25. mars 2016

Líklega er aðeins eitt sem vekur í manni meiri depurð en þá að sjá íslenska fánanum flaggað í prívat húsagarði, og það er að sjá KR-fánann dreginn upp á sömu stöng. Ég vann eitt sinn við það að draga fána að hún. Það var fyrir mörgum árum; ég var sumarstarfsmaður í varahlutaverslun Globus-fyrirtækisins, og fyrir framan húsið í Lágmúlanum voru nokkrar flaggstangir. Ég man eftir að Árni Johnsen kom stundum í búðina og keypti af okkur varahluti; ég man það reyndar mjög vel því hann laumaði sér gjarnan fram fyrir biðröðina; hann mátti ekki vera að því að bíða eins og hinir; og okkur starfsmönnunum fannst þetta fyndið (og svolítið frekt). Ég man samt ekki hvernig það kom til að ég var valinn til að draga upp fánana. Kannski var það vegna þess að ég var ekkert sérlega vel að mér í varahlutunum; ég hafði ekki einu sinni bílpróf, þótt ég væri löngu orðinn sautján. En þetta var verkefni sem fól í sér ábyrgð; ég fann það. Og vissi. Þetta krafðist ákveðinnar kunnáttu, og auðvitað líka þess að manni væri treystandi til að sýna fánunum virðingu, meðal annars með því að láta þá aldrei snerta jörðu. Sú er að minnsta kosti reglan með þjóðfánann. Ég man samt ekki hvort íslenski fáninn var meðal þeirra sem ég dró upp þessa sumarmorgna í Lágmúlanum (skrítið að muna það ekki); þetta voru mestmegnis fánar með merkjum framleiðenda sem Globus var fulltrúi fyrir á Íslandi, meðal annarra Zetor, New Holland og Citroen. Hvað þann íslenska snerti, þá hafði ég dregið hann að hún oftar en einu sinni áður, til dæmis þegar ég var í skátunum og sumarbúðum K.F.U.M. í Vatnaskógi. KR-fánann hef ég þó aldrei dregið að hún: ég fullyrði það. Jafnvel þótt ég hafi verið félagsmaður í nokkur ár sem barn og unglingur. KR … Skátarnir … K.F.U.M. … Globus … Maður verður beinlínis hugsi yfir öllu þessu saman. En nú þegar ég hef enn á ný rifjað upp hið svokallaða „Globus-sumar mitt“ (sem þarf þó ekki að merkja að ég geri það reglulega), þá horfi ég til baka með undrun og stolti, og eiginlega furðu, því mér finnst nánast óskiljanlegt hvernig mér auðnaðist að afgreiða alla Zetor- og Citroen-eigendurna um varahlutina sína; hvernig þeim Árna Johnsen og öllum hinum tókst að gera sig skiljanlega við mig – mig sem skildi ekki orð af því sem þeir sögðu. Við höfðum náttúrlega bækur til að styðjast við; þeir bentu mér á teikningar af innviðum traktoranna og bílanna, og ytra byrði, nánast óendanlega flóknar teikningar með endalausum númerum og vísunum í enn aðrar teikningar, og þeir sögðu við mig: „Mig vantar þessa legu hér“, eða „karborator“ eða „spindilkúlu“, guð veit hvað; og ég, sem var fullkomlega rænulaus á þessu sviði, bað þá að bíða á meðan ég fyndi til hlutinn, og kom síðan aftur og sagði (á svipinn nákvæmlega eins og ég ímynda mér að ég hafi verið): „Gjörðu svo vel: spindilkúla, lega, karborator, DX, heybindivél – ekki málið.“ Ég myndi ekki ráða við þetta í dag. Ég myndi ekki heldur ráða við að draga fána að hún, ekki alla leið að minnsta kosti. Er ekki annars föstudagurinn langi í dag?

 

23. mars 2016

Ég sat við hliðina á vini mínum í útför í Dómkirkjunni. Við vorum á svölunum sunnanmegin; það var varla að við sæjum prestinn. Ég spurði hann (vin minn, ekki prestinn): „Manst þú eftir enska póstkröfulistanum, þeim sem við notuðum til að panta plötur frá Englandi – hét hann ekki JoJo Records?“ En þá var dagskrá útfararinnar hafin, og okkur gafst ekki tími til að ræða þetta frekar. Vinur minn náði reyndar að segja mér að hann hefði sjálfur notað einhvern annan lista á sínum tíma, sem hann minnti að kallaðist Windsong; en ég mundi ekki eftir honum. Og eins og fyrr sagði, þá var tónlistin í kirkjunni byrjuð; og bráðum færi presturinn að tala. En á meðan ég reyni að rifja þetta upp með listana ætla ég að spila smá músík. Ég hef verið að hlusta á tríóplötur Paul Motian undanfarið (tvær með Joe Lovano og Bill Frisell, og eina með Jason Moran og Chris Potter), og á eiginlega ekki orð yfir hvað þær eru fínar. Ég sá einu sinni tríóið með JL og BF á Village Vanguard; og náði þar með að sjá Paul Motian áður en hann dó. Ótrúlegur tónlistarmaður. Trommusólóið hans á Survivor´s Suite (með Keith Jarrett) er eitthvað sem reglulega minnir á sig þegar maður er að hugsa um eitthvað annað. Ég mun koma aftur að samtali okkar vinanna í kirkjunni, um póstkröfulistana, en þangað til – og jafnvel lengur – verður þetta að duga: Paul Motian að spila á trommur (ég þekki þessa plötu reyndar ekki, og mig grunar að hana sé ekki lengur að finna í búðum – en kannski á póstkröfulistunum, hver veit?):

21. mars 2016

Í eins konar formála að endurminningum sínum nefnir Árni Bergmann Thomas Bernhard, og segir hann stórmerkan höfund, en að hann hafi verið fúllyndur. Ég ætla ekki að láta þetta koma í veg fyrir að ég haldi áfram með bók Árna; en samt: þetta er frekar ónákvæm lýsing og villandi. Bölsýni Thomasar Bernhard á ekkert skylt við fúllyndi. Ekkert gleður mann meira en einmitt bölsýni Thomasar Bernhard.

19. mars 2016

Reglulega (þ.e.a.s. óreglulega) fer ég í Hólavallagarðinn til að athuga hvort leiði og legsteinn Alexíusar Árnasonar lögregluþjóns sé ekki enn á sínum stað. Síðast fór ég á miðvikudagskvöldið var, rétt áður en dimmdi. Ég hef áður minnst á Alexíus hér, og mig grunar að ég eigi eftir að gera meira af því síðar. En ég nefni þetta núna vegna þess að á fimmtudagsmorgun hafði dottið inn um bréfalúguna Morgunblaðið (það gerist stundum á fimmtudögum; þeir eru að kynna fyrir “non-subscribers” blaðið sitt, þeir hjá Morgunblaðinu); og í því var svolítil umfjöllun um Alexíus Árnason, meira að segja með ljósmynd af honum sem ég hafði ekki séð áður. Í greininni var minnst á að Þórbergur Þórðarson hefði sagt frá Alexíusi í Ofvitanum, og þá auðvitað í tengslum við Bergshús, en það var einmitt Alexíus sem lét byggja Bergshús á sínum tíma. Það er svolítið síðan ég las Ofvitann, og ég mundi ekki eftir að fjallað væri um Alexíus þar. Það þarf varla að taka fram að frásögn Þórbergs af þessum fyrsta íslenska lögregluþjóni í Reykjavík er bráðskemmtileg (ég á örugglega eftir að minnast á hana aftur), en það er annað textabrot eftir Þórberg sem mig langaði til að deila hérna núna; það er að finna í kaflanum á undan þeim sem segir frá Alexíusi, kaflanum Baðstofunni, þar sem sagt er frá Baðstofunni í Bergshúsi. Þar skrifar Þórbergur þetta:

 

Allir Íslendingar kunna að lesa bækur. En hversu margir kunna að lesa hús? Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur. Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd. Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd. Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna. Bókin er lygin um líf þeirra. (Ofvitinn, bls. 58)

 

Þetta rímar mjög skemmtilega við bók sem ég les alltaf í annað slagið: The Poetics of Space eftir Frakkann Gaston Bachelard. Sú bók (á frönsku La poetique de l´espace) kom út árið 1958. (Hér er brot úr henni, sem ég vel nánast af handahófi: It therefore makes sense from our standpoint of a philosophy of literature and poetry to say that we “write a room,” “read a room,” or “read a house.” Thus, very quickly, at the very first word, at the first poetic overture, the reader who is “reading a room” leaves off reading and starts to think of some place in his own past.) Þórbergur gaf út Ofvitann á árunum 1940-41. Ég ætla ekki að fara að draga neinar ályktanir af því, í tengslum við útgáfuár bókar Bachelards, eða halda einhverju fram; en þetta er áhugavert. Og enn og aftur spyr maður sig að því hvers vegna stalínistanum Þórbergi er ekki haldið að íslenskum grunnskóla- og menntaskólanemum.

17. mars 2016

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

Stöð tvö – margfalt skemmtilegri.

15. mars 2016

Svo hollt er manneskjunni að leiðast – kannski helst börnum en ekki síður fullorðnum – að manneskjan sem situr ein við borð á veitingastaðnum dauðskammast sín fyrir að leiðast ekki. (Það er ekki svo að ég sé í augnablikinu að fylgjast með þessari manneskju; ég er að búa hana til.) Gestirnir á næstu borðum líta út fyrir að leiða ekki einu sinni hugann að leiðanum. En allir eiga þeir fyrir höndum að fara heim til sín – og hér minni ég mig aftur á að ég er að búa þessa gesti til – þar sem þeim mun leiðast svo mikið að þeir leggja umsvifalaust drög að því að fara aftur út sem fyrst. (En auðvitað eru það bara drög. Ég á heldur ekki við að þessir „gestir“ mínir fari á veitingastað strax kvöldið eftir. Sjálfur fer ég afar sjaldan á veitingastað; og þegar það gerist, þá hugsa ég iðulega: Nú munu líða margir dagar, jafnvel vikur, þangað til ég fer aftur.) Manneskjan sem situr ein á þessum ímyndaða veitingastað mínum er eina manneskjan á staðnum sem í augnablikinu er heima hjá sér.

ps. Ég sé fyrir mér að tómatarnir í salatinu á veitingastaðnum séu ræktaðir á Spáni, í þessum gróðurhúsum hér í Almería:

13. mars 2016

Um leið og ég afþakka það að fá að rifja upp hvernig umhorfs er í eldhúsinu framkalla ég herbergið gamla í huganum, eins og það var áður en við fluttum. Loftið svart, veggirnir dökkbrúnir, svartur ferhyrningur á einum veggnum með öðrum smærri ferhyrningi innan í sem er brúnn eins og veggurinn. Viðarlitaður svefnsófi og skrifborð í sama dökka litnum undir glugganum, svört hljómtæki, dökkrauð slitin pulla, gamall og lúinn skrifstofustóll með örmum, staflar af hljómplötum á fleiri en einum stað í herberginu, og Keith Emerson á veggnum fyrir ofan svefnsófann, sitjandi í svörtum leðursamfestingi á svörtu mótorhjóli með aðra höndina á svörtum hjálmi sem liggur á bensíntankinum. Keith Emerson, þessi mikli galdramaður sem munaði ekkert um að skrifa píanókonserta, að minnsta kosti einn píanókonsert, á milli þess sem hann ferðaðist um á Harley Davidson og lét taka myndir af sér í ensk og þýsk unglingablöð. Það var úr einu slíku blaði sem ég hafði klippt myndina sem hékk á veggnum.

 

(Brot úr sögunni Herbergið mitt, einni af 25 sögum í smásagnaúrvalinu Dulnefnin, sem kemur út í apríl næstkomandi hjá Máli og menningu. Sagan birtist upprunalega í Lesbók Morgunblaðsins, í janúar 2003: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/710586/)

11. mars 2016

Í algeru leyfisleysi, en af gefnu tilefni (því birtan úti – utandyra – er að verða fullmikil fyrir minn smekk), langar mig til að birta hérna fimm lína ljóð eftir Óskar Árna Óskarsson. Það kemur úr fyrstu ljóðabók hans, Handklæði í gluggakistunni, frá árinu 1986. Það kallast Vor:

 

Götuljósin kvikna

eitt af öðru

án þess nokkur

taki eftir

fyrr en dimmir

9. mars 2016

Verði einhvern tíma af því að ég gefi út bók í anda Ég man (sbr. Joe Brainard, Georges Perec og Þórarinn Eldjárn), eins og ég nefndi hér í fyrradag, þá mun sú bók kallast Mig minnir. Ég nefni þetta hér til að muna frekar eftir því þegar að þessu kemur.

7. mars 2016

Af og til í um það bil þrjátíu ár hef ég reynt að muna nafn á bíómynd sem ég sá í Hafnarbíói í kringum 1975, kannski 76 eða 7, um konu sem giftist dánum manni. Eða dáinn mann sem kvæntist lifandi konu, ef maður horfir á það þannig. Af og til hef ég munað nafnið á myndinni, eða talið mig muna það, en jafnóðum gleymt því aftur (stundum haldið að myndin héti Arthur, og látið þá röngu ágiskun einhvern veginn leiða mig enn fjær hinu rétta nafni). Til að reyna að koma í veg fyrir að ég gleymi þessu enn eina ferðina, að minnsta kosti um sinn – nú þegar ég hef rifjað þetta upp að nýju með aðstoð netsins – hef ég ákveðið að setja hér litla færslu um myndina. Ég man að hún var fyndin, en ég man líka enn betur að hún vakti með mér mikinn hrylling. Ég hef örugglega verið dauðhræddur, skjálfandi á beinunum, þegar ég gekk út úr dapurlegum bragganum sem hýsti Hafnarbíó, og inn í myrkrið og kuldann á Barónsstígnum. Hver man ekki eftir Hafnarbíói? Ég man meira að segja eftir að hafa spilað þar á tónleikum. Ég tel mig muna það. Ég man að minnsta kosti eftir að hafa verið á tónleikum þar. „Ég man.“ (Þegar kemur að því að maður setur saman bók í anda Brainards, Perecs og Þórarins Eldjárns, um það sem maður man, á þetta eftir að lenda þar.) Það sem reyndar olli því að ég fór að hugsa um myndina Arnold að þessu sinni var umræðan á Íslandi síðustu vikur og mánuði um forsetakosningarnar. Þær íslensku, það er að segja. Það getur vel verið að á næstu vikum dúkki upp einhver frambjóðandi sem maður gæti hugsað sér að kjósa, fremur en einhvern annan (sem hugsanlega er þá þegar kominn fram); en það sem mér finnst mest aðlaðandi hugmyndin sem ég hef heyrt til þessa er að framliðinn einstaklingur verði fundinn í hlutverkið, að þjóðin kjósi yfir sig látinn forseta. Mér finnst það reyndar mjög góð hugmynd. En meira um þetta síðar, eins og sagt er. Þegar ég heyrði þessari hugmynd fleygt fyrst (það var í sumarbústað fyrir um það bil hálfu ári) voru nefnd nokkur nöfn framliðinna einstaklinga sem kæmu til greina sem forsetar, en það er kannski ekki tímabært að varpa þeim fram strax. En hér er bíómyndin sem ég minntist á. Hún heitir Arnold, og Roddy McDowall leikur í henni:

29. febrúar 2016

Það er ekki hægt að sleppa þessari dagsetningu. Blöðin í dag eru full af viðtölum við fólk sem á ekki afmæli nema á fjögurra ára fresti. En nú að öðru. Þegar ég vann á auglýsingastofu fyrir um það bil einum og hálfum áratug fékk ég einn daginn það verkefni að heimsækja Landsvirkun, og spjalla við upplýsinga- eða kynningarfulltrúa fyrirtækisins um verkefni sem þeir vildu fela stofunni. Mér leist ekkert á það. Ekki vegna þess að ég hefði eitthvað á móti starfsemi fyrirtækisins – mér, sem þannig séð óbreyttum starfsmanni, leyfðist varla að hafa skoðun á því – mér fannst bara ólíklegt að ég gæti hjálpað þeim að búa til texta á því sviði sem þeir fengust við. En ég fór samt á fundinn; ég gat ekki skorast undan því. Fulltrúinn var með skrifstofu á fimmtu hæð hússins; hann sat við stórt og mikið skrifborð og sneri baki í stóra og mikla glugga, þaðan sem útsýni var yfir vestanverða borgina. Þetta var mjög tilkomumikið. Fljótlega eftir að við byrjuðum að spjalla um verkefnið – eða fulltrúinn að spjalla við mig, réttara sagt – tók ég eftir einhverjum hvítum hlut á sveimi fyrir utan gluggann. Þetta var plastpoki. Tómur, sýndist mér. Og ómerktur, sýndist mér líka; ekki merktur neinu sérstöku fyrirtæki eða verslun. Hafi ég meðtekið eitthvað af því sem fulltrúinn var að segja við mig, gleymdist það allt á þessu augnabliki, því öll mín athygli fór í að fylgjast með pokanum. Sjálfur vissi fulltrúinn ekki af honum; hann sneri í hann bakinu. Næstu mínúturnar gerði ég ekki annað en að fylgjast með flugi pokans, og eflaust hef ég undrast hversu lengi hann sveimaði um á þessum ákveðna stað í loftinu. Þetta var mjög falleg sjón. Mér fannst sem pokinn væri að reyna að segja mér eitthvað. Og eftir á að hyggja er ég viss um að hann sagði mér eitthvað. Því ekki sagði fulltrúinn mér neitt, þrátt fyrir að hann léti dæluna ganga um verkefnið allan þann tíma sem pokinn þaut til og frá í loftinu fyrir aftan hann. Ég ætla mér ekki að fara að draga neinar ályktanir af þessari minningu, og þaðan af síður að setja hana í eitthvert „samhengi“; en óhjákvæmilega verður manni hugsað til prósaljóðs Baudelaires um skýin: „skýin sem líða hjá … í fjarska … dásamlegu skýin!“ Mér verður alltaf hugsað til Baudelaires þegar eitthvað gerist.

27. febrúar 2016

Finnland og jazz. Ég hafði ekki hugsað mér að minnast á þetta tvennt aftur, ekki svona í sömu andránni; en svo losna ég ekki við myndina (úr síðustu færslu) af Finnanum með hökutoppinn að hlusta á Bill Evans í fallegu stofunni, jafnvel þótt ég hafi kíkt á bókamarkaðinn undir stúkunni í dag, og séð ýmislegt þar sem hefði átt að ýta burt myndinni af Finnanum. Og ég fór að rifja upp heimsókn mína í plötubúð í Helsinki fyrir nokkrum árum. Ég hafði leitað sérstaklega að jazzplötubúð í borginni, með hjálp netsins, og fann þessa fínu búð sem átti að opna klukkan 11 fyrir hádegi. Ég var mættur fyrir utan búðina eitthvað aðeins fyrir klukkan 11, og var því fyrsti viðskiptavinur dagsins. Búðin var stórfín; hún seldi ekki bara jazz heldur líka allskonar þjóðlagatónlist, og auðvitað finnskan tangó. Áður en ég held áfram ætti ég líklega að taka fram að ég er ekki að fara að segja einhverja sögu; það var ekkert sérstakt sem gerðist þarna í búðinni, fyrir utan að ég keypti þrjá eða fjóra geisladiska, þar á meðal einn með finnskum tangó. Mér finnst bara svo skemmtilegt að rifja upp þegar næstu viðskiptavinir á eftir mér komu í búðina; það voru tveir menn, þeir komu í sitthvoru lagi, og þeir byrjuðu að tala eitthvað við manninn hinum megin við afgreiðsluborðið – um jazz – og mér fannst svo fallegt að heyra nöfnin á amerísku jazzleikurunum hljóma innan um alla finnskuna. Annað var það ekki. Þetta er ein af fallegustu minningum sem ég á úr evrópskri borg.

25. febrúar 2016

Af því ég hef verið að skrifa svolítið sem tengist árinu 1976 hef ég alveg gleymt því að núna er árið 2016, og það er kominn 25. febrúar. Vika liðin. Margir mánuðir liðnir. Mörg ár, og áratugir. Ég er staddur inni í gamla unglingaherberginu mínu. Ég hélt að væri 24. febrúar í dag. Ég fylgist ekki með tímanum. Er ekki kominn tími á músík? Ég fer inn í hámóderníska stofu í finnsku einbýlishúsi árið 1970, þetta líkist ekkert íbúð foreldra minna á sama tíma (ég get reyndar ekki fullyrt um hvernig hún var nákvæmlega þá, því minnið nær ekki nema til 1972) ; og þarna er Bill Evans kominn í heimsókn með bassa- og trommuleikarann sinn, Eddie Gomez og Marty Morell. Það er dásamlegt að fylgjast með Finnunum fylgjast með Bill Evans tala og spila. Þessi heimsókn tríósins hefur ábyggilega verið rifjuð upp mjög oft meðal gestgjafanna og gesta þeirra. Ég held að þetta sé einhvers staðar fyrir utan Helsinki. Bill Evans er ekki kominn með skeggið þarna – hann er auðvitað miklu myndarlegri svona – og hann minnir óneitanlega á ákveðinn íslenskan rithöfund. Ef ég mætti taka með mér eitt tónlistarmyndband á eyðieyjuna (sem þýddi að ég fengi að hafa með mér tölvuna líka, fullhlaðna af rafmagni), þá held ég að þetta yrði fyrir valinu:

18. febrúar 2016

Hundahald vestan Tjarnar er titill á smásögu sem ég hef í hyggju að skrifa. Augljóslega er þetta vísun í Kristnihald undir Jökli (fáránlegt að halda öðru fram); og ég verð víst líka að játa fyrir sjálfum mér að aðalpersóna sögunnar (eins og hugmyndin er í dag) er á vissan hátt í svipuðu hlutverki og umboðsmaður biskups í sögu Halldórs Laxness, nema að því leyti að það er ekki biskup sem sendir hana, persónuna, út af örkinni. En auðvitað á maður ekki að vera að gaspra um eitthvað sem maður ætlar sér að skrifa. Þá verður ekkert úr því. Þessi hugmynd sem ég nefndi, Hundahald vestan Tjarnar, er hluti af stærra verkefni, eins konar smásagnasafni (ekki þó sagnasveig; frekar einhvers konar sagnabeyg – því hvað eru svona skrif annað en enn eitt tilefnið til að byggja upp í sér ótta og kvíða); en núna, þegar ég hef látið eftir mér að gaspra um þessa söguhugmynd mína, þá eru líklega minni líkur en meiri að ég láti verða af því að vinna úr henni. Sem er kannski bara gott. Allajafna er þó viturlegra að sleppa því að tala um eitthvað sem maður ætlar sér að gera, að minnsta kosti þegar um er að ræða bókaskrif. Frekar að tala um eitthvað sem maður hefur þegar skrifað. Í apríl næstkomandi á að koma út úrval smásagna úr þremur bókum sem ég hef þegar gefið út (að vísu er ein bókanna ekki eiginleg bók, heldur hefti í tímaritröðinni 1005). Þessar þrjár bækur eru Nöfnin á útidyrahurðinni, Við hinir einkennisklæddu og Rússneski þátturinn. Titill nýju bókarinnar á að vera Dulnefnin, og undirtitill: sögur 1996 – 2014. Og fyrst ég er á annað borð að tala um titla, þá er líka kominn titill á bókina sem stendur til að Hundahald vestan Tjarnar verði hluti af, en líklega er best að vera ekkert að nefna hann.

16. febrúar 2016

Í Bæjarskrá Reykjavíkur frá árinu 1903 er að finna eftirfarandi auglýsingu (myndskreytta): Sigríður Sigurðardóttir Pósthússtræti 14b., sunnan við dómkirkjuna selur: vel tilbúinn MAT, KAFFI og SJOKOLADE og ýmsa óáfenga drykki. Hefir þrjár veitingastofur og nóg af blöðum. Selur mat hvort heldur vill til langframa, eða eina og eina máltíð, margréttaða, ef vill, og hvort sem margir eru eða fáir, eftir því sem húsrúm leyfir. (Þetta orðalag, ef vill, er vannýtt í málinu. Sömuleiðis sögnin að hafa, eins og hún er notuð hér, sbr. „hefir þrjár veitingastofur“. Maður tekur líka eftir því að Sigríður í Pósthússtrætinu var ekki með áfengi á boðstólum. Ef ég væri á samskiptamiðli þar sem vænta mætti viðbragða frá lesendum, þá myndi ég eflaust láta mér detta í hug að spyrja: Man einhver eftir þessari Sigríði sunnan við kirkjuna? Ég átta mig ekki alveg á hvernig matstofan gat verið sunnan við kirkjuna, en samt í Pósthússtræti. Ég hefði haldið að suður af kirkjunni væri Kirkjustræti.)

 

14. febrúar 2016

Öskjuhlíðin rétt upp úr hádegi. Alhvít. Samkvæmt útvarpinu er ósonlagið óvenju þunnt. Fólki er ráðlagt að vera með sólgleraugu. Mannbroddarnir undir hægri skónum mínum eru ekki lengur átta, heldur þrír. Ég þarf að hafa hugann við hvert skref. En hvar var glæpurinn framinn? spyr ég sjálfan mig milli trjánna. Einhvers staðar var það. Og það gerðist hér: í Öskjuhlíðinni.

12. febrúar 2016

Ef ekki annan hvern dag, þá þarf að líða vika. Það má ekki óhlýðnast yfirskriftinni; og nú finnst mér eins og heil vika sé of langur tími án þess að nokkuð gerist. Ég veit alveg hvað ég geri í því. Ég birti bara ljóð eftir Max Jacob. Ég var að hugsa um að skrifa eitthvað um bókina sem ég er að lesa, The Factory of Light, Tales from my Andalucían Village, eftir Englendinginn Michael Jacobs (sem af þorpsbúunum í bókinni er kallaður Maiquel), en það verður að bíða betri tíma, eða þangað til ég klára bókina. Og þar sem maður les yfirleitt fleiri en eina bók í einu, þá gæti liðið lengri tími en maður sjálfur ætlar að muni líða. En bókin um ólívuþorpið Frailes er ansi skemmtileg. Max Jacob er aftur á móti staddur svolítið norðar, á Bretagne-skaganum:

 

BÓKMENNTIR OG LJÓÐLIST

 

Það var í nágrenni Lorient. Sól skein hátt á himni og við fórum í stutta göngutúra og horfðum í gegnum septemberdagana á hafið rísa og hylja skógana, landslagið, klettana. Brátt var ekkert eftir sem gat spornað við bláu hafinu nema hlykkjóttir stígarnir milli trjánna, og fjölskyldurnar sem áttu þar leið um tóku að draga sig nær hver annarri. Meðal okkar var lítill drengur í matrósafötum. Hann var dapur að sjá; hann tók í hönd mína: „Herra,“ sagði hann, „ég hef verið í Napólí; vissuð þér að í Napólí er fullt af litlum götum; maður getur gengið um göturnar alveg einn án þess að nokkur verði manns var. Það er ekki svo að Napólí sé fjölmenn borg, en þar eru svo margar litlar götur að aldrei eru fleiri en ein gata á mann.“ „Hvaða vitleysu er drengurinn að segja yður?“ spurði faðir hans. „Hann hefur aldrei komið til Napólí.“ „Drengurinn yðar er skáld, herra.“ „Allt í lagi með það, en ef hann fer að kalla sig bókmenntamann, þá sný ég hann úr hálsliðnum!“ Hlykkjóttir stígarnir þerraðir af hafinu höfðu vakið hjá honum drauma um göturnar í Napólí.

10. febrúar 2016

Væri ég í augnablikinu að skrifa færslu á facebook, finnst mér afar líklegt að hún fjallaði um íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð. Mig dauðlangar til að tjá mig um hana. Ekki til að þykjast hafa eitthvert vit á sjónvarpsþáttum, eða til að tilkynna um ánægju eða leiða, heldur frekar til að láta vita af því að ég sé búinn að sjá alla þættina hingað til, nema einn, og hafi í hyggju að horfa á restina. Ég er líka spenntur að vita hvort Stefán Jónsson sjáist eitthvað meira í þáttunum en bara á ljósmynd. Ekki það að mig gruni að hann sé morðinginn, eins og ég heyrði fleygt um daginn; ég hef ekki nokkra hæfileika í þá átt að komast að því hver er morðinginn í svona þáttum; ég er einfaldlega spenntur að vita hvort Stefán sjáist meira í seríunni. Því ég þekki Stefán. Og í raun felst áhugi minn á svona þáttum á borð við Ófærð í því að vita hvort persónurnar í þeim sjáist eða ekki; hvort þær skjóti aftur upp kollinum eftir að þær hafa verið kynntar til sögunnar. Auðvitað má segja að mest spennandi persónurnar í spennuþáttaröðunum (og bíómyndunum líka) séu þær sem aldrei sjást; en um leið og ég segi það (og hugsa), þá geri ég mér grein fyrir að í fyrsta lagi sé erfitt að framleiða þátt – ég tala nú ekki um röð af þáttum – þar sem persónurnar séu einungis kynntar til sögunnar en sjáist síðan ekki eftir það, og í öðru lagi að jafnvel þótt slík framleiðsla væri erfið (og ekki síst fjármögnunin) hlyti útkoman að verða spennandi. Ég sé þetta alveg fyrir mér: í fyrsta þætti seríunnar væru flestar persónurnar kynntar til leiks, en myndu fljótlega hætta að sjást í mynd; og í lok þáttarins væri svo komið að einungis ein eða tvær persónur yrðu eftir, jafnvel ekki svo greinilegar, eins og ef til vill í móðu. Í öðrum þætti seríunnar dúkkuðu síðan upp tvær til þrjár nýjar persónur, þær hefðu einhver óljós samskipti við þær persónur sem enn glitti í úr þættinum á undan, en þær myndu síðan hverfa fljótlega; og smátt og smátt (en í raun mjög fljótt) yrði engin persónanna eftir í mynd; og restin af seríunni yrði þannig séð „mannlaus“; það væri áhorfandans að geta í eyðurnar, eða öllu heldur eyðuna sem sjónvarpsskjárinn sýndi honum. Með því móti gæti serían í raun haldið áfram endalaust; viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, jafnvel ár eftir ár. Í mörg ár. Alltaf á sama tíma, á sama vikudegi, ár eftir ár, nokkra áratugi, hundruð ára; kynslóðirnar myndu allar horfa á sömu seríuna; árið 3016 væri serían sem við horfðum á árið 2016 ennþá í fullum gangi. Með sömu persónum.

3. febrúar 2016

Fyrir tveimur árum eða svo setti ég saman fjóra klukkutímalanga þætti fyrir Ríkisútvarpið, þar sem ég valdi tónlist af geisladiskum úr eigin safni, og spjallaði eitthvað í kringum þá tónlist. Það var skemmtilegt verkefni, en um leið erfitt, því með því að velja einhverja ákveðna músík útilokar maður aðra músík. Fyrir nokkrum dögum bauð síðan útvarpsmaðurinn Hallgrímur Thorsteinsson mér í þátt til sín á hinni ríkisstöðinni, númer tvö, þar sem ég átti líka að velja músík og spjalla eitthvað í kringum hana. Þetta var ekki síður skemmtilegt en þættirnir sem ég bjó til sjálfur, og á sama hátt erfitt; en til allrar hamingju fékk ég ekki nema hálfan dag til að velja lögin fyrir Hallgrím – hefði ég haft nokkra daga er ég hræddur um að þeir dagar hefðu ekki nýst nema að litlu leyti í þeirri vinnu sem ég stunda allajafna. En þegar ég tók þessi plötusnúðaverkefni að mér fór ég að hugsa um svolítið sem snýr að tónlistarsmekk og -neyslu; svolítið sem mig minnir að ég hafi minnst á í þáttunum fjórum á Rás eitt, en lét vera að tala um í spjallinu við Hallgrím (enda var um nóg annað að tala á þeim klukkutíma sem þar var skammtaður). Ég fór að hugsa um þá staðreynd að heilmikið af þeirri músík sem ég held mest upp á er búin til af tónlistarmönnum sem ég kæri mig ekkert sérstaklega um að aðrir viti að ég hlusti á. Að vísu kemst það fólk sem ég bý með ekki hjá því að vita um hverja ræðir – frekar snúið að vera að pukrast með þetta inni á heimilinu – og kannski nánustu vinir líka; en ég kæri mig ekki um að þessi nöfn spyrjist mikið út að öðru leyti. (Líklega er þó rétt að nefna að ég er ekki að tala um Boney M, The Eagles eða Olsenbræðurna – þetta er ekki svoleiðis.) Núna dauðlangar mig reyndar til að gefa upp nöfn, þótt ekki væri nema nokkur af þeim sem ég hef í huga. Bara eitt eða tvö. Í mesta lagi þrjú. Enda eru þeir ekki mikið fleiri en það, þessir menn sem ég stend í hálfleynilegu sambandi við sem aðdáandi. En ég finn samt að ég vil það ekki. Ég óttast nefnilega að með því að varpa fram þeim upplýsingum muni ég gera það að verkum að sá sem les þetta (vel að merkja „sá“, því ég held, og hálfpartinn vona, að lesendur séu ekki fleiri en einn) fari að sjá mig fyrir sér á einhvern allt annan hátt en ég vil að horft sé á mig; að myndin sem ég vona innst inni að lesandinn hafi af mér sem tónlistaráhugamanni muni brenglast, eða beinlínis verða hlægileg í því ljósi að ég hlusti líka (og þá hugsanlega miklu meira) á þá tónlistarmenn sem ég er í þessari færslu að leitast við af fremsta megni að nefna alls ekki. Það er vandlifað. Þegar ég tók saman tónlistina fyrir Rásar eitt- og Rásar tvö-þættina var ekki laust við að mér liði eins og ég væri að svíkja þá tónlistarmenn sem ég ákvað að taka ekki með í stúdíóið í Efstaleiti. Að ég væri að afneita þessu fólki sem hefur glatt mig svo mikið í gegnum tíðina. En það er ekki bara vandlifað; þetta er líka býsna flókið mál. Til dæmis hika ég ekki við að segja einum ákveðnum vini mínum að ég hlusti á tónlistarmanninn X, en mér dytti ekki í hug að játa þá sök fyrir öðrum vini mínum. Þannig að þegar þessir tveir vinir eru samtímis í heimsókn hjá mér (sem gerist reyndar ekki oft), þá er alls ekki rætt um tónlistarmanninn X, því fyrrnefnda vininum, sem segir sig sjálft að heldur mikið upp á X, er fullkunnugt um að þeim síðarnefnda er lítið um X gefið, og skammast sín alveg jafn mikið og ég fyrir að halda upp á hann. Ég geri mér reyndar grein fyrir því núna, um leið og ég segi frá þessum vinum mínum, að við tölum aldrei um músík þegar við hittumst. Ég nefni þessa menn einungis í þeim tilgangi að reyna að útskýra eitthvað. Eitthvað sáraeinfalt (þótt ég hafi lýst því yfir að það væri flókið). Faðir minn sagði stundum eftirfarandi orð á þýsku (sem ég vona að ég fari rétt með; ég er ekki sleipur í þýsku): Warum einfachen wenn mann komplizieren kann? Ég notaði þessi orð meira að segja í smásögu sem ég gaf út fyrir tuttugu árum. Núna nota ég þau aftur.