10. nóvember 2017

Næstu kaflar gerast erlendis, og þar af leiðandi gerist ekki neitt. En að horfa á myndband er góð skemmtun (jafnvel þótt efnið sé endurtekið):

8. nóvember 2017 (aukafærsla)

Það stóð ekki til að hafa aukafærslu, en nú vildi svo til að ég var að skrifa svolítið annað, og þetta annað minnti mig á (hugsanlega of mikið) mannlýsingu sem ég las í gærkvöldi, í sögu eftir Fjodor Dostojevskí, í hinu undursamlega smásagnasafni Sögum frá Rússlandi, sem var að koma út hjá Uglu:

Enginn spilaði við hann, enginn bauð honum vindil, enginn gaf sig á tal við hann; kannski áttuðu menn sig á hvers konar mann hann hafði að geyma. Þess vegna var þessi herramaður neyddur til að sitja og strjúka bartana sína allt kvöldið svo hann sæti ekki bara með hendur í skauti. Bartarnir voru vissulega mjög tilkomumiklir. En hann strauk þá af svo miklu kappi að hiklaust hefði mátt halda – þegar fylgst var með honum – að fyrst hefðu bartarnir komið til sögunnar en síðan hefði maðurinn verið festur við þá í þeim eina tilgangi að strjúka þá. (úr sögunni Jólatré og brúðkaup, bls. 108 – þýð. Áslaug Agnarsdóttir)

8. nóvember 2017

Maður verður aðeins leiður á því sem er nýtt. (Sören Kirkegaard)

Þrátt fyrir það er ástæða til að benda á nýjustu útgáfuna á tónlist Bill Evans. Enda er upptakan gömul – hvað annað? Ég kom við í Smekkleysu í gær, og Ási benti mér á þessa fallegu útgáfu frá Resonance:

Og fyrst Eddie Gomez er hluti af tríóinu, þá er ástæða til að rifja upp þessa dásamlegu myndupptöku frá Finnlandi (mig minnir að henni hafi áður verið „deilt“ á þessari fáránlegu síðu minni):

En aftur að hinu „nýja“. „Nýja“ bókin er enn ekki komin með skipinu. Hún átti að koma í fyrradag – ég er orðinn nokkuð viss um að skipið er sokkið. Hugsanlega hefur það náð inn á Rauðarárvíkina (þar sem fyrsta ljóðið í bókinni „gerist“), en augljóslega ekki komist lengra. Ég verð bara að lifa með því.

7. nóvember 2017

 

 

 

 

 

„Það stefnir sem sagt í stjórn tveggja afturhaldsflokka og eins íhaldsflokks.“

„Krónur undan snjónum.“

„Fundið fé.“

6. nóvember 2017 (aukafærsla)

Illar tungur innan bókmenntaheimsins ræddu það sín á milli að einhver (innan bókmenntaheimsins) hlyti að segja eitthvað um nýjasta útspil (eða kert´og spil) Forlagsins hvað varðar nýjasta Arnald. Nú hef ég ekki myndefnið á tölvutæku formi, en gæti alveg eins látið fylgja mynd af Kim Jong-un eða Donald Trump –„útspil“ Forlagsins er alveg jafn fyndið – og það eru fleiri sem hafa komið auga á hið „kómíska tækifæri“ sem svona „útspil“ býður upp á. Jónas Reynir, höfundur skáldsögunnar Millilendingar og ljóðabókarinnar Stórra olíuskipa (og fleiri bóka), hefur stokkið á lest Forlagsins og Arnaldar, með því að kynna til sögunnar „pakka“ með sínum bókum. Utanáskrift pakkans frá Arnaldi er Af því þú ert frábær (ef til vill svolítill tónn frá ákveðnu tímabili í ísl. fjármálalífi?), en Jónas Reynir kýs að bjóða sínum markhópi upp á eftirfarandi: Af því þú átt skilið skilyrðislausa ást. Verst að hafa ekki myndefnið sem ætti að fylgja þessari frétt, en það á ábyggilega einhver eftir að dreifa því – ég gæti vel trúað að það rati í prentmiðlana fljótlega.

6. nóvember 2017

„Er ekki kominn tími á nýjan flutning Fiskistofu? Verður ekki að láta Fiskistofu-Sigurð hafa eitthvert verðugt verkefni, fyrst hann réð ekki við síðasta verkefni? Hvað með útlönd? Er ekki hægt að flytja Fiskistofu til útlanda? Bara eitthvað. Það verður að flytja Fiskistofu aftur. Hún getur ekki verið þar sem hún er. Slíkt er ekkert annað en kyrrstaða. Stöðnun. Dauði. Burt með Fiskistofu þaðan sem hún er. Sigurður? Sigurður Ingi? Fiskistofa. Flytja hana.“

5. nóvember 2017

Stormur á leiðinni. A storm´s coming in, eins og sagði í The Straight Story. Ég hefi áhyggjur af borðinu („pallborðinu“) sem var skilið eftir í hendi vindsins í Reykholtssveitinni; það er engin leið að spá fyrir um hvert, og í hvaða átt, hann, vindurinn (sem á að vera hvað öflugastur í Reykholtssveitinni í dag og í kvöld) mun henda borðinu. En þetta eru smávægilegar áhyggjur miðað við allar hinar. Kafli á dag ákvað að heimsækja aðra bloggsíðu á alheimsnetinu. Útgerðarmaður þeirrar síðu (svo ég notist við orðalag Össurs Skarphéðinssonar eða Jóns Baldvins Hannibalssonar, til dæmis) gerir að umtalsefni næturpósta sem hann fékk frá ónafngreindum lesanda síðunnar. Og ekki bara „einhverja næturpósta“, heldur 11 stykki sömu nóttina. Að vísu hafði viðtakandi póstanna haft vit á því að lækka niður í hljóðinu í tölvunni sem hefði að öðrum kosti gefið honum til kynna (í hvert skipti) að hann væri að fá sendan póst, þannig að næturpóstarnir ellefu héldu ekki fyrir honum vöku. (Að vakna ellefu sinnum sömu nóttina er ekki alveg það sem maður óskar sér, að minnsta kosti ekki áður en maður fer að sofa.) Fyrirbærið næturpóstar er mér hugleikið. Því þetta er nefnilega ákveðið „fyrirbæri“. Ég hefi sjálfur ekki „orðið fyrir þeim“, póstunum (þessari tegund pósta), en ég hef heyrt þeim mun meira um þá, og reynt að gera mér grein fyrir hvaða áhrif þeir hafa á viðtakendur (fyrir nú utan það hvernig sendendum þeirra líður daginn eftir að þeir sendu þá). Og ég hef ort um þá ljóð. Meira að segja tvö ljóð. Það seinna (ljóð nr. 2) verður með í bókinni sem samkvæmt farmskýrslunni á að koma til landsins á morgun. Það ljóð er að vísu ekki nema skugginn af því fyrra, en samt betra að ég held – fyrra ljóðið verður væntanlega ekki gefið út nema í einhvers konar posthumous útgáfu, eða kannski bara sent sem næturpóstur á adressu einhvers vel valins viðtakanda? En allavega, þá er í „aðra röndina“ gaman að lesa um svona „ónæði“ sem „útgerðarmaður“ bloggsíðunnar sem ég heimsótti, lýsti í sinni færslu – það mætti alveg vera meira af því (í bókmennta- og bloggheiminum, eða hinum bókmenntalega bloggheimi) að „aðilar“ sendi hver öðrum næturpósta, jafnvel þótt þeir séu sendir að degi til. Ég er að minnsta kosti óskaplega spenntur að vita hver það var sem vakti nógu lengi til að senda fleiri en tíu pósta á sama „aðila“ – sömu nóttina! Og hvað „aðilinn“ hafði gert til að verðskulda svona mikla athygli. Eða er ég bara að gera þetta að umtalsefni (á sunnudegi, þannig séð hvíldardegi) til að koma því til skila að ég sé alveg örugglega ekki höfundur næturpóstanna ellefu (með því að taka fram að ég hafi bara skrifað tvo svoleiðis, sem þar að auki eru bara ljóð)?

3. nóvember 2017 (aukafærsla)

„Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með fjölmiðlana.“

„Ég veit að „Guð blessi Ísland“ virkar betur sem titill á leikriti, en þessar tvær setningar (eða yrðingar? fullyrðingar? skipanir? hótanir? eða hvað sem þær myndu kallast) hljóta að enda í sætum nr. 1 og 2 yfir … yfir hvað?“

„Játningar?“

„Trúarjátningar?“

„En er ekki trúarjátning alltaf eins konar hótun?“

„Gagnvart þeim sem er ekki sammála henni?“

„Já.“

„Nei, er það?“

„En Geir Haarde hótaði Íslandi að Guð myndi blessa landið.“

„Það er rétt. Og játaði um leið trú sína á Guði. Geir Waage – Geir Haarde … hvað er þetta með alla þessa Geira?“

„En þetta með leikritatitlana – gæti hinn titillinn (yfir leikritið sem byggt verður á síðasta – og vonandi alsíðasta – forsætisráðherra FLokksins) – gæti hann ekki verið Vonbrigðin með fjölmiðlana?“

„Algerlega. Ekki síðri titill en Guð blessi Ísland.“

3. nóvember 2017

Ef-færsla dagsins hlýtur að vera „ef“tirfarandi: H„ef“ði verið gaman ef Elvin Jones og Bill Frisell h„ef“ðu hljóðritað meira saman.“

2. nóvember 2017

„Grein Hermanns Stefánssonar í Fréttablaði dagsins í dag fannst mér svo áhugaverð að ég fékk leyfi hjá eiganda annarrar tölvu en minnar til að kíkja aðeins á facebook – bara svona rétt aðeins, kannski í tvær eða þrjár mínútur (hugsanlega fjórar, í mesta lagi fimm). Burtséð frá hinni „skáldlegu“ forvitni sem ég þjáist af langaði mig hálft í hvoru til að ganga úr skugga um að ég væri alveg örugglega ekki skráður inn á apparatið facebook, því einu sinni – það var fyrir nokkrum árum – prófaði ég (í einhverri augnabliksvitleysu) að skrá mig þar inn, en hætti við sirka fimm mínútum eftir innskráningu, því mér bárust svo margar vinabeiðnir frá fólki sem mig langaði frekar til að eiga sem vini í „ketheimum“ en netheimum; og ég allt að því tók á rás í burtu frá tölvunni, rétt eins og tollvörðurinn Rousseau hljóp í átt frá striganum þegar hann hafði málað á hann ljónið ógurlega.“

„Og hvað?“

„Ég rakst á alnafna minn á facebook. Það er einhver „aðili“ skráður á facebook sem hefur sama nafn og ég, skírnar- og föðurnafn. En er þó alveg örugglega ekki ég, ef eitthvað er að marka myndina af honum. Þannig að þetta er ekki „ég hinnar gömlu skráningar minnar“.“

„En hvar ert „þú hinnar gömlu skráningar“?“

„Í felum bakvið facebook.“

„En stelst samt til að skoða?“

„Bara í tvær, þrjár mínútur. Hugsanlega fjórar eða fimm.“

„En nógu margar til að …?“

„Já. Til að sjá að ég er ekki skráður þar.“

„Nema að nafninu til.“

„Viltu að ég breyti um nafn?“

„Hefur það ekki alltaf staðið til?“

„Jú. Þegar ég var ellefu eða tólf langaði mig til að heita Sigurvin. En núna er ég búinn að nota það nafn í bók, þannig að þegar sú bók kemur út, þá verður það að vera undir einhverju öðru nafni en Sigurvin, því annars gæti efni hennar verið túlkað sem sjálfsævisögulegt.“

„Sem hún er, er það ekki? Eða verður?“

„Jú, reyndar. Sjálfsævisaga, en ekki mín eigin.“

1. nóvember 2017

„Þá er fallegasta mánaðarnafnið aftur dottið inn á dagatalið.“

„Fallegra en apríl?“

„Og fallegra en september.“

„Ekki þó fallegra en október? Og febrúar?“

„Kannski ekki. En samt. Er á meðan er.“

„Ég var að komast að því að í bók Snorra Hjartarsonar, Hauströkkrinu yfir mér, er ljóð sem hefur sama titil og ljóð í bókinni sem ég er að fara að gefa út, Öfugsnáða. Það er orðið ansi langt síðan ég las Hauströkkrið yfir mér – ég hef reyndar aldrei átt þá bók sjálfur; ég fékk Kvæðasafn Snorra lánað á bókasafninu í gær, mig langaði til að lesa aðeins meira af Snorra, eftir að móðir mín gaf mér eintakið sitt af Laufi og stjörnum um daginn – og ég sé núna að það var löngu tímabært að lesa þessa bók Snorra aftur.“

„En hvað með þetta ljóð sem þú nefndir – hvað kallast það?“

Við Suðurgötu. Ég mundi ekki eftir að það væri ljóð með þeim titli í bókinni.“

„Og þú áttir heima við Suðurgötu.“

„Ég veit.“

Stutt þögn. Mávur flýgur í veg fyrir byggingarkrana í glugganum.

„Ég átti heima þar í tólf ár.“

„Ég líka.“

„Við báðir.“

„Snorri Hjartarson hvílir við Suðurgötuna.“

„Kannski ekki alveg við götuna. Ekki eins og Einar Bragi. Eða Benedikt Gröndal. Og Sigurður Breiðfjörð.“

„Sigurður Breiðfjörð var reyndar fluttur aðeins ofar í garðinn. Það er að segja steinninn hans – ekki hann sjálfur. Aðeins ofar er þó ef til vill fullýkt – líklega er réttara að segja ögn ofar; við erum ekki að tala um nema einn eða tvo metra. En mér er sagt að Sigurður liggi þar sem niðurfallið er, upp af miðju hliðinu þaðan sem gengið er í áttina að Jóni Sigurðssyni (og séra Friðriki); þar sem forseti borgarstjórnar gengur alltaf með blómsveiginn á 17. júní.“

„Varla liggur hann þar sem niðurfallið er?“

„Mér var sagt það. Ég hef tilhneigingu til að trúa því sem mér er sagt. Það var bara steinninn sem var fluttur.“

„En hvað með ljóð Snorra? Einhver líkindi með því og þínu ljóði?“

„Það held ég ekki. Á meðan mitt ljóð „gerist“ í húsgarði austanmegin Suðurgötunnar (þar sem við bjuggum, manstu?), er ljóð Snorra ort um kirkjugarðinn vestanmegin. Við Snorri erum auðvitað afar ólíkir, nema hugsanlega að því leyti að honum fannst víst gott að drekka Campari. Og að reykja. En við erum kannski líka ólíkir í því að ég læt nánast aldrei eftir mér að drekka Campari, og það er ekki oft sem ég reyki. En þetta – þetta með Snorra og ítalska bitterinn og sígaretturnar – það er náttúrlega bara eitthvað sem ég heyrði. En eins og ég sagði: ég trúi mjög oft því sem ég heyri. Ég ræð ekkert við það. Einhver segir eitthvað við mig, og ég trúi því.“

„Getur verið að við séum að tala um þetta af því að við viljum ekki tala um það sem þessi augnablikin vofir yfir í íslenskum stjórnmálum?“

„Ég held þú hittir alveg naglann á höfuðið þar. Að vísu var eitthvað ýjað að því seint í gær að búin yrði til stjórn þar sem Panamamennirnir tveir yrðu skildir eftir úti í vegkantinum, svo ég vitni í herra E. Að þeir fengju ekki að vera með. Að við myndum horfa á þá liggja úti í vegkantinum, eins og tvo ryðgaða stuðara sem hafa dottið af bílnum, og ekki gafst tími – og enginn vilji var heldur fyrir – að festa á skrjóðinn áður en haldið var af stað aftur. En burtséð frá því, þá fannst mér þetta áhugavert, þetta með titlana í ljóðabókunum tveimur, Hauströkkrinu og Öfugsnáða. Og mér má alveg finnast það. Alveg eins og mér finnst, til dæmis, ljóðabók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðaðgerðin, vera góð bók.“

„Þetta er að verða ansi þétt ljóðaspjall hjá okkur, sýnist mér.“

„Því svartara sem það verður í íslenskri pólitík, þeim mun bjartara verður yfir okkur.“

„En hvernig er ljóð Snorra um Suðurgötuna?“

„Megum við birta það hér?“

„Það held ég að hljóti að vera. Erum við ekki alltaf að birta einhver ljóð í leyfisleysi?“

„Þú átt við: að því oftar sem við gerum eitthvað í leyfisleysi, þeim mun meiri heimild höfum við til að halda því áfram?“

„Erum við aftur farnir að tala um pólitík?“

„Ég var að vona ekki. En það er samt ekki hægt að segja að ljóð Snorra fjalli beinlínis um Suðurgötuna. Mitt ljóð gerir það ekki heldur. Það fjallar um endalok heimsins.“

„Ljóð Snorra?“

„Nei, mitt. Svo fjallar það náttúrlega um sig sjálft, eins og flest, ef ekki öll, ljóð gera. Og fellur um sig sjálft, eins og öll hin ljóðin gera.“

„Eigum við að láta það flakka?“

„Ljóðið mitt?“

„Nei, Snorra.“

„Af hverju ekki? En mikið var mamma þín góð að gefa þér Lauf og stjörnur.“

„Heldur betur.“

„En verðum við ekki fyrst að losa okkur við gæsalappirnar, áður en við látum ljóðið flakka?“

„…….“

…….

 

VIÐ SUÐURGÖTU

eftir Snorra Hjartarson

 

Hvít þoka

og fuglar á hægu flugi

milli trjánna

 

yfir rökum gangstígum

grasi

og blómum sem drúpa

þungum krónum

 

Hvít þokan

 

og dánarheimurinn myrki

djúpt í jörð

undir rótum trjánna

 

Tveir heimar

andstæður og eining

 

heimur lífs

og dauða.

31. október 2017

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur

 

 

 

 

SAMTAL UM PÓLITÍK

„Ég var búinn að lofa sjálfum mér – og öðru fólki í heiminum – að vera ekki að nota hið íslenska tungumál til að tjá einhverjar pólitískar skoðanir, sem hvort eð er … þú veist hvað ég á við … sérstaklega núna þegar íslenska þjóðin hefur talað.“

„En hvað?“

„Framsóknarflokkurinn …“

Dok. Jafnvel þögn.

„Ég veit.“

 

28. október 2017

Planið var að 28. október 2017 yrði hvíldardagur í heimi „kaflans“, og hann heldur í raun áfram að vera það, nú þegar dagurinn er sirka hálfnaður (og „næsti“ hefur flúið þéttbýlið); en,

„það má eiginlega ekki hjá líða að benda lesanda „kaflans“ á þessa „færslu“ Jóns Trausta Reynissonar, ritstjóra Stundarinnar, mannsins sem færði okkur (að minnsta kosti mér) hugtakið róttækur óheiðarleiki“:

https://stundin.is/grein/5706/kostnadurinn-vid-oheidarleikann/

„Eygið góðan dag“ (eins og Hermann Stefánsson orðaði það þegar ég hafði ráðlagt honum að „njóta dagsins“).“

„…“

Á maður dag?“

„Nei, en maður getur komið auga á hann. Ég var til dæmis á labbi áðan í dreifbýlinu, og ég sá að það var dagur, ekki nótt. Ég hefði tekið eftir því að það væri nótt, en það var það ekki – það var ekki nótt – jafnvel þótt snaran í hlöðunni í landi Kolsstaða héngi ennþá niður úr burðarbitanum.“

27. október 2017

„Starfandi forsætisráðherra talar um að það sé raunveruleg hætta á vinstristjórn. Veistu hvað hann á við með því?“

„Hann á við að á Íslandi geti myndast óeðlilegt ástand.“

„Og það viljum við ekki.“

„Ekki hann heldur. Þess vegna er hann að vara við þessu.“

„En má hann það? Svona rétt fyrir kosningar?“

„Ég veit það ekki. Ég er reyndar búinn að kjósa sjálfur, og mig grunar að mitt atkvæði hafi ekki verið mjög heppilegt.“

„Sem sagt óheppilegt?“

„Líklega óeðlilegt. Ég varð bara svo hræddur um daginn – ég býst við að það hafi eitthvað ruglað mig í kollinum.“

„Hvað meinarðu? Hræddur? Léstu einhverja hræðslu ráða því hvað þú kaust í kjörklefanum? Greip um sig einhver ótti vegna þess að þú varst staddur í Smáralind?“

„Smáralind hefur hugsanlega haft einhver áhrif, en það sat ennþá í mér hræðslan frá því um daginn þegar ég horfði á bíómyndina Butch Cassidy and the Sundance Kid í Ríkissjónvarpinu. Um þessa tvo myndarlegu menn sem rændu hverja lestina á fætur annarri, og banka líka, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eins og það væri alveg fullkomlega eðlilegt. Og það var ekki bara þeim sem fannst það eðlilegt; þeim sem voru rændir fannst það eðlilegt líka. Meira að segja vinkonu þeirra (sem var kærasta annars þeirra, en eiginlega kærasta þeirra beggja) fannst það líka eðlilegt.“

„Ansi klókt hjá Ríkissjónvarpinu að sýna svona mynd rétt fyrir kosningar! En þeir voru samt drepnir í lokin, var það ekki, ræningjarnir?“

„Jú. Það var samt aldrei sýnt þegar þeir voru drepnir, þannig að kannski eru þeir bara ennþá á lífi.“

„En af hverju varðstu hræddur?“

„Ég veit það ekki. Mér leið bara eins og hjónunum í leikriti Arthurs Miller, A Delicate Balance, sem urðu allt í einu svo óskaplega hrædd, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna.“

„Þetta lagast. Það verður komið eðlilegt ástand – aftur – eftir helgina. Þjóðin ætlar ekki að fara að leyfa einhverjum að hækka skatta á fólkið í landinu. Á þjóðina sjálfa. Hún mun ekki leyfa það.“

„Þjóðin?“

„Hún vill stöðugleika. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér – í algeru leyfisleysi – að birta hérna ljóð úr nýútkominni bók með þýðingum Gyrðis Elíassonar á ljóðum Ko Un, Sorginni í fyrstu persónu. Og taka það út fyrir svigann.“

„Þú átt við: út fyrir gæsalappirnar?“

„Alveg rétt.“

 

FUGLAHRÆÐAN

Á haustakrinum lítur fuglahræðan út einsog gestur.

Á vetrarakrinum lítur fuglahræðan út einsog betlari.

En ekkert er fjær sanni.

Þegar þú telur þorpsbúana, einn, tveir …

verðurðu líka að telja fuglahræðuna með.

26. október 2017 (aukafærsla)

„Þegar ég nefndi orðið krossmark fannst mér það hljóma eins og titill á skáldsögu.“

„Það er titill á skáldsögu.“

„Það á bara eftir að skrifa hana.“

„Ég fletti upp krossmarki á Vísindavefnum. Ég man ekki eftir að hafa gert krossmark yfir mínum húsdýrum áður en ég hef sleppt þeim á beit, en svona lítur þetta út.“

Af hverju signir maður sig?

Krossmarkið er eitt helgasta tákn kristninnar. Menn báru og bera enn kross í keðju um hálsinn, hafa krossa uppi á vegg eða yfir dyrum og svo framvegis. Áður fyrr gerðu menn krossmark yfir öllu sem þeir vildu biðja fyrir eða blessa. Til dæmis gerði fólk krossmark yfir húsdýrum sínum áður en þeim var sleppt á beit. Þá gerðu menn krossmark yfir börnum sínum og sjálfum sér. Var það bæði hugsað til að bægja frá öllu illu og til að helga sig Guði. Margir signa sig áður en þeir fara í hrein föt eftir að hafa verið í baði. Það er meðal annars gert til að minna á skírnina sem er nokkurs konar bað.

26. október 2017

„Leiðin liggur í Smáralind í dag.“

„Vegna þess að á morgun liggur hún út á land.“

„Allan gærdaginn stórsá ég eftir að hafa ekki haft músík í gær – mér finnst ég verða að nefna það.“

„Og þess vegna hlýt ég að bæta mér það upp í dag.“

„Ég ætla samt ekki að leita langt yfir skammt. Ég ætla að fletta upp í vinnugögnum.“

„Cría cuervos hlýtur að vera með betri bíómyndum.“

„Og ekki hægt að ímynda sér hana með annarri tónlist en þar hljómar.“

„Fyrst Mompou.“

„Og síðan Jeanette.“

„Hvenær ferðu í Smáralind?“

„Þegar ég hef ákveðið hvar ég set krossinn.“

„Krossmarkið?“

„Nákvæmlega.“

„Einmitt.“

„Nú finnst mér eins og ég sé að vitna í Guðmund Haraldsson þegar ég segi einmitt.“

„Algerlega.“

25. október 2017

„Eitthvað rámar mig í að í einum „kaflanna“ hafi verið kosningaspá fyrir 28. október næstkomandi? Og nú er sá dagur í minni fjarlægð en himinninn frá jörðu í skáldsögum íslenskra raunsæishöfunda. Og engin ný spá, nema þær sem birtast reglulega í einhverjum fölsuðum (íslenskum) fjölmiðlum.“

„Það er rétt. Það er kominn tími á nýja spá. Hvað eru flokkarnir margir?“

„Sem munu komast inn á þing?“

„Já, eða …“

„Sjö.“

„Ókei. Þá skiptast atkvæðin sem hér segir: Flokkur fólksins 6%, Framsóknarflokkur (100 ára) 9%, Miðflokkur 8%. Hvað eru þetta mörg prósent?“

„23%. Og komnir þrír flokkar.“

„Allright. Samfylking 16%, Vinstri græn 19%, Viðreisn 6%, Sjálfstæðisflokkur (Brynjars Níelssonar og Vilhjálms Bjarnasonar) 26%. Píratar 9%.“

Þögn.

„Þá er 1 prósent eftir.“

„Það skiptist á milli Alþýðufylkingar og Bjartrar framtíðar. BF fær 0,9 og Alþ.f. 0,1.“

„En þetta eru 9 flokkar.“

„Sjö þeirra komast inn á þing. En gerðu það … getum við ekki haft hvíldardag í dag? Bara ein spurning. Heldurðu ekki að það sé pláss fyrir Þjóðkirkjuna í húsnæði Valhalla við Háaleitisbraut?“

„Hvað áttu við? Er þetta nú ekki svolítið brött spurning?“

„Jú. En mér er sagt að í húsinu við Háaleitisbraut 1 séu svo margar tannlæknastofur að í landinu (á Íslandi) séu ekki nógu margir tannlæknar til að fylla þær stofur. Væri ekki hugmynd að koma Þjóðkirkjunni fyrir í öllu þessu húsnæði – með því að senda tannlæknana eitthvað annað?“

„Geir Waage líka?“

„Geir Waage er ekki tannlæknir.“

„Ég átti við hvort ekki væri hægt að koma allri Þjóðkirkjunni fyrir í Valhalla-húsnæðinu.“

„Geir Waage líka?“

„Bara allri kirkjunni. Jónas Kristjánsson er búinn að segja sig úr henni – tvisvar.“

„En þú?“

„Bara einu sinni.“

Aftur þögn.

„Við keyrðum í Mosfellsdal í gærkvöldi, við …“

„Kom Ó með?“

„Já. Við fórum að heimsækja J og R. Þau eru í heimsókn frá Danmörku, og búa í sumarbústað þaðan sem útsýni er til Mosfellskirkju. Það var varla að það væri nógu mikið bensín á bílnum. Við þurftum að taka „neyðarbensín“ á Enn einum. Það voru þung „skref“.“

„En hvað? Af hverju ertu að rifja þetta upp?“

„Vegna þess að þegar við stóðum við leiði Halldórs Laxness – við fórum að skoða það; ég hafði aldrei komið áður – þá var himinninn svo nálægur að það brakaði í kirkjuspírunni. Svo sást til borgarinnar – hún logaði í frumaftansólinni.“

Frumaftan …? En ætlaðir þú ekki að segja frá einhverjum bókum?“

„Jú. En þegar við stóðum þarna í Mosfellskirkjugarði í gær, þá fór Ó að tala um Innansveitarkróniku, og sú (ólesna) bók greip hug minn allan, og ég fór að hugsa um hana ólesna. Samt hafði ég bætt við bókabunkann sem ég ætlaði mér að tala um. Ég var meira að segja búinn að finna línurnar í Henderson the Rain King sem kveiktu á „báðum hliðum“ Joni Mitchell í flugvélinni – ég hafði ætlað að segja frá þeim. Það er skemmtileg saga. En þetta verður allt að bíða. Ég fékk meira að segja Kalak eftir Kim Leine í gær; hann J gaf mér hana.“

Þögn.

„Engin músík?“

„Nei.“

24. október 2017 (aukafærsla)

„Halló?“

„Sæll.“

„Eru þeir farnir?“

„Hverjir?“

„Þessir sem voru hérna áðan.“

„Áttu við draugana hérna áðan?“

„Draugana?“

„Þetta voru andar liðinna tíma – hafðu ekki áhyggjur. Hugsaðu bara um Scrooge. Og hættu síðan að hugsa um hann. Ef þeir koma aftur, þá er bara að skvetta á þá óvígðu vatni.“

„Óvígðu?“

„Vígt vatn hefur enga virkni á svona aðila.“

„Þannig að við notum bara blátt vatn?“

„Absolutely. Blátt vatn er það eina sem dugar.“

„Á svona aðila?“

„Já. Á svona aðila, eins og þú kallar þá réttilega. Þetta voru heldur betur aðilar. Ég hef ekki heyrt í svona miklum aðilum áður. Ég held þeir hljóti að vera félagar í einhverjum aðilasamtökum.“

„En verður ekki að hreinsa loftið?“

„Jú. Smá músík?“

„En ætluðum við ekki tala um einhverjar bækur?“

„Það verður að bíða. Setjum smá Antonín á fóninn.“

„Dorsjak?“

„Ef eitthvað hljómar rétt á svona fallegum þriðjudegi, fjórum dögum fyrir kosningar, þá er það Terzetto fyrir tvær fiðlur og lágfiðlu.“

„Láttu það koma. Láttu það koma. (Ég finn strax hvernig loftið einhvern veginn hreinsast af hinum staðna og fúla anda fortíðarinnar …)“

„Já, já. Ekki meira um það. Let´s rock.“