Þá er ég kominn úr Reykholtssveitinni. Það eru næstum tvær vikur síðan. Reyndar fór ég aftur þangað í millitíðinni – það gerist nefnilega flest í millitíðinni; það er þá sem hlutirnir gerast. Og í þessari millitíð hef ég eignast starfsfélaga – ég hef ekki haft starfsfélaga í að minnsta kosti hálfan annan áratug. Hann heitir Basil. Hann situr á skrifborðinu mínu, oftast á hvítum, útkrotuðum örkunum – hann vill ekki að ég sjái hvað stendur á þeim – og þegar ég þarf að sjá hvað stendur á þeim færi ég Basil yfir í stólinn á móti skrifborðinu, hinum megin í herberginu, og yfirleitt sættir hann sig við það. Hann vinnur þá bara þaðan. Basil fór til læknis í gær. Það var fyrsta heimsókn hans til læknisins. Hann fékk sprautu. Og var neyddur til að kyngja lítilli töflu. Svo fékk hann eins konar fótsnyrtingu. Heimsóknin til læknisins var svolítið ferðalag fyrir Basil, en hann jafnaði sig. (Sagði ekki eitthvert ísl. skáld að lífið gengi út á það að jafna sig?) Ég er sjálfur á leiðinni í ferðalag næstu helgi, en þegar ég kem aftur heim, þá er ég að hugsa um að horfa á einn eða tvo þætti af Fawlty Towers með Basil. Ég er ekkert viss um að hann hafi gaman af þeim. Og kannski leigi ég James Bond-mynd með Roger Moore, með það fyrir augum að minnast leikarans. Þegar fréttin um andlát hans birtist í fyrradag fannst mér eins og faðir minn hefði dáið aftur. Þeir voru ekkert líkir undir lokin – það er að segja Roger Moore aldraður var ekki svo líkur föður mínum – og kannski voru þeir alls ekkert líkir; en Roger Moore (áður en hann varð aldraður) minnti mig alltaf á pabba, og pabbi minnti mig á hann. Auðvitað var Roger Moore besti James Bond-leikarinn. Þetta með Sean Connery hef ég aldrei skilið. Svo fannst mér Pierce Brosnan fínn. Ég sá annars Pierce Brosnan í útför Sigurðar A. Magnússonar um daginn. Þar gekk hann undir nafninu Karl Th. Birgisson. Mér eiginlega dauðbrá. En ég hefi jafnað mig núna: ég hefi skrifað mig frá sjokkinu. En hvað næst? (Hvernig nálgast maður nýju Twin Peaks-þættina? Getur einhver hjálpað mér? Ég kláraði Better call Saul nr. 2 um daginn, og núna öskrar minn innri maður á Twin Peaks nr. 3.) Hvað næst? Þá á ég við: Hvað gerist núna í Næsta kafla? „Hvað eigum við að gera næst?“ eins og segir í Herman eftir Jim Unger. Ég þarf að hleypa Basil inn á skrifstofuna; hann er orðinn of seinn í vinnuna. Og kannski setja smá músík til að lokka hann inn um dyragættina:
Category: Uncategorized
11. maí 2017
Næsta kafla hefur borist bréf. Eða umsjónarmanninum öllu heldur, því bréfið var ekki stílað á „Kaflann“, ekki þannig lagað. Bréfið kom frá „eiturlyfjasalanum“, þeim sem ég sagði einu sinni frá hér í „Kaflanum“, þeim sem mig dreymdi að hefði verið að selja eiturlyf. Ég hef þó vit á að nefna ekki nafn hans, því ég geri mér grein fyrir að eftirlitsstofnanir og yfirvöld hafa ekki síður en ég og þú aðgang að öllu því sem fer á alheimsnetið. Auðvitað er minnsta mál fyrir fíkniefnalögregluna að skrolla sig í gegnum þessar færslur mínar, ef hún hefur áhuga á að vita hver hinn meinti eiturlyfjasali er – og verði henni að góðu. En þá mun hún líka komast að því að hin meinta eiturlyfjasala átti sér stað í draumi bloggarans. Og ekki ætla þeir hjá lögreglunni að byggja einhverja rannsókn á „draumgögnum“. En aftur að bréfinu frá hinum „meinta“ (sem héðan í frá verður nefndur Hinn meinti). Hinn meinti hafði lesið bloggið mitt, og það rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég las frá honum bréfið, að hann hafði lesið bloggið áður (einmitt þegar ég sagði frá draumi mínum um eiturlyfjasalann). Í gær eða fyrradag sagði ég frá því að ég hefði horft á bíómyndina Once upon a time in Anatolia eftir Nuri Bilge Ceylan, og Hinn meinti fór að segja mér frá kynnum sínum og upplifun af myndum Nuris; og hann sagði mér líka frá öðrum leikstjóra, írönskum, sem ég ætla að bíða með að nefna, þangað til ég hef sjálfur horft á mynd eftir hann. Best að vera ekki að dreifa of miklum gögnum án þess að þekkja þau. En hvað um það: ég fékk sem sagt bréf frá Hinum meinta; hann sendi það frá Reykjavík í Reykholtssveitina, og ég þarf auðvitað ekki að taka fram að bréfið var fljótara að berast en ég er að skrifa þessa færslu (og er ég þó fljótur að því). Eitthvað fleira minntist Hinn meinti á í bréfinu sínu, og ég á eflaust eftir að víkja að því síðar – mig langaði bara til að segja frá þessu til að láta vita að ég er alls ekkert einmana hér í fásinninu: á meðan maður á von á bréfasendingum er eins og beinlínis sé fjölmenni í kringum mann. En þá er komið að ferðalagi dagsins. Því allir dagar fela í sér að minnsta kosti eitt ferðalag. Og ekki dugir endalaust að segja frá einhverjum myndum sem maður horfir á, eða bókum sem maður les (eða horfir á). Ég ákvað að fara út með ruslið. Sem hér í sveitinni er meira en að fara niður einhverjar hæðir í einhverri lyftu, og út í sorpgeymslu. Hér eru engar lyftur eða eiginlegar sorpgeymslur. Hér í Síðunni þarf maður að labba svolitla vegalengd með ruslið, sé maður ekki á bíl, sem ég er ekki. Ég er ekki einu sinni á hjóli. Ég þarf að labba í átta mínútur að sorpgáminum, þannig að allt í allt tekur ferðalagið með ruslið um það bil 20 mínútur. Því auðvitað gerir maður smá stans við gáminn, fyrst maður er kominn þangað. Það tekur í sjálfu sér ekki nema nokkrar sekúndur að renna plasthurðinni frá opinu, og henda inn pokanum; en ég staldraði aðeins lengur við en það. Ég virti fyrir mér sorpið sem aðrir höfðu losað sig við (og þunna, gegnsæja plastpokann, þann sem ég henti sjálfur inn fyrir tveimur eða þremur dögum); ég sá meira að segja þessa fínu stunguskóflu sem einhver hafði hent í gáminn, að því er virtist ónotaðri; ég hefði klifrað inn í gáminn til að ná í hana, væri ég þannig innstilltur. Og ég er þannig innstilltur. En eitthvað aftraði mér frá því að fara inn í gáminn, líklega óttaðist ég að komast ekki aftur út úr honum, og slíkt gæti haft í för með sér alls kyns flækjur, ekki síst vegna þess að ég hef ekkert farartæki tiltækt, eins og ég nefndi, og ekki er útlit fyrir að fleira fólk sé á svæðinu (nema þá auðvitað á bóndabæjunum í sveitinni). En hvað myndi farartæki gagnast mér ef ég festist í gáminum? Gámurinn þyrfti að vera á hjólum, og þar af leiðandi með vél eða fótstigi. Sem er í sjálfu sér ekki slæm hugmynd: Sorpgámur á hjólum. En hvar var ég? Þegar ég hafði horft nægju mína inn í gáminn leit ég í smástund í átt að hlöðunni í hlíðinni, þeirri sem ég var búinn að segja frá (þar sem snærið hangir niður úr þvertrénu; og ég fékk meira að segja eina hugmynd sem ég held að geti nýst í „Tilbrigði mín við snöruna“ (í eina af sögunum fjórum). Síðan gekk ég aftur í bústaðinn. Vindurinn ferðaðist fjórtán metra á sekúndu. Líkami minn slóst til í verstu hviðunum (sem alveg örugglega mældust fleiri en fjórtán metrar), og þegar ég náði í bústaðinn (8 mín. osfrv.) fannst mér eins og ég væri uppþurrkaður af vindinum, að það væri ekkert eftir af mér, að vindurinn hefði beinlínis þurrkað upp efnið sem ég er búinn til úr, eins og maður þurrkar kaffið af eldhúsborðinu, það sem hellist út fyrir þegar maður hittir ekki í bollann. Og þegar ég ætlaði að ná í lykilinn í vasann, þá gerði ég mér grein fyrir að lykillinn var líka horfinn, alveg eins og ég. Þar af leiðandi hlýtur það að vera einhver annar en ég sem skrifar þessa færslu.
10. maí 2017
Nú veit ég hvað það var sem truflaði mig í gær, á meðan ég hlustaði á ódrukkinn Gísla Martein segja frá atburðarásinni í Kiev. Truflunin var sú tilfinning mín að Svala Björgvinsdóttir myndi ekki komast áfram í Júróvisjón. Ég nefnilega vissi að hún kæmist ekki áfram, rétt áður en sú staðreynd lá á borðinu; og ég vissi það líka (aðeins áður) eftir að ég hafði heyrt nokkur önnur lög í þessari evrópsku keppni (man reyndar ekki eftir að hafa heyrt ástralska lagið, og hið ísraelska – þessi keppni verður alltaf skrítnari með hverju árinu). Mig grunar að hið heilnæma sveitaloft í Borgarfirðinum hafi virkjað hina spámannslegu stöð í vitsmunalífi mínu. Ég varð allt í einu eins konar Weegee: ég kom á vettvang áður en hinir gerðu það; ég vissi betur, á undan hinum (án þess þó að segja frá því). Ég nefni Weegee bara vegna þess að rétt í þessu var ég að lesa í ævisögu Diane Arbus um starfsbróður hennar Weegee (hvers ljósmyndabók bíður mín heima í Reykjavík til að skoða, nú þegar ég hef lesið um hann) að nafnið hans, Weegee (hann var skírður Arthur Fellig), hafi orðið til út frá orðinu ouija, sbr. ouija-board, andaglas, vegna þess að Weegee vissi alltaf á undan öllum hinum ljósmyndurunum í New York ef einhver hafði verið myrtur í borginni, eða eitthvað ljósmyndunarvert (í myrkari kantinum) hafði gerst. En hvernig vissi hann það (burtséð frá andaglasinu og öllu því)? Eins og Áslaug á Grenimel var Weegee með lögregluradíó. Þannig að hann fékk upplýsingarnar um leið og löggan. En hið einmana skáld í Hvítársíðunni (bloggarinn í Borgarfirðinum) hefur ekki bara verið að lesa um Diane Arbus og Weegee (og Howard Nemerov, bróður Diane); það hefur líka – til að forða sjálfu sér frá því að fara í hlöðuna – skrifað um menn sem hengja sig í hlöðunni; það hefur fylgst með nýjasta „óþæginda“-máli Dónalds Trömp í fréttunum (og til hliðar með „óþægindum“ ísl. forsætisráðherrans, þótt fréttir af þeim „óþægindum“ séu orðnar gömul tíðindi, og væntanlega gleymdar); og það hefur tekið á móti tveimur góðum vinum (og góðum hundi) – en það var í gær – og það hefur jafnað sig á þeirri reynslu að horfa á Once upon a time in Anatolia með því að rifja upp Withnail & I (sem er auðvitað myndin til að horfa á í sveitinni, að minnsta kosti á meðan maður hefur ekki til taks The Straight Story). En svo er annað: veðrið í Hvítársíðunni (blóma Borgarfjarðar) er slíkt að húsið utan um skáldið hristist til á tíu til tólf mínútna fresti, líkt og um jarðskjálfta sé að ræða, og það er barið að utan með birkinu sem umlykur það. Það blæs. Og menn eru farnir að kvíða nóttinni. Þetta kallar á svefnlyf. Þetta kallar á það að maður endurskoði trúarskoðanir sínar, og lýsi yfir einhvers konar trúarsannfæringu. En aftur kemur upp spurningin um myndefni. Á ég að færa mynd úr myndavélinni yfir í tölvuna, og freista þess að birta hana? Nýlega mynd úr sveitinni?
9. maí 2017
Fyrir bloggara hafa síðustu dagar verið djúp uppspretta bloggs. Eurovision; enn eitt „óþæginda“-málið í nafni forsætisráðherra Íslands (sem auðvitað er óþægilegast fyrir alla aðra en hann); nýr franskur forseti í Frakklandi; sumar á Íslandi (í byrjun maí), en síðan aftur vetur (um miðjan maí); sveitaferð (bloggarans); Bjarni Bernharður og Rithöfundasamband Íslands (og öfugt); og þannig gæti ég haldið áfram að telja upp, eins og „enginn væri morgundagurinn“; en ég er með hugann við allt annað. Ég er með hugann við gömlu hlöðuna í sveitinni þar sem bloggarinn er staddur. Og snöruna (eða snærið) sem hangir niður úr þvertrénu í hlöðunni. Og nú sé ég fyrir mér að fólk – ég tala nú ekki um skyldmenni (sem reyndar munu fæst lesa þessa færslu) – fari að hafa áhyggjur. En geti maður valdið áhyggjum, þá á maður að grípa hvert tækifæri. Í gær gekk ég upp að vörðunum þremur efst í „Hlíðinni“. Ég kom ekki nálægt hlöðunni (ekki í þetta skiptið), en ég hugsaði þeim mun meira um þessa gömlu hlöðu (sem er til sölu á fasteignavefnum, ásamt jörðinni sem hún stendur á); og núna eru þær hugsanir að taka á sig form snörunnar, þeirrar sem hangir (óhnýtt) niður úr burðarbitanum efst í hlöðunni. „Snaran“ er með öðrum orðum saga (í fjórum hlutum; ég hef tilhneigingu til að skipta sögum upp í fjóra hluta – og nú man ég eftir sögu Jakóbínu Sigurðardóttur, Snörunni); hún er komin á blaðið að mestu leyti, uppkastið að henni – mér sýnist að það verði gerð mynd eftir henni). En núna er ég svolítið að hugsa um myndefnið sem ætti að fylgja þessari færslu, sérstaklega vegna þess að mér sýnist að sex dagar séu liðnir frá síðustu færslu (og þess vegna skulda ég lesendum gott myndefni). En það sem ég heyri frá Gísla Marteini sjónvarpsmanni í augnablikinu er eitthvað að trufla mig; hann (Gísli) er í þessum skrifuðu orðum að lýsa Eurovision-keppninni í Kænugarði; hann er búinn að segja svo margt, og það er engu líkara en að hann sé drukkinn. En auðvitað er hann ekki drukkinn, hann er að lýsa einhverri mest „sober“ samkomu sem haldin er í Evrópu, og varla er verið að halda að honum áfengi í Úkraínu. Það er ég sem hlýt að vera drukkinn. Ég er undir áhrifum frá hugmyndinni um snöruna. Og því hvernig ég muni líta út að innan þegar krufningin fer fram (þótt ég skilji ekki alveg hvers vegna krufning þarf að fara fram á manneskju sem kýs að fara í snöruna). Nei, ég er bara með hugann við myndina sem ég sá í gær (í DVD-tækinu): Once upon a time in Anatolia. Nuri Bilge Ceylan býr til einhverjar mögnuðustu bíómyndir sem ég hef séð. Vetrarsvefn (síðasta myndin hans) er ógleymanleg bíómynd (held ég; maður gæti hafa gleymt henni eftir einhver tíma), en þessi sem ég sá í gærkvöldi var jafnvel enn betri. En aftur að Gísla Marteini: ég er að hlusta á hann. Og næsta lag er Ísland – Svala.
3. maí 2017
Svo mikið af fínum bókum hefur hlaðist upp á borðinu hjá mér að undanförnu að ég er að kafna. Ég gæti ælt, eins og Jódínus Álfberg yfir öllum palísandernum sem þau hjónin höfðu komið sér upp. „It makes me puke,“ eins og segir í þýðingu Magnúsar Magnússonar. Skáldsagan Mannsævi eftir Robert Seethaler, sem var að koma út hjá Bjarti, situr mjög vel í mér; virkilega fín saga um ævi manns í fjallaþorpi í Ölpunum á síðustu öld. Ég var í fyrstu eitthvað hræddur um að hún yrði of „manneskjuleg“, eins og það er stundum nefnt, en hún slapp alveg við það. (Það er ekkert mannlegt við hana – djók.) Svo er það Birtan yfir ánni, nýtt safn ljóðaþýðinga eftir Gyrði Elíasson. Svo djúpur brunnur fínnar póesíu að maður læknast alveg af ógleðinni sem fylgir of stórum skammti af nýjum bókum. Frábærar þýðingar á Trakl, svo ég taki bara út eitt skáldið, en það sem er í mestu uppáhaldi í augnablikinu eru tvö ljóð ítalska skáldsins Patriziu Cavalli. Ég þekkti hana ekki áður. En nú þekki ég hana, þökk sé þessu safni. Frá Áslaugu Agnarsdóttur fékk ég skáldsögu Sergejs Dovlatov, Konu frá öðru landi. Ansi fín saga, og skemmtileg, og frábærlega læsileg þýðing. Um rússneska innflytjendur í Queens, New York. Maríja, útlenda konan, er komin í hið ameríska „frelsi“, en saknar „ófrelsisins“ og langar aftur heim, en slík ákvörðun er flókin: „Förum yfir staðreyndir málsins. Maríja Tatarovítsj nokkur yfirgefur ættjörðina. Síðan, sjáið til, biður Maríja Tatarovítsj um að fá að snúa aftur heim. Maður fær á tilfinninguna að ættjörðin sé ákveðin stærð sem hægt sé að skipta út eftir hentugleikum. Ef mig langar þá fer ég. Ef mér snýst hugur þá kem ég aftur. Eins og við séum stödd í matvöruverslun eða hugsanlega á markaði. Þetta er í raun, þér fyrirgefið, andstyggilegt tilfelli landráðs. Þér verðið sem sagt að bæta fyrir brot yðar. Og aðeins að því loknu, félagi Tatarovítsj, verður ákveðið hvort yður verður hleypt aftur heim. Eða ekki. En jafnvel þá mun slík ákvörðun krefjast botnlausrar góðmennsku. Og meira að segja sósíalísk mannúð hefur sín takmörk.“ (bls. 132) Fleiri bækur? Jú. Ég er með tvær ævisögur Diane Arbus, hálfnaður með þá fyrri. Og er að hugsa um að panta af fornbókavefnum abebooks.co.uk aðra bók eftir Dovlatov. En myndefni (fyrst ég er á annað borð að tala um neyslu)? Ég horfði á mjög svo áhugaverða mynd eftir Terence Davies, Of Time and the City, eins konar óð um fæðingarborg hans, Liverpool. Myndin er byggð á gömlu myndefni og kvótum í bókmenntir og tónlist; á vissan hátt alveg svakalega tilgerðarleg mynd, en samt óskaplega sjarmerandi – og gaman að höfundi tækist að sneiða hjá Bítlunum (fyrir utan að spila brot úr Hippy Hippy Shake!) en taka Bruckner og Mahler fram yfir Ringo og félaga. Svo sá ég í gær mynd Godards, Le Mépris, með Brigitte Bardot og hinum óviðjafnanlega Michel Piccoli (og reyndar Jack Palance og Fritz Lang!), bíómynd sem er byggð á skáldsögu Albertos Moravia, Fyrirlitningu. Mæli eindregið með henni. Á yfirborðinu um rithöfundinn sem selur sig. Bardot leikur nánast meira með rassinum en andlitinu (og nú stenst ég ekki að rifja upp hið feminíska innlegg enska rithöfundarins Laurie Lee, „rassinn er andlit konunnar“ – samt mjög skrítið að þau orð hafi komið úr þeirri átt, en svo var mér sagt). Meira myndefni? Ég sá mynd Ólafs Rögnvaldssonar, Línudans. Gott hjá Kastljósi að fylgja þeirri fínu mynd eftir með viðtali við forstjóra Landsnets. „Týnda skýrslan“ minnti mjög harkalega á raðlygar forsætisráðherra vors.
26. apríl 2017
Um daginn var ég beðinn um að lesa upp ljóð á einhvers konar karaókíljóðakvöldi á Gauki á Stöng núna á föstudaginn. Ég sem hélt að Gaukur á Stöng héti eitthvað allt annað í nútímanum. Hét hann ekki Halló eða Bravó, eitthvað svoleiðis? Nei, hann heitir Gaukur á Stöng. Eða Gunnar á Stöng, eins og Siggi, sá sem vann með mér á Bögglapóststofunni, kallaði hann einhvern tíma (án þess að reyna að vera fyndinn). Hann sagði reyndar ekki Gunnar á Stöng – ég hefi gleymt hvað það var sem hann sagði. En allavega fór hann rangt með nafnið, hann Bögglapóststofu-Siggi. En ég ætlaði ekki að tala um hann. Ég ætlaði að tala um ljóðakvöldið. Prógramm upplesara á föstudaginn á að felast í því að lesa upp tvö eigin ljóð, og önnur tvö eftir annan höfund. Þetta hefur valdið mér miklum heilabrotum (jafn illa og mér er við það orð, heilabrot). Ég er kominn langleiðina með að ákveða hvaða ljóð ég muni lesa eftir sjálfan mig, en það er erfiðara að velja hin ljóðin. Ósjálfrátt verður mér alltaf hugsað til Vitezslavs Nezval, þegar kemur að því að hugsa um útlensk ljóðskáld, en ég er samt að hugsa um að finna eitthvað annað að þessu sinni. Mér datt líka í hug Tristan Tzara – ég las upp ljóð eftir hann í veislu um daginn, reyndar bara fyrsta erindið af þremur, úr ljóði hans Dada-söngur (drekkið vatn blátt, osfrv.) – en aftur hugsaði ég með mér að ég ætti að finna eitthvað annað en Tristan Tzara til að lesa á föstudaginn. Ég bara get ekki ákveðið hvað það skal verða. Á meðan – líka til að leyfa þessum miðvikudegi að líða við eitthvað annað en að velta þessu fyrir mér endalaust – langar mig til að pikka inn þýðingu Gyrðis Elíassonar á ljóði Nezvals, Klukkan í gamla gyðingahverfinu:
Meðan tíminn geysist burt á Príkopy-stræti
einsog hjólreiðakappi sem heldur að hann geti sigrað vél dauðans
þá ert þú einsog klukkan í gyðingahverfinu með vísana sem ganga rangsælis
ef dauðinn kæmi mér að óvörum mundi ég deyja sem sex ára gamall drengur
22. apríl 2017
Það er með ólíkindum hversu líkir þeir B og V eru. Ég myndi birta af þeim myndir ef mér fyndist í lagi að láta V vita af þessum ólíkindalegu líkindum – B er náttúrlega ekki lengur á lífi (náttúrlega segi ég, vitandi að fólk hefur ekki hugmynd um við hverja er átt) – ég er meira að segja búinn að finna réttu myndirnar af þeim B og V til að renna stoðum undir þessa fullyrðingu mína. En mér finnst ekki rétt að vera að senda þetta út á veraldarvefinn – ég þekki V ekki nógu vel til að vita hvernig hann tæki þessu. Svo er auðvitað annað: í sumum tungumálum er B og V í raun sami stafurinn. En í staðinn fyrir myndir af V og B ætla ég að láta fylgja færslunni hina klassísku mynd af fyrrverandi forseta Íslands og Benedikt sextánda – sú mynd er ekki síður með ólíkindum, þótt aldrei verði annarri mynd líkt við hana.
Svo er ekkert annað eftir en að gleðjast yfir því að bók Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler, skyldi fá evrópsk bókmenntaverðlaun. Maður gleðst vegna þess hversu fín bókin er, en það kætir mann líka – á allt annan hátt – að enginn útgefandi vildi sjá þessa sögu á sínum lista, ekki fyrr en tímaritröðin 1005 tók til starfa, þá var sagan loksins prentuð, og síðan gefin út á almennum markaði af bókaútgáfunni Sæmundi, eftir að sagan fékk Fjöruverðlaunin.
20. apríl 2017 (aukafærsla – í tilefni af sumardeginum fyrsta)
Ég tek allt til baka sem ég sagði um sumardaginn fyrsta í fyrri færslu dagsins. Sumardagurinn fyrsti er góður dagur, og uppbyggjandi fyrir – ég segi ekki líkama, en að minnsta kosti sál. Barnið fær nýja strigaskó (eftir að hafa spænt upp þeim gömlu á snævilögðum strætum borgarinnar), og ég fæ (eða fékk, því það gerðist í gær, á miðvikudeginum) nýjustu plötuna með Iggy Pop, Post Pop Depression. Það er sem sagt mín sumargjöf í ár. Og engin smá gjöf! Faðir minn heitinn varð alltaf mjög kátur þegar hann heyrði nafnið Iggy Pop (þótt hann vissi svo sem ekki mikið um manninn á bakvið það nafn, James Newell Osterberg) – ég varð ekki minna kátur þegar ég hlustaði á þessa nýju plötu Iggys. Hún er mikið fín. Mikið rokk. En líka popp innan í rokkinu: Post Pop Depression. Ég ætla ekki að taka fulla ábyrgð á þeirri skoðun minni, en ég held að titillinn passi vel við plötuna. Hljómurinn er svolítið eins og hann sé búinn til í kringum 1980. Og hér er fyrsta línan í laginu Sunday: This house is as slick as a senator´s statement …
20. apríl 2017
Rugl dagsins: Sumardagurinn fyrsti.
Nú rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði einu sinni útvarpsleikrit sem kallaðist Sumardagurinn fyrsti, og það var flutt í Ríkisútvarpinu, þó ekki á sumardeginum fyrsta (ef ég man rétt). Eggert Þorleifsson lék ekki í því. Það að hinn íslenski sumardagur nr. 1 sé rugl, eins og staðfestist þegar horft er út um gluggann í augnablikinu, eða flett upp á vedur.is, var ekki beinlínis eitt af þemum þessa útvarpsleikrits, en þó gerðist leikritið á föstudegi en ekki fimmtudegi; aðalpersónan (sem Randver Þorláksson lék) tók feil: hann hélt að það væri sumardagurinn fyrsti, en auðvitað hafði hann rangt fyrir sér, því sumardagurinn fyrsti á Íslandi er alltaf á fimmtudegi. Íslenska sumarið hefst alltaf á fjórða degi vikunnar. Og þá er gefið frí í skólum og opinberum stofnunum, til að námsfólk og skrifstofufólk geti farið upp í Heiðmörk eða sett eldhúskollinn út á gangstétt og notið þess sem þriðja árstíð ársins hefur upp á að bjóða. Sem er fjögurra stiga hiti í Reykjavík (á hádegi), og tveggja stiga frost í Bolungarvík. Það þarf að endurskoða þetta með sumardaginn fyrsta, eins og ég minntist á hér í gær. Kannski felst lausnin í því að hafa hann á öðrum degi en fimmtudegi? Ef til vill á mánudegi. Eða bara sjálfum hvíldardeginum, til að fæstir þurfi að fara út fyrir hússins dyr, og geti bara hreiðrað um sig undir sæng (og hlustað á útvarpsleikrit eða lesið í „góðri“ bók).
19. apríl 2017
„Hann er búinn að finna hagkvæmustu lausnina fyrir ríkið til að losa sig við sjúkklinga.“ (af einhverjum netmiðli í gær)
Hvað er þetta með Íslendinga þegar kemur að frídögum? Það eru nokkrar vikur síðan við höfðum jól. Og svo koma páskar. Páskadagur er á sunnudegi. Og svo kemur næsta vika: mánudagur (annar í páskum, hvergi annars staðar í heiminum – hver fann upp annan í páskum?); þriðjudagur (starfsdagur í skóla barnsins, að minnsta kosti í Vesturbæjarskóla, sem þýðir að kennarar mæta til vinnu – er okkur sagt – en ekki börnin); miðvikudagur (raunverulegur skóladagur: barnið mætir í skólann, orðið afhuga skóla, og í raun búið að gleyma að það gekk í skóla); fimmtudagur (sumardagurinn fyrsti, frí í skólanum fyrir börn og kennara: önnur alíslensk uppfinning, sérstaklega umhugsunarverð í ljósi þess að sumar kemur ekki á Íslandi fyrr en í maí/júní, stundum ekki fyrr en í júlí/ágúst); föstudagur (annar skóladagur vikunnar; börnunum boðið að koma í skólastofuna í annað sinn í vikunni); svo kemur helgi (tveir frídagar, almennt verðskuldaðir, en varla miðað við það sem á undan er gengið í „eftirpáskavikunni“). Það þarf að taka þetta til endurskoðunar. Ég má bara ekki vera að því; ég má engan tíma missa, ég þarf að yrkja.
Smá músík:
14. apríl 2017
Fyrir tveimur árum sat ég þar sem ég sat rétt áðan, á Bláu könnunni í Hafnarstræti á Akureyri, og kepptist við að skrifa ákveðið músíkprógramm sem ég var með í Ríkisútvarpinu. Á meðan (fyrir tveimum árum) var samferðafólk mitt (það nánasta, það er að segja) að sinna snjóíþróttum í hlíðum Hlíðarfjalls. Í dag var erindi mitt á kaffihúsið aftur á móti annað (fyrir utan auðvitað að kaupa veitingar): að lesa yfir það sem ég er búinn með af skáldsögu sem á að koma út í haust. Sú skáldsaga er eiginlega hálfgert músíkprógramm líka, eins og verkefnið fyrir Ríkisútvarpið. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að tala um hér, á löngum föstudegi í Norðrinu. Þegar ég sat inni á Bláu könnunni í dag, sem er eftirlætiskaffihús mitt á Norðurlandi, hver kemur þá inn á staðinn nema prestur sem ég þekki í sjón (ekki að öðru leyti). Að vísu hitti ég líka Bjarna Harðarson og Elínu (frá Selfossi – hvað voru þau að gera hér í Norðrinu, þegar hlýtur að vera ansi brýnt að sinna kaffihúsinu þeirra í Suðrinu, núna um páskana?), og ég talaði svolítið við þau Bjarna og Elínu – þeim fannst ábyggilega heldur fyndið að sjá rithöfund af höfuðborgarsvæðinu vera að vinna á kaffihúsi (mér fannst það sjálfum heldur fyndið). En presturinn. Ég talaði ekkert við hann (hann, sem er reyndar hún) á meðan við sátum inni á Bláu könnunni, en svo vildi svo til að við fórum samtímis út af Könnunni (út í kuldann í Hafnarstrætinu), og þá notaði ég tækifærið, vatt mér að honum (henni), og spurði glaðhlakkalega: „Prestur á föstudeginum langa inni á kaffihúsi?“ Og hann (hún) svaraði: „Þú lofar að segja ekki neinum.“ En núna er ég búinn að segja frá því.
12. apríl 2017
Ég hefi ákveðið að stofna Kommúnistaflokk Íslands. Ekki samt ég sjálfur, heldur maður sem ég þekki. Og raunar er það ekki heldur sá maður, heldur allt annar. Flokkurinn verður stofnaður (sem ef til vill er ekki rétt orðalag; það er kannski nákvæmara að tala um að blásið verði lífi í lík hans) þann 17. júní nk., og í merki flokksins verður mynd af andliti Barrys Manilow (sem núna er nýkominn út úr skápnum sem hómósexúal). Stofnfundur verður haldinn í Hólavallakirkjugarði, miðja vegu milli Suðurgötu og Ljósvallagötu, og tímasetning fundarins vel valin; hann mun hefjast klukkustund áður en borgarstjóri Reykjavíkur (Dagur B. Eggertsson) kemur inn í garðinn ásamt sínu fólki og leggur blómsveig að leiði Friðriks Friðrikssonar skátahöfðingja. En nú að klæðnaði flokksmanna Kommúnistaflokksins. Þeim verður gert að klæðast bláum Paul Auster-gallabuxum (sömu tegund og Gunnar Smári Egilsson hannaði fyrir bókaútgáfuna Bjart fyrir rúmlega tuttugu árum), og hafa merki í jakkaboðungnum með myndinni af Barry Manilow. Þessar reglur munu gilda jafnt um konur og karla. Ég, sem er ekki stofnandi flokksins, eins og fyrr segir, heldur einungis sá sem segir af honum tíðindin, varð kommúnisti ungur. Það gerðist þegar ég las ljóð hins sænska Harrys Martinson, Sæsímaskip, í þýðingu Jóns úr Vör. Seinna hætti ég þó að vera kommúnisti. Það gerðist þegar ég seldi fjármálafyrirtækinu Gamma í Garðastræti langa smásögu, byggða á reynslu minni frá Bögglapóststofunni í Tryggvagötu. Nú (árið 2017) er hins vegar svo komið (fyrir mér) að ég hefi aftur gerst kommúnisti. Það gerðist núna mjög nýlega, þegar ég las ljóð Harrys Martinson, Sæsímaskip, aftur. Ég fékk nefnilega í hendurnar nýja heildarútgáfu bókaforlagsins Dimmu á ljóðum og ljóðaþýðingum Jóns úr Vör, ansi hreint fína bók. Nú grunar mig – og það segir sig eiginlega alveg sjálft – að lesendur þessa fréttapistils sjái fyrir sér að ljóð Harrys verði lesið í Hólavallagarðinum við stofnun Kommúnistaflokksins. En það mun ekki gerast. Á stofnfundinum verður enginn lestur. Þar verður þvert á móti hrein þögn (sem reyndar er alltaf blönduð einhverjum hljóðum, í nágrenni Suðurgötu), til að leggja áherslu á hversu fánýtur og tilgangslaus hann verður, hávaðinn sem mun fylgja komu borgarstjóra inn í garðinn, þegar hann, með sínum embættismönnum og áhangendum, stormar í áttina að leiði skátahöfðingjans með sín málmgjöll og blómsveiga. Aftur á móti ætla ég að birta hér á síðunni ljóð Harrys Martinson, nú þegar ljóðið hefur tvívegis á ævi minni gert mig að kommúnista. Það flögraði að mér að láta fylgja ljóðinu lag sungið af „merkisbera“ Kommúnistaflokksins, Barry Manilow (sem hefði verið vel við hæfi: Harry / Barry, osfrv.), en svo fannst mér meira viðeigandi að láta þögn umlykja Sæsímaskipið, ekki bara til að vísa í sæstrenginn í hafinu, heldur líka til að minna á þá þögn sem mun ríkja að morgni 17. júní nk., þegar Kommúnistaflokkur Íslands verður stofnaður (og letraður í stein) í Hólavallagarði, rétt hjá þeim stað þar sem gamla líkhúsið stóð.
Sæsímaskip
eftir Harry Martinson
Á fimmtándu gráðu norðlægrar breiddar og sextándu vesturlengdar,
milli Barbadó og Tortúgu hófum við sæsímastrenginn úr djúpi Atlantshafsins,
brugðum ljóskerum okkar að sárinu
og bárum í það nýja gúmmíkvoðu.
Þegar við lögðum hlustir að trosnaða staðnum,
heyrðum við hvernig suðaði í strengnum.
– Það eru milljónakarlarnir í Montríol
og Jóhannesarborg að tala um Kúbusykurinn
og að lækka við okkur launin, sagði einn okkar.
Lengi stóðum við hugsi í skjóli vinnuljósanna,
við hinir þolinmóðu slæðendur sæstrengja,
svo sökktum við viðgerðum strengnum
í dýpi hafsins, þangað sem hann átti að vera.
11. apríl 2017
Það hlaut að koma að þessu:
http://www.visir.is/g/2017170419904/finnst-skelfilegt-ad-bf-hafi-leitt-sjalfstaedisflokkinn-til-valda
Ég átti samt aldrei von á að eftirfarandi myndi gerast; ég hafði bara ekki ímyndunarafl til að láta mér detta það í hug, svo óhugsandi er þetta einhvern veginn, og í raun alveg jafn fjarstæðukennt og að … nú dettur mér bara ekkert í hug sem er jafn fjarstæðukennt og þetta:
http://www.visir.is/g/2017170409457/barry-manilow-kemur-ut-ur-skapnum
Enskur hljóðmaður, sem sá um sviðshljóð fyrir Sykurmolana, sagði mér einu sinni sögu af Barry Manilow, sem hann vann fyrir (eða hóf störf fyrir) áður en hann „hoppaði upp í sæng“ með Sykurmolunum íslensku. Þegar hljóðmaðurinn skrifaði undir samninginn við umboðsskrifstofu Barrys um að vinna fyrir hann, var þar ákvæði þess efnis að hljóðmenn á sviðinu mættu aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, ávarpa Barry á meðan þeir væru að undirbúa tónleikana; öll samskipti við söngvarann þyrftu að fara í gegnum aðra aðila (sem ég man ekki lengur hverjir áttu að hafa verið). Hljóðmennirnir (og þá væntanlega annað „óbreytt“ starfsfólk í kringum apparat Barrys Manilow, eins og rótarar og ljósamenn og svoleiðis) máttu heldur ekki horfa í átt að stórstjörnunni. (Svolítið erfitt að skilja þetta, sérstaklega hvað varðar ljósamennina.) Nú, svo er ekki meira með það. Hljóðmaðurinn enski (sem ég man ekki heldur hvað heitir; ég þarf að láta Einar Örn rifja það upp fyrir mér) byrjaði að vinna að hljóðinu fyrir Barry, en á fyrsta degi varð honum á, ekki bara að horfa í áttina að „aðal“, heldur líka ávarpa hann (væntanlega hefur hann talið sig þurfa að spyrja um eitthvað í tengslum við hljóðið, mér dettur í hug að hann hafi viljað vita hvort nógu hátt væri stillt í mónitórunum, eitthvað í þá áttina). Hann einfaldlega gleymdi öllum ákvæðunum í samningnum sem sneru að samskiptum „óbreyttra“ og Barrys. Og hann var rekinn. Á staðnum. Sendur heim. Það fylgdi ekki sögunni hvað gerðist með hljóðið á tónleikunum það kvöld, en einhvern veginn hlýtur það að hafa reddast – í þessum bransa reddast allt einhvern veginn á endanum, eða gerði það (minnir mig) alltaf þegar ég starfaði í bransanum. Mér dettur í hug í þessu sambandi, út frá fréttinni á vísi punktur is um Barry og skápinn sem hann kom út úr, að óvitlaust hefði verið að hafa hann innan í einhvers konar skáp á sviðinu þegar hann var að „testa sándið“. Að honum hefði einfaldlega verið rúllað inn á sviðið í skáp á hjólum, þannig að enginn „óbreyttur“ hefði þurft að eiga á hættu að horfa í áttina að þeim gamla (sem var náttúrlega ekki gamall þá). Svo hefði Barry einfaldlega komið út úr skápnum þegar tónleikarnir byrjuðu. En núna er hann allavega kominn út úr skápnum – og ég skil það ekki. Það er ekkert sem benti til þess að Barry Manilow væri gay.
7. apríl 2017
Ástæðan fyrir því að þetta er yngra en t.d. maður á mínum aldri er sú að þetta er miklu ferskara en maður á mínum aldri (eða öfugt: ferskara > yngra). Samt er þetta ekki 50 ára, eins og nú er verið að halda upp á, heldur aðeins eldra, því platan var tekin upp ári áður en hún var gefin út. Og þá var ég fjögurra ára gamall (það er að segja þegar platan var hljóðrituð), og sirka 10 eða 12 ár þangað til ég eignaðist plötuna:
7. apríl 2017 (aukafærsla)
Ég veit ekki af hverju aukafærslan kemur á undan aðalfærslunni, en líklega er ástæðan sú að ég er að flýta mér (má engan tíma missa), og þegar maður flýtir sér, þá gerast mistök.
6. apríl 2017
5. apríl 2017 (aukafærsla)
Í Fréttablaðinu í dag spyr Kristján Guy Burgess sig þeirrar spurningar – og beinir henni þar með til lesenda blaðsins – hvað það sé sem forsætisráðherra Íslands geri í vinnunni sinni. Það hlýtur að vera eðlileg og réttmæt spurning, ef haft er í huga að Bjarni Benediktsson á að vera ráðherra landsins síns, en ekki bara flokksins (eða samtakanna) sem hann stýrir. Kristján Guy undrast yfir því að enn hafi Bjarni Benediktsson ekki hitt neina framámenn annarra þjóða, og notar þar til samanburðar heimsóknir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar út í heim, og samtöl hans við erlenda ráðamenn, þegar hann var forsætisráðherra. Kristján nefnir að Benedikt Jóhannesson sjái um efnahagsmál Íslands, og Guðlaugur Þór Þórðarson um varnar- og öryggismál. En eftir stendur spurningin (sem er yfirskrift pistilsins): Hvað gerir Bjarni? Í annarri grein í Fréttablaðinu í dag, sem vill svo til að er á sömu opnu og grein Kristjáns, spyr Kári Stefánsson Bjarna Benediktsson ýmissa spurninga, meðal annars út frá hinu „grunsamlega fálæti“ sem Bjarni Benediktsson sýnir af sér í tengslum við … kannski ekki í tengslum við allt, en að minnsta kosti óþægileg mál sem snerta bankasölu og flokkinn hans, og önnur sérhagsmunamál tengd Bjarna og flokknum hans; og svo fer Kári að tala um að ekki sé gott fyrir „pólitíkus að hrökkva í vörn“, eins og við vitum öll (nema hugsanlega kjósendur Sjálfstæðisflokksins) að Bjarni er gjarn á að gera þegar gengið er á hann í tengslum við óþægileg mál sem varða flokkinn hans og fjölskyldu, og hann sjálfan (og fjármál tengd öllum þessum aðilum: flokknum hans, fjölskyldu og honum sjálfum). Mér hefur alltaf fundist það furðuleg tilhugsun að þessi maður, Bjarni Benediktsson, skuli vera orðinn forsætisráðherra Íslands. Við höfum Guðlaug Þór Þórðarson (úr sömu samtökum og Bjarni) sem varnarmálaráðherra, og frænda Bjarna, Benedikt Jóhannesson, sem efnahagsmálaráðherra; en einhvern veginn er enginn í ríkisstjórn Íslands sem með réttu (eða góðri samvisku), sbr. grein Kristjáns Guy, er hægt að kalla forsætisráðherra. Mér dettur í hug í því sambandi nýr titill á Bjarna Benediktsson – varnarráðherra.
5. apríl 2017
4. apríl 2017
Ég veit ekki hvort Sigurður A. hefði haft gaman af þessu, eða hvort hann þekkti þetta, en þetta er grískt:
Nei, líklega var Sigurður of mikill dansari í sér til að kunna að meta þetta til fulls. En svo sé ég hann líka alveg fyrir mér finna rétt dansspor við þessa músík. Ég þekkti Sigurð ekki mikið, en nógu mikið til að vera honum þakklátur fyrir margt, ekki síst þýðingar hans á James Joyce – hann þurfti að finna upp nokkur erfið dansspor þar. Og mér fannst alltaf gaman að vera í kringum hann, og heyra hann tala, því mér fannst oft eins og munnur hans væri ekki nógu öflugt tæki til að hann gæti komið hugsunum sínum frá sér á réttum hraða. En umfram allt fannst mér Sigurður vera sérstaklega velviljaður manni.