um starfsmanninn (konuna) á líkamsræktarstöðinni, sem langar í lýtaaðgerð, nokkuð fjölþætta, en á ekki alveg fyrir henni …

18. júní 2016

Andrés Iniesta gærdagsins. Spánverjar. En nú þori ég ekki að segja meira í bili. Ég ætla að vera öruggumegin (er þetta orð til? allt í einu fannst mér það svo skrítið); ég ætla að bíða eftir úrslitum dagsins. Ísland er að fara yfir um. „Hinn ákveðni greinir íslensku leiklýsendanna“ (er þetta orð líka til?) verður að bíða. Ég spái því að Íslendingar tapi fyrir Ungverjum, 0 – 2. En ég vona að þeir vinni. Og ef þeir vinna, þá vinna þeir 1 – 0. Og ég ætla að leyfa mér að birta aftur hina erótískt þrungnu ljósmynd (eða er þetta málverk?) af fráfarandi forseta Íslands og Ratzinger páfa, í tilefni af því að núna er vika þangað til Guðni Th. verður kosinn nýr forseti landsins. Og gæla við þá hugmynd að einhvern tíma fái Guðni af sér mynd með núverandi páfa. En nú ætti ég ekki að segja meira; ég er farinn að hafa á tilfinningunni að ég sé frekar sannspár maður. Það fer mér ekki vel. En atriðið á Austurvelli í gær var stórkostlegt! Forsætisráðherra Íslands er furðulegur maður, í merkingunni stórskrítinn, eiginlega alveg vonlaus, ekki viðbjargandi. 0 – 0 fyrir honum. En vonandi 3 -1 fyrir íslenska landsliðinu í dag (þetta er ný spá: 3 – 1; ég þori ekki að taka sénsinn á að það verði vitnað í 0 – 2 spána mína – ekki fyrr en hún rætist).

Unknown-1

17. júní 2016

Líklega hef ég fengið of stóran skammt af fótbolta um miðjan daginn í gær, eða verið svona spældur yfir úrslitunum í leik Englands og Wales, því ég kaus að gera annað (en að horfa) þegar Úkraína og Norður-Írland höfðu viðureign kl. fjögur. Ég hef því ekki hugmynd um hvernig sá leikur var. Ég var að vinna. Reyndar virkar þessi keppni mjög vel hvað varðar „dagvinnu“ manns; maður neyðist til að skipuleggja sig út í ystu æsar; og ég er ekki frá því að sú skipulagning skili sér beint inn í textann; mér fannst ég rissa upp nokkrar mjög svo einbeittar senur og samtöl í gær, og ekki bara í gær, heldur síðustu daga. Staða pundsins græðir því á þessari evrópsku fótboltakeppni … En þá að leiknum í dag, Ítalíu/Svíþjóð. Ég veit ekki af hverju það er, en ég er aldrei spenntur fyrir Svíþjóð sem fótboltaþjóð. Á einhvern svipaðan hátt og með England og Írland. Og þessi leikur Svía og Ítalíu var ekki skemmtilegur. Ég fór að gera eitthvað annað. Ég geri mér grein fyrir að í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga; en þegar ég opnaði fyrir sjónvarpið fyrir hádegi og sá forsætisráðherra Íslands, framsóknarmanninn, tala eitthvað um Ísland, þá missti ég allan áhuga á Íslandi í bili. Sá áhugi kemur aftur á morgun, geri ég ráð fyrir, þegar Ísland spilar við Ungverja. En Ítalía? Ég held að Chiellini (sem ég held að sé varnarmaður) hljóti að hafa áhugaverðasta andlitið í þessari EM-keppni. Það verður líka að velta slíku fyrir sér. Það kemur eitthvað mjög gamalt andrúmsloft inn á grasvöllinn með þessum Chiellini. Þetta er eiginlega andlit sem hefur ekkert með fótbolta að gera (þó ég viti að fótbolti er gömul íþrótt). Ég ætla ekki að hrapa að neinni harðsoðinni niðurstöðu með það úr hvaða átt – eða heimi – þetta andlit kemur; ég verð að fá að velta því aðeins lengur fyrir mér. Ég ætlaði raunar í dag aðeins að minnast á „vinkonu“ mína Rósu Sæberg, þá sem hefur undanfarið komið inn í líf mitt á fremur óvenjulegan hátt – hún hafði nefnilega óvænt samband við mig í gær; það var í gærkvöldi (á meðan ég var ekki að horfa á leik Þýskalands og Póllands; ég gafst nefnilega upp á honum, sem var skrítið, því ég hef verið aðdáandi þýska liðsins); en erindi Rósu má segja að hafi verið of flókið til að ég geti gert því almennileg skil hér, í svona tiltölulega stuttri færslu. Og ég verð víst að bíða með það um stund. (Get þó sagt að ég fékk að heyra um óánægju hennar með að ég væri ekki búinn að birta niðurlag viðtalsins sem hún átti við mig í tölvupóstinum um daginn.) En núna í annað – ég veit ég er að fara fullmikið úr einu í annað. Mér datt nefnilega eitt í hug varðandi fótboltann. Síðustu leikir – sýnist mér að minnsta kosti – hafa verið fremur dauflegir. Of mörg mörk eru drepin í fæðingu af varnarmönnum. Mín hugmynd er því sú að liðin ættu að vinna að því markvisst að gera varnarleikinn lakari en hann er. Að leggja alla áhersluna á sóknarleikinn. Mjög margt hefur verið gert í sögu íþróttarinnar til að hressa upp á leikinn, gera hann fjörugri og hraðari, og meira fyrir augað og andann; en þetta með að vörnin skuli vera jafn góð og hún yfirleitt er (að vísu klikkaði hún svolítið hjá sænska liðinu undir lok leiksins við Ítali) er eitthvað sem má taka til athugunar. Hér verð ég reyndar að gera hlé. Fékk óvænta heimsókn (sem núna er búin), og (væntanlega) spennandi leikur að hefjast. Ég hafði ætlað að tala um „hinn ákveðna greini íslensku leiklýsendanna“, en það verður að bíða þangað til næst. (Í tilefni dagsins birti ég hina ljóðrænu mynd af fráfarandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. Hún er reyndar alltaf við hæfi – það þarf ekki 17. júní til.)

Unknown-1

16. júní 2016 (aukafærsla)

Fjandinn. Þetta var mér að kenna – sigur Englands yfir Wales. Ég vissi, um leið og ég skrifaði færsluna í hálfleik, til að gleðjast yfir marki Gareths Bale, að ég ætti ekki að vera að því; það yrði bara til þess að England myndi jafna, eða jafnvel fara yfir. Það má vera að ég hafi yfirgripsmikla þekkingu á fótbolta, en ég ætti ekki að tjá mig í hálfleik. En Wales verður þá bara að vinna Rússa. Og ég að hafa mig hægan á meðan.

16. júní 2016

Hálfleikur í viðureign nágrannanna. Ég lýsti því yfir um daginn að ég hefði ekki mjög yfirgripsmikla þekkingu á fótbolta. En það er ekki rétt. Ekki lengur. Ég hef hana núna. Áður en England og Wales gengu inn á völlinn, rétt fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma, sá ég – það var svo augljóst – að markmaður Englendingar, Joe Hart, væri eitthvað frekar eitthvað. Ég held auðvitað með Wales (það var komið fram áður), en burtséð frá því, þá kom það svo heldur betur í ljós í þessum fyrri hálfleik liðanna að markvörður Englendinga væri eitthvað væri frekar eitthvað, ef svo má að orði komast aftur. Ekki vegna þess að hann varði ekki hina frábæru aukaspyrnu frá Gareth Bale, heldur vegna þess að hann var búinn að ákveða með sjálfum sér fyrir leikinn að hann væri bestur; að Englendingar þyrftu ekki að hafa fyrir þessu. En Englendingar eru sjaldnast bestir, eða í hópi þeirra bestu. Ekki í fótbolta allavega. Nú verð ég að viðurkenna að ég er sjálfur farinn að líta mig þeim augum að ég hugsi ekki um neitt annað en fótbolta þessa dagana. En það er bara ekki rétt. Ég mun aldrei fást til að viðurkenna það. Ekki fyrr en keppninni lýkur. (En auðvitað á ég ekki að vera að skrifa eitthvað svona núna. Englendingar eiga kannski eftir að skora. Wales-liðinu verður refsað fyrir þessi skrif mín. En ég held með Wales. Á eftir Íslendingum og Spánverjum. Og Þýskalandi – býst ég við. Í þessum skrifuðu orðum voru Englendingar að jafna … Andskotinn.)

 

 

15. júní 2016 (aukafærsla)

Ekki átti ég nú von á því að aukafærslan kæmi svona fljótt á þessum sólríka degi. En líklega er hún svo gott sem óumflýjanleg. Því mér hefur verið bent á (ekki það að einhver sé að fylgjast svona vel með Kafla á dag; það var ég sjálfur sem benti mér á þetta) að ég fór með rangt mál í gær þegar ég nefndi að íslenska landsliðið í fótbolta hefði átt að fara út á völlinn gegn Portúgölunum í jakkafötunum frá Herrahúsinu við Laugaveg. Fötin eru víst ekki úr Herrahúsinu. Þau koma frá Herragarðinum. Eflaust hugsar einhver sem svo að varla geti verið mikill munur á Herrahúsinu og Herragarðinum (eða Herrafataverslun Birgis, ef út í það er farið), en munurinn er heilmikill. Hann er eins og heitt og kalt. Í hverju hann liggur þori ég ekki að hafa mjög sterka skoðun á, en munurinn er til staðar; hann liggur væntanlega í „húsinu“ og „garðinum“ (og „fataversluninni“, ef við höldum „Birgi“ enn inni í jöfnunni).

 

15. júní 2016

Unknown-1

Nú vandast málið hvað varðar persónulegan stuðning við landslið í Evrópukeppninni 2016. Nú getur maður ekki bara haldið með Spáni (og/eða hugsanlega Þýskalandi, jafnvel Wales), heldur verður maður líka að halda með Íslandi. Og taka undir í Lofsongur þegar hann er sunginn næst á einhverjum vellinum í Frakklandi. Það var gaman að fylgjast með íslenska og portúgalska liðinu ganga inn á völlinn í gær. Fremstur í því portúgalska gekk hinn choco-brúni Ronaldo, og í því íslenska einhver fölur, síðskeggjaður víkingr (sem ég veit núna að heitir Aron – samt ekki Aron Cesar). Og svo byrjaði leikr, og víkingr náði að jafna choco. Nú hefur EM endanlega skyggt á íslensku forsetakosningarnar. Og þá er bara spurning hvað mun skyggja á EM? Frétt dagsins í dag er sú að það er búið að handtaka tvo einstaklinga í tengslum við Guðmundarmálið frá 1974. Spurning hvort það nái að skyggja á úrslit gærdagsins, og varpa lengri skugga yfir næstu úrslit í leikjum íslenska landsliðsins. Annars er svo mikil sól í glugganum hjá mér í augnablikinu að öll hugsun manns um skugga er við það að gufa upp. En á meðan ég velti fyrir mér þeim galopna möguleika að setja inn aukafærslu seinna í dag (hugsanlega eitthvað um hegðun rússneska „stuðningsliðsins“ þegar Rússarnir keppa upp úr hádegi), þá læt ég hér fylgja erlend skrif um hinn íslenska Lofsongur: The match had opened with the first rendition of the Icelandic national anthem at a European Championship. The Lofsongur is not a particularly happy hymn, ending as it does with a line likening its country to a small flower “with a quivering fear that prays to its god and dies.”

14. júní 2016

Enginn ætti að tjá sig á hverjum degi. Allra síst á svona bloggi sem allir sjá (þeir sem vilja sjá). Og allra síst þegar Ungverjaland er 1- 0 yfir í leik þeirra við Austurrríki, og Ísland er að fara að leika við Portúgal. Þjóðirnar að leika hver við aðra. En mér finnst samt að Íslendingar hefðu átt að spila í bláu jakkafötunum sínum, sem þeir fengu í Herrahúsinu við Laugaveg. Meira um það síðar. Meira um Íslendinga síðar. Og meira um Herrahúsið. (Eða var það Herragarðurinn?) Og núna er Ungverjaland búið að bæta við marki. Og Portúgal búið að skora mark gegn Íslendingum. Og Íslendingar búnir að skora mark gegn Portúgölum. Það eru allir búnir að öllu. Þangað til næst. (Fylgir ekki örugglega mynd með þessari færslu?)

 

13. júní 2016

Spánverjar. Andrés Iniesta. Fyrir mig, sem hef ekki mjög yfirgripsmikla tækniþekkingu á fótbolta, er nóg að nefna þetta tvennt, eftir að hafa séð leikinn milli Tékklands og Spánar. Spánverjar/Iniesta. Ég var í öngum mínum. En svo kom markið á 86. mínútu. (Og ég hef ábyggilega misst út úr mér einhverja upphrópun á borð við „Nauh!“, eitthvað svoleiðis. „Nauh!“ í merkingunni „Flott!“) Það má reyndar alveg nefna markvörð Tékka líka, Pétur Tékk. Hann er bæði flottur til höfuðsins og í markinu. En jæja, nú er ég búinn að tjá mig of mikið. Ég ætla ekki að láta Þorstein J. nappa mig á að segja einhverja vitleysu. En þá er líklega best að skipta um umræðuefni, og snúa sér – til dæmis – að íslensku forsetakosningunum. Því líflausa fyrirbæri, sem mér sýnist vera við það að lognast út af og deyja. Ég sé nefnilega ekki annað í stöðunni en að nauðsyn sé komin til þess að blása aftur lífi í þá gömlu hugmynd mína að best væri fyrir þjóðina að hún kæmi sér saman um að velja einhverja látna manneskju í embætti forseta Íslands, nú þegar ekki lítur út fyrir að Andri Snær muni skora nægilega hátt hjá sömu þjóð. Þetta er nú meiri þjóðin. Og nú þegar ég hef nefnt þetta, þá er aftur kominn tími til að skipta um umræðuefni. Ég heyrði nefnilega ansi skemmtileg orð í einum fótboltalýsandanum í gær. Hann var að tala um þjóðsöngva Evrópuþjóðanna. Ef ég man rétt, þá sagði hann eitthvað á þessa leið: „Þegar rússneski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Englendingar; og þegar enski þjóðsöngurinn var sunginn, þá bauluðu Rússar. Sem sagt allir í stuði.“ Og stuttu síðar sagði sami maður, og var að tala um áhorfendur í stúkunni: „Þeir eru bara þarna hlið við hlið. Girðing á milli. Þannig á þetta að vera.“ Mér er skapi næst að stela þessu og nota í einhvern texta sem ég mun síðan gefa út undir eigin nafni.

 

12. júní 2016

Á 34. mínútu í leik Svisslendinga og Albana í EM í gær gerðist svolítið einkennilegt; nokkuð sem ég hef sjálfur ekki séð gerast áður í fótboltaleik, en sem á fótboltamáli kallast – eða hlýtur að kallast – að skoruð séu draugamörk. Staðan á 34. mínútu var eitt núll fyrir Svisslendinga. Og ekkert sérstakt var að gerast í leiknum; ekkert sem benti til þess að staðan væri að breytast. En þá breyttist staðan. Í litla rammanum efst á skjánum, þar sem markatalan er sýnd, bættist skyndilega við eitt mark, Svisslendingum í vil. (Auðvitað er óþarfi að taka fram að það hafi gerst skyndilega, því allar breytingar á markatölu í fótboltaleik gerast „skyndilega“, eða „allt í einu“.) Mér þótti þessi breyting á markatölu heldur skrítin, og átti vitaskuld von á því að mennirnir sem lýstu leiknum myndu gera sínar athugasemdir við þetta, eða að minnsta kosti nefna að Svisslendingar væru svona óvænt komnir með tveggja marka forskot (þegar ekkert gaf til kynna að seinna markið hefði verið skorað). En í því sem ég hugsaði þetta, þá bættist við þriðja markið, aftur Svisslendingum í vil. Staðan var orðin 3 – 0. Var ég eini áhorfandinn sem tók eftir þessu? Hvers vegna minntust sjónvarpsmennirnir ekkert á þetta? Og það sem einkennilegast var: Svisslendingar voru hvorki að fagna mörkunum (tveimur mörkum á sömu mínútunni), né Albanir að syrgja orðinn hlut. Leikurinn hélt bara áfram. Enginn fagnaði; enginn varð súr. En þá urðu aftur breytingar á markatölunni í litla rammanum. Mörkin gengu til baka. Staðan breyttist úr 3 – 0 í 1 – 0, eins og hún hafði verið fyrir um það bil einni mínútu. Og boltinn hélt áfram að ganga á milli manna – en hvorki inn í markið né aftur út úr því, eins og hin síbreytilega markatala gaf til kynna að hefði gerst. Mínútu síðar var aftur á móti fyrirliði albanska liðsins rekinn út af vellinum (með rauðu spjaldi; fyrst gulu og síðan rauðu) fyrir að hafa stöðvað boltann með höndunum. Svo hélt leikurinn áfram, eins og lífið heldur áfram (án manneskjunnar sem var rekin út af). Ég geri mér auðvitað enga grein fyrir því hversu margir aðrir sjónvarpsáhorfendur tóku eftir þessu með markatöluna; en hvort sem ég var sá eini (sem mér finnst reyndar afar ólíklegt), þá hef ég að minnsta kosti séð hvernig draugamörk verða til – og hverfa síðan aftur (eins og draugar). En núna að ástandinu í Marseille, hinni gömlu hafnarborg í Suður-Frakklandi. Öll þessi slagsmál. Alvarleg meiðsl. Hvað á maður að segja um það? Ég veit ekkert hvað ég á að segja um það. Myndi þetta ekki teljast fremur eðlilegt ástand, þar sem mætast enskir og rússneskir fótboltaáhugamenn? Ég vona samt að enginn deyi. En það var eitthvað sætt við að sjá Rússana jafna leikinn í gær. Ég held hvorki með Rússum né Englendingum; en það hlakkaði eitthvað í mér yfir að Englendingum tækist ekki það sem þeim hefur ekki tekist í sirka hálfa öld: að vinna leik númer eitt í riðlakeppni í EM. Og núna bíður maður spenntur eftir að Wales leggi England að velli. Sá leikur er næsti leikur þeirra liða. Liðið frá Wales var mjög skemmtilegt í gær. Mér fannst þeir bæði vera flinkir og duglegir. Þeir tveir eiginleikar haldast nú ekki oft í hendur. Ef ég héldi ekki með Spánverjum eða Þjóðverjum (eða jafnvel Íslendingum – maður tekur þá ákvörðun ekki fyrr en á þriðjudag), þá héldi ég með Wales. Það verður einhver að gera það.

11. júní 2016

Óbeina lýsingin heldur áfram. Að vísu eru leikir dagsins ekki byrjaðir; þeir voru það að minnsta kosti ekki þegar ég kveikti á sjónvarpstækinu klukkan hálfníu í morgun. Ég hef ekki hugmynd hverjir spila í dag, fyrir utan leikinn í kvöld, sem er milli Englendinga og Rússa. En ég hef tekið eftir einu – svo ég stökkvi úr einu í annað – og það er þetta: Þegar fótboltamennirnir eru í viðtölum, þá virðast þeir hafa tilhneigingu til að horfa ekki í augu viðmælandans, eða spyrjandans, heldur út um víðan völl, ef svo má að orði komast. Og líklega er það nokkuð heppilega orðað hjá mér, því það má alveg ímynda sér að á meðan los fútbolistas tala við fjölmiðlafólkið, þá séu þeir að fylgjast með stöðunni í kringum sig; alltaf á varðbergi; stöðugt með hugann við að á hverju augnabliki geti verið von á bolta úr einhverri áttinni. Mér finnst þetta frekar áberandi. Þeir (fótboltamennirnir) horfa kannski í augu spyrjandans þegar spurningin kemur; en svo fara þeir að skima eitthvað annað; og í lok svarsins hafa þeir jafnvel snúið sér alveg við, og þurfa því að fara aftur í upprunalega stöðu þegar næsta spurning kemur. Ég verð ekki svo mikið var við þetta þegar stjórnmálamenn eða rithöfundar koma í viðtöl. En þá er ég kannski með hugann við eitthvað annað. Þegar ég hlusta – eða horfi öllu heldur – á viðtölin við fótboltamennina, þá er ég bara að hugsa um það, ekkert annað. Ég tók líka eftir öðru, þegar ég fylgdist með útsendingunni frá EM-stofunni í Gamla bíói í gærkvöldi: það rigndi ofan í sófann á svölunum. Eflaust er þetta sófi sem þolir vel bleytu; en ég fór bara að velta því fyrir mér hvort hann nái að þorna fyrir næstu útsendingu, sem væntanlega er einhvern tíma í dag. Því sófinn hlýtur að vera þarna til þess að einhver setjist í hann. Og varla getur það verið freistandi að setjast í blautan sófa. (Ég áskil mér rétt til að vera með aukafærslu í dag. Ekki það að ég þurfi að biðja um leyfi, en samt.)

10. júní 2016

Franska skáldsagan heldur áfram: mamma hringdi aftur frá Tenerife í dag. („Móðir hringdi frá Tenerife í dag.“) Nýjustu upplýsingar eru þær að það hefðu ekki beinlínis verið tjallar sem opnuðu gáttir Helvítis á hótelinu í gær; það voru Skotar. En eru ekki Skotar tjallar? Nei. Það eru Englendingar sem eru tjallar. En það voru samt læti í Skotunum; ég heyrði í þeim í gegnum símann í gær. Evrópukeppnin fór heldur betur vel af stað í dag. Auðvitað vonar maður alltaf að „ólíklegri“ þjóðin vinni leikinn – og keppnina – en markið á 89. mínútu var svo fallegt að allar væntingar aðrar en þær að fá falleg mörk gufuðu upp. Maður gufar upp sjálfur við að horfa á svona mark. Ég hélt ég hefði nýtt mína peninga illa með því að borga 6 þúsund og níu hundruð krónur í áskrift að „áhorfinu“, en ég er strax kominn út í gróða. Ég get ekki beðið eftir að fá að sjá Iniesta, hvenær sem það verður. (Ég sá hann á auglýsingaplakati í Barcelona um daginn.) Og íslenska landsliðið. Ég get bara almennt ekki beðið. Ég er að hugsa um að vera með óbeina lýsingu frá keppninni í Frakklandi. Enda er ég ekki staddur í Frakklandi; það eru bara systkini mín sem eru stödd þar (bróðir og systir). En „Mamma hringdi aftur í dag.“ (Franska skáldsagan heldur áfram.)

 

9. júní 2016

Móðir mín hringdi í mig áðan. (Hljómar eins og upphaf franskrar skáldsögu.) Hún er á Tenerife, og verður þar, ásamt systur sinni og bróður, þangað til á laugardag. Það var kominn hópur af tjöllum á hótelið. Mér fannst eins og hún væri að hringja í mig til að segja mér frá því. Allavega var friðurinn úti á hótelinu, sagði hún mér. Ég heyrði vel í tjöllunum gegnum símann. Mamma spurði hvort ég heyrði ekki í þeim – og hvort ég gerði! Hún lýsti þessum mönnum fyrir mér; þeir væru með mikla vöðva – og maga. Og borðið hjá þeim væri þakið bjórdósum og flöskum. Mamma sat á svölunum hjá sér á meðan hún talaði við mig í símann; þær systurnar voru á fjórðu hæð; og tjallarnir, sem sátu við sundlaugina, voru beint fyrir neðan þær. Og það rifjaðist upp fyrir mér að í síðustu ferð mömmu til Tenerife, eða þarsíðustu, gerðist það sama: tjallarnir mættu á svæðið, og gáttir Helvítis opnuðust. Svo byrjar Evrópukeppnin á morgun. Er England annars í Evrópu?

8. júní 2016

Hálfur dagurinn liðinn, og ég er rétt að muna eftir því núna, klukkan 14:45, að útgáfufélagið Smekkleysa sm.ehf. er þrjátíu ára í dag. Til hamingju, Smekkleysa. Ég mundi eftir þessu fyrir viku, en framan af sjálfum afmælisdeginum var það gleymt. (Ég var að hugsa annað.) En hvað á maður að segja? Hér er fyrsta útgáfa Smekkleysu, póstkortið með myndinni eftir Frikka, í tilefni Höfðafundarins sögulega:

Unknown

Útgáfa númer tvö var fyrsta ljóðabókin mín, Dragsúgur. (Hana er að finna á Náttborði lemúrsins, meðal annarra „fyrstu útgáfa“, þótt ekki sé mynd af framhlið bókarinnar):

 

http://lemurinn.is/2015/01/11/islenzkar-ljodabaekur-fyrsta-utgafa/

 

Mér er mjög minnisstætt hvernig þessi bók varð til, það er að segja hluturinn sjálfur. (Og ekki síður er mér minnisstætt hvernig textinn í henni varð til, þótt ég muni auðvitað fæst af því, nema auðvitað textann sjálfan, sem ég man reyndar heldur ekki, væri ég beðinn um að fara með hann blaðlaust.) Við Einar Melax sátum kvöld eftir kvöld, í íbúð sem ég bjó í á þeim tíma, við Laugaveg 139, og undir stjórn Einars föndruðum við einhver 200 til 250 eintök; límdum þau saman og pressuðum yfir nótt undir sjónvarpstækinu mínu. Það er hægt að verða mjög nostalgískur við að rifja upp eitthvað svona. Þriðja útgáfa Smekkleysu var síðan fyrsta plata Sykurmolanna, einn mol´á mann, með lögunum Ammæli og Köttur, fjármögnuð (að minnsta kosti að hluta til) með ágóðanum af póstkortinu …

7. júní 2016

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur
(Skammidalur)

Þegar ég horfði á leik Íslendinga og Liechtenstein í gærkvöldi varð ég var við að orðið færsla var talsvert notað til að lýsa hreyfingum og stöðu leikmanna á vellinum. Ef ég skildi – eða heyrði – það rétt. Ég hef reyndar heyrt þetta orð notað áður í fótboltamáli, en það vakti sérstaka athygli mína núna vegna þess að ég hef sjálfur notað orðið í tengslum við eigin skrif, og þá aðallega skáldsöguna Fjarveran. Sú bók beinlínis fjallar um „færsluna“ á persónum hennar – og auðvitað fjarveru þeirra á sviðinu. Auðvitað er það galið (eins og ég hef ábyggilega talað um hér áður) að höfundur sé að lýsa því um hvað bókin hans er – það er ekki í hans verkahring – en mér fannst á einhvern hátt fremur saklaust að orða það með sjálfum mér (og frá og með núna í texta aðgengilegum öðrum) að skáldsagan Fjarveran, sem kom út árið 2012, fjalli öðru fremur um „færsluna“ á persónunum; um það hvernig þær færast úr einum stað í annan, og hvaða áhrif það hefur á hinar persónurnar að sú persóna sem lýst er hverju sinni skuli færa sig á þennan hátt eða hinn. Einhver sagði einhvern tíma um einhvern að hann hefði „þægilega fjarveru“. Ég stóðst þá freistingu að nota þau orð í bókinni Fjarveran; og eftir á að hyggja hefðu þau ekki átt heima þar. En núna er Evrópukeppnin í fótbolta framundan. Og ég hef ekki enn tekið ákvörðun um hvort ég fylgist með henni í sjónvarpinu eða ekki; hvort ég fylgist með færslu leikmanna í þeirri keppni. Einu sinni var ég beðinn um að spjalla um fótbolta í sjónvarpi – það var Þorsteinn Joð sem bað mig (mig af öllum mönnum; ég veit ekki af hverju; jú, það var vegna þess að ég var að skrifa niður orð og orðatiltæki í lýsingum á keppninni, og einhverra hluta vegna frétti Þorsteinn af því) – og þá, þegar ég mætti í þáttinn til hans, bjó ég óvart til hugtakið ambient-fótbolti (að gefnu tilefni reyndar, því í einhverjum leiknum í yfirstandandi keppni var leikinn fótbolti sem leit einmitt þannig út: ambient-fólbolti). Núna dettur mér í hug að gaman væri að sjá fótboltaleik þar sem engin færsla leikmanna ætti sér stað; að þeir væru í raun allir – allir 22 mennirnir á vellinum – fjarverandi. Ég gæti vel hugsað mér að horfa á svoleiðis leik.