26. apríl 2017

Um daginn var ég beðinn um að lesa upp ljóð á einhvers konar karaókíljóðakvöldi á Gauki á Stöng núna á föstudaginn. Ég sem hélt að Gaukur á Stöng héti eitthvað allt annað í nútímanum. Hét hann ekki Halló eða Bravó, eitthvað svoleiðis? Nei, hann heitir Gaukur á Stöng. Eða Gunnar á Stöng, eins og Siggi, sá sem vann með mér á Bögglapóststofunni, kallaði hann einhvern tíma (án þess að reyna að vera fyndinn). Hann sagði reyndar ekki Gunnar á Stöng – ég hefi gleymt hvað það var sem hann sagði. En allavega fór hann rangt með nafnið, hann Bögglapóststofu-Siggi. En ég ætlaði ekki að tala um hann. Ég ætlaði að tala um ljóðakvöldið. Prógramm upplesara á föstudaginn á að felast í því að lesa upp tvö eigin ljóð, og önnur tvö eftir annan höfund. Þetta hefur valdið mér miklum heilabrotum (jafn illa og mér er við það orð, heilabrot). Ég er kominn langleiðina með að ákveða hvaða ljóð ég muni lesa eftir sjálfan mig, en það er erfiðara að velja hin ljóðin. Ósjálfrátt verður mér alltaf hugsað til Vitezslavs Nezval, þegar kemur að því að hugsa um útlensk ljóðskáld, en ég er samt að hugsa um að finna eitthvað annað að þessu sinni. Mér datt líka í hug Tristan Tzara – ég las upp ljóð eftir hann í veislu um daginn, reyndar bara fyrsta erindið af þremur, úr ljóði hans Dada-söngur (drekkið vatn blátt, osfrv.) – en aftur hugsaði ég með mér að ég ætti að finna eitthvað annað en Tristan Tzara til að lesa á föstudaginn. Ég bara get ekki ákveðið hvað það skal verða. Á meðan – líka til að leyfa þessum miðvikudegi að líða við eitthvað annað en að velta þessu fyrir mér endalaust – langar mig til að pikka inn þýðingu Gyrðis Elíassonar á ljóði Nezvals, Klukkan í gamla gyðingahverfinu:

 

Meðan tíminn geysist burt á Príkopy-stræti

einsog hjólreiðakappi sem heldur að hann geti sigrað vél dauðans

þá ert þú einsog klukkan í gyðingahverfinu með vísana sem ganga rangsælis

ef dauðinn kæmi mér að óvörum mundi ég deyja sem sex ára gamall drengur

22. apríl 2017

Það er með ólíkindum hversu líkir þeir B og V eru. Ég myndi birta af þeim myndir ef mér fyndist í lagi að láta V vita af þessum ólíkindalegu líkindum – B er náttúrlega ekki lengur á lífi (náttúrlega segi ég, vitandi að fólk hefur ekki hugmynd um við hverja er átt) – ég er meira að segja búinn að finna réttu myndirnar af þeim B og V til að renna stoðum undir þessa fullyrðingu mína. En mér finnst ekki rétt að vera að senda þetta út á veraldarvefinn – ég þekki V ekki nógu vel til að vita hvernig hann tæki þessu. Svo er auðvitað annað: í sumum tungumálum er B og V í raun sami stafurinn. En í staðinn fyrir myndir af V og B ætla ég að láta fylgja færslunni hina klassísku mynd af fyrrverandi forseta Íslands og Benedikt sextánda – sú mynd er ekki síður með ólíkindum, þótt aldrei verði annarri mynd líkt við hana.

Svo er ekkert annað eftir en að gleðjast yfir því að bók Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler, skyldi fá evrópsk bókmenntaverðlaun. Maður gleðst vegna þess hversu fín bókin er, en það kætir mann líka – á allt annan hátt – að enginn útgefandi vildi sjá þessa sögu á sínum lista, ekki fyrr en tímaritröðin 1005 tók til starfa, þá var sagan loksins prentuð, og síðan gefin út á almennum markaði af bókaútgáfunni Sæmundi, eftir að sagan fékk Fjöruverðlaunin.

20. apríl 2017 (aukafærsla – í tilefni af sumardeginum fyrsta)

Ég tek allt til baka sem ég sagði um sumardaginn fyrsta í fyrri færslu dagsins. Sumardagurinn fyrsti er góður dagur, og uppbyggjandi fyrir – ég segi ekki líkama, en að minnsta kosti sál. Barnið fær nýja strigaskó (eftir að hafa spænt upp þeim gömlu á snævilögðum strætum borgarinnar), og ég fæ (eða fékk, því það gerðist í gær, á miðvikudeginum) nýjustu plötuna með Iggy Pop, Post Pop Depression. Það er sem sagt mín sumargjöf í ár. Og engin smá gjöf! Faðir minn heitinn varð alltaf mjög kátur þegar hann heyrði nafnið Iggy Pop (þótt hann vissi svo sem ekki mikið um manninn á bakvið það nafn, James Newell Osterberg) – ég varð ekki minna kátur þegar ég hlustaði á þessa nýju plötu Iggys. Hún er mikið fín. Mikið rokk. En líka popp innan í rokkinu: Post Pop Depression. Ég ætla ekki að taka fulla ábyrgð á þeirri skoðun minni, en ég held að titillinn passi vel við plötuna. Hljómurinn er svolítið eins og hann sé búinn til í kringum 1980. Og hér er fyrsta línan í laginu Sunday: This house is as slick as a senator´s statement …

20. apríl 2017

Rugl dagsins: Sumardagurinn fyrsti.

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

Nú rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði einu sinni útvarpsleikrit sem kallaðist Sumardagurinn fyrsti, og það var flutt í Ríkisútvarpinu, þó ekki á sumardeginum fyrsta (ef ég man rétt). Eggert Þorleifsson lék ekki í því. Það að hinn íslenski sumardagur nr. 1 sé rugl, eins og staðfestist þegar horft er út um gluggann í augnablikinu, eða flett upp á vedur.is, var ekki beinlínis eitt af þemum þessa útvarpsleikrits, en þó gerðist leikritið á föstudegi en ekki fimmtudegi; aðalpersónan (sem Randver Þorláksson lék) tók feil: hann hélt að það væri sumardagurinn fyrsti, en auðvitað hafði hann rangt fyrir sér, því sumardagurinn fyrsti á Íslandi er alltaf á fimmtudegi. Íslenska sumarið hefst alltaf á fjórða degi vikunnar. Og þá er gefið frí í skólum og opinberum stofnunum, til að námsfólk og skrifstofufólk geti farið upp í Heiðmörk eða sett eldhúskollinn út á gangstétt og notið þess sem þriðja árstíð ársins hefur upp á að bjóða. Sem er fjögurra stiga hiti í Reykjavík (á hádegi), og tveggja stiga frost í Bolungarvík. Það þarf að endurskoða þetta með sumardaginn fyrsta, eins og ég minntist á hér í gær. Kannski felst lausnin í því að hafa hann á öðrum degi en fimmtudegi? Ef til vill á mánudegi. Eða bara sjálfum hvíldardeginum, til að fæstir þurfi að fara út fyrir hússins dyr, og geti bara hreiðrað um sig undir sæng (og hlustað á útvarpsleikrit eða lesið í „góðri“ bók).

19. apríl 2017

„Hann er búinn að finna hagkvæmustu lausnina fyrir ríkið til að losa sig við sjúkklinga.“ (af einhverjum netmiðli í gær)

Hvað er þetta með Íslendinga þegar kemur að frídögum? Það eru nokkrar vikur síðan við höfðum jól. Og svo koma páskar. Páskadagur er á sunnudegi. Og svo kemur næsta vika: mánudagur (annar í páskum, hvergi annars staðar í heiminum – hver fann upp annan í páskum?); þriðjudagur (starfsdagur í skóla barnsins, að minnsta kosti í Vesturbæjarskóla, sem þýðir að kennarar mæta til vinnu – er okkur sagt – en ekki börnin); miðvikudagur (raunverulegur skóladagur: barnið mætir í skólann, orðið afhuga skóla, og í raun búið að gleyma að það gekk í skóla); fimmtudagur (sumardagurinn fyrsti, frí í skólanum fyrir börn og kennara: önnur alíslensk uppfinning, sérstaklega umhugsunarverð í ljósi þess að sumar kemur ekki á Íslandi fyrr en í maí/júní, stundum ekki fyrr en í júlí/ágúst); föstudagur (annar skóladagur vikunnar; börnunum boðið að koma í skólastofuna í annað sinn í vikunni); svo kemur helgi (tveir frídagar, almennt verðskuldaðir, en varla miðað við það sem á undan er gengið í „eftirpáskavikunni“). Það þarf að taka þetta til endurskoðunar. Ég má bara ekki vera að því; ég má engan tíma missa, ég þarf að yrkja.

Smá músík:

14. apríl 2017

Sögusvið Fjarverunnar: Akureyri

Fyrir tveimur árum sat ég þar sem ég sat rétt áðan, á Bláu könnunni í Hafnarstræti á Akureyri, og kepptist við að skrifa ákveðið músíkprógramm sem ég var með í Ríkisútvarpinu. Á meðan (fyrir tveimum árum) var samferðafólk mitt (það nánasta, það er að segja) að sinna snjóíþróttum í hlíðum Hlíðarfjalls. Í dag var erindi mitt á kaffihúsið aftur á móti annað (fyrir utan auðvitað að kaupa veitingar): að lesa yfir það sem ég er búinn með af skáldsögu sem á að koma út í haust. Sú skáldsaga er eiginlega hálfgert músíkprógramm líka, eins og verkefnið fyrir Ríkisútvarpið. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að tala um hér, á löngum föstudegi í Norðrinu. Þegar ég sat inni á Bláu könnunni í dag, sem er eftirlætiskaffihús mitt á Norðurlandi, hver kemur þá inn á staðinn nema prestur sem ég þekki í sjón (ekki að öðru leyti). Að vísu hitti ég líka Bjarna Harðarson og Elínu (frá Selfossi – hvað voru þau að gera hér í Norðrinu, þegar hlýtur að vera ansi brýnt að sinna kaffihúsinu þeirra í Suðrinu, núna um páskana?), og ég talaði svolítið við þau Bjarna og Elínu – þeim fannst ábyggilega heldur fyndið að sjá rithöfund af höfuðborgarsvæðinu vera að vinna á kaffihúsi (mér fannst það sjálfum heldur fyndið). En presturinn. Ég talaði ekkert við hann (hann, sem er reyndar hún) á meðan við sátum inni á Bláu könnunni, en svo vildi svo til að við fórum samtímis út af Könnunni (út í kuldann í Hafnarstrætinu), og þá notaði ég tækifærið, vatt mér að honum (henni), og spurði glaðhlakkalega: „Prestur á föstudeginum langa inni á kaffihúsi?“ Og hann (hún) svaraði: „Þú lofar að segja ekki neinum.“ En núna er ég búinn að segja frá því.

12. apríl 2017

Ég hefi ákveðið að stofna Kommúnistaflokk Íslands. Ekki samt ég sjálfur, heldur maður sem ég þekki. Og raunar er það ekki heldur sá maður, heldur allt annar. Flokkurinn verður stofnaður (sem ef til vill er ekki rétt orðalag; það er kannski nákvæmara að tala um að blásið verði lífi í lík hans) þann 17. júní nk., og í merki flokksins verður mynd af andliti Barrys Manilow (sem núna er nýkominn út úr skápnum sem hómósexúal). Stofnfundur verður haldinn í Hólavallakirkjugarði, miðja vegu milli Suðurgötu og Ljósvallagötu, og tímasetning fundarins vel valin; hann mun hefjast klukkustund áður en borgarstjóri Reykjavíkur (Dagur B. Eggertsson) kemur inn í garðinn ásamt sínu fólki og leggur blómsveig að leiði Friðriks Friðrikssonar skátahöfðingja. En nú að klæðnaði flokksmanna Kommúnistaflokksins. Þeim verður gert að klæðast bláum Paul Auster-gallabuxum (sömu tegund og Gunnar Smári Egilsson hannaði fyrir bókaútgáfuna Bjart fyrir rúmlega tuttugu árum), og hafa merki í jakkaboðungnum með myndinni af Barry Manilow. Þessar reglur munu gilda jafnt um konur og karla. Ég, sem er ekki stofnandi flokksins, eins og fyrr segir, heldur einungis sá sem segir af honum tíðindin, varð kommúnisti ungur. Það gerðist þegar ég las ljóð hins sænska Harrys Martinson, Sæsímaskip, í þýðingu Jóns úr Vör. Seinna hætti ég þó að vera kommúnisti. Það gerðist þegar ég seldi fjármálafyrirtækinu Gamma í Garðastræti langa smásögu, byggða á reynslu minni frá Bögglapóststofunni í Tryggvagötu. Nú (árið 2017) er hins vegar svo komið (fyrir mér) að ég hefi aftur gerst kommúnisti. Það gerðist núna mjög nýlega, þegar ég las ljóð Harrys Martinson, Sæsímaskip, aftur. Ég fékk nefnilega í hendurnar nýja heildarútgáfu bókaforlagsins Dimmu á ljóðum og ljóðaþýðingum Jóns úr Vör, ansi hreint fína bók. Nú grunar mig – og það segir sig eiginlega alveg sjálft – að lesendur þessa fréttapistils sjái fyrir sér að ljóð Harrys verði lesið í Hólavallagarðinum við stofnun Kommúnistaflokksins. En það mun ekki gerast. Á stofnfundinum verður enginn lestur. Þar verður þvert á móti hrein þögn (sem reyndar er alltaf blönduð einhverjum hljóðum, í nágrenni Suðurgötu), til að leggja áherslu á hversu fánýtur og tilgangslaus hann verður, hávaðinn sem mun fylgja komu borgarstjóra inn í garðinn, þegar hann, með sínum embættismönnum og áhangendum, stormar í áttina að leiði skátahöfðingjans með sín málmgjöll og blómsveiga. Aftur á móti ætla ég að birta hér á síðunni ljóð Harrys Martinson, nú þegar ljóðið hefur tvívegis á ævi minni gert mig að kommúnista. Það flögraði að mér að láta fylgja ljóðinu lag sungið af „merkisbera“ Kommúnistaflokksins, Barry Manilow (sem hefði verið vel við hæfi: Harry / Barry, osfrv.), en svo fannst mér meira viðeigandi að láta þögn umlykja Sæsímaskipið, ekki bara til að vísa í sæstrenginn í hafinu, heldur líka til að minna á þá þögn sem mun ríkja að morgni 17. júní nk., þegar Kommúnistaflokkur Íslands verður stofnaður (og letraður í stein) í Hólavallagarði, rétt hjá þeim stað þar sem gamla líkhúsið stóð.

 

Sæsímaskip

eftir Harry Martinson

 

Á fimmtándu gráðu norðlægrar breiddar og sextándu vesturlengdar,

milli Barbadó og Tortúgu hófum við sæsímastrenginn úr djúpi Atlantshafsins,

brugðum ljóskerum okkar að sárinu

og bárum í það nýja gúmmíkvoðu.

 

Þegar við lögðum hlustir að trosnaða staðnum,

heyrðum við hvernig suðaði í strengnum.

– Það eru milljónakarlarnir í Montríol

og Jóhannesarborg að tala um Kúbusykurinn

og að lækka við okkur launin, sagði einn okkar.

 

Lengi stóðum við hugsi í skjóli vinnuljósanna,

við hinir þolinmóðu slæðendur sæstrengja,

svo sökktum við viðgerðum strengnum

í dýpi hafsins, þangað sem hann átti að vera.

11. apríl 2017

Það hlaut að koma að þessu:

http://www.visir.is/g/2017170419904/finnst-skelfilegt-ad-bf-hafi-leitt-sjalfstaedisflokkinn-til-valda

Ég átti samt aldrei von á að eftirfarandi myndi gerast; ég hafði bara ekki ímyndunarafl til að láta mér detta það í hug, svo óhugsandi er þetta einhvern veginn, og í raun alveg jafn fjarstæðukennt og að … nú dettur mér bara ekkert í hug sem er jafn fjarstæðukennt og þetta:

http://www.visir.is/g/2017170409457/barry-manilow-kemur-ut-ur-skapnum

Enskur hljóðmaður, sem sá um sviðshljóð fyrir Sykurmolana, sagði mér einu sinni sögu af Barry Manilow, sem hann vann fyrir (eða hóf störf fyrir) áður en hann „hoppaði upp í sæng“ með Sykurmolunum íslensku. Þegar hljóðmaðurinn skrifaði undir samninginn við umboðsskrifstofu Barrys um að vinna fyrir hann, var þar ákvæði þess efnis að hljóðmenn á sviðinu mættu aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, ávarpa Barry á meðan þeir væru að undirbúa tónleikana; öll samskipti við söngvarann þyrftu að fara í gegnum aðra aðila (sem ég man ekki lengur hverjir áttu að hafa verið). Hljóðmennirnir (og þá væntanlega annað „óbreytt“ starfsfólk í kringum apparat Barrys Manilow, eins og rótarar og ljósamenn og svoleiðis) máttu heldur ekki horfa í átt að stórstjörnunni. (Svolítið erfitt að skilja þetta, sérstaklega hvað varðar ljósamennina.) Nú, svo er ekki meira með það. Hljóðmaðurinn enski (sem ég man ekki heldur hvað heitir; ég þarf að láta Einar Örn rifja það upp fyrir mér) byrjaði að vinna að hljóðinu fyrir Barry, en á fyrsta degi varð honum á, ekki bara að horfa í áttina að „aðal“, heldur líka ávarpa hann (væntanlega hefur hann talið sig þurfa að spyrja um eitthvað í tengslum við hljóðið, mér dettur í hug að hann hafi viljað vita hvort nógu hátt væri stillt í mónitórunum, eitthvað í þá áttina). Hann einfaldlega gleymdi öllum ákvæðunum í samningnum sem sneru að samskiptum „óbreyttra“ og Barrys. Og hann var rekinn. Á staðnum. Sendur heim. Það fylgdi ekki sögunni hvað gerðist með hljóðið á tónleikunum það kvöld, en einhvern veginn hlýtur það að hafa reddast – í þessum bransa reddast allt einhvern veginn á endanum, eða gerði það (minnir mig) alltaf þegar ég starfaði í bransanum. Mér dettur í hug í þessu sambandi, út frá fréttinni á vísi punktur is um Barry og skápinn sem hann kom út úr, að óvitlaust hefði verið að hafa hann innan í einhvers konar skáp á sviðinu þegar hann var að „testa sándið“. Að honum hefði einfaldlega verið rúllað inn á sviðið í skáp á hjólum, þannig að enginn „óbreyttur“ hefði þurft að eiga á hættu að horfa í áttina að þeim gamla (sem var náttúrlega ekki gamall þá). Svo hefði Barry einfaldlega komið út úr skápnum þegar tónleikarnir byrjuðu. En núna er hann allavega kominn út úr skápnum – og ég skil það ekki. Það er ekkert sem benti til þess að Barry Manilow væri gay.

7. apríl 2017

Ástæðan fyrir því að þetta er yngra en t.d. maður á mínum aldri er sú að þetta er miklu ferskara en maður á mínum aldri (eða öfugt: ferskara > yngra). Samt er þetta ekki 50 ára, eins og nú er verið að halda upp á, heldur aðeins eldra, því platan var tekin upp ári áður en hún var gefin út. Og þá var ég fjögurra ára gamall (það er að segja þegar platan var hljóðrituð), og sirka 10 eða 12 ár þangað til ég eignaðist plötuna:

 

5. apríl 2017 (aukafærsla)

Í Fréttablaðinu í dag spyr Kristján Guy Burgess sig þeirrar spurningar – og beinir henni þar með til lesenda blaðsins – hvað það sé sem forsætisráðherra Íslands geri í vinnunni sinni. Það hlýtur að vera eðlileg og réttmæt spurning, ef haft er í huga að Bjarni Benediktsson á að vera ráðherra landsins síns, en ekki bara flokksins (eða samtakanna) sem hann stýrir. Kristján Guy undrast yfir því að enn hafi Bjarni Benediktsson ekki hitt neina framámenn annarra þjóða, og notar þar til samanburðar heimsóknir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar út í heim, og samtöl hans við erlenda ráðamenn, þegar hann var forsætisráðherra. Kristján nefnir að Benedikt Jóhannesson sjái um efnahagsmál Íslands, og Guðlaugur Þór Þórðarson um varnar- og öryggismál. En eftir stendur spurningin (sem er yfirskrift pistilsins): Hvað gerir Bjarni? Í annarri grein í Fréttablaðinu í dag, sem vill svo til að er á sömu opnu og grein Kristjáns, spyr Kári Stefánsson Bjarna Benediktsson ýmissa spurninga, meðal annars út frá hinu „grunsamlega fálæti“ sem Bjarni Benediktsson sýnir af sér í tengslum við … kannski ekki í tengslum við allt, en að minnsta kosti óþægileg mál sem snerta bankasölu og flokkinn hans, og önnur sérhagsmunamál tengd Bjarna og flokknum hans; og svo fer Kári að tala um að ekki sé gott fyrir „pólitíkus að hrökkva í vörn“, eins og við vitum öll (nema hugsanlega kjósendur Sjálfstæðisflokksins) að Bjarni er gjarn á að gera þegar gengið er á hann í tengslum við óþægileg mál sem varða flokkinn hans og fjölskyldu, og hann sjálfan (og fjármál tengd öllum þessum aðilum: flokknum hans, fjölskyldu og honum sjálfum). Mér hefur alltaf fundist það furðuleg tilhugsun að þessi maður, Bjarni Benediktsson, skuli vera orðinn forsætisráðherra Íslands. Við höfum Guðlaug Þór Þórðarson (úr sömu samtökum og Bjarni) sem varnarmálaráðherra, og frænda Bjarna, Benedikt Jóhannesson, sem efnahagsmálaráðherra; en einhvern veginn er enginn í ríkisstjórn Íslands sem með réttu (eða góðri samvisku), sbr. grein Kristjáns Guy, er hægt að kalla forsætisráðherra. Mér dettur í hug í því sambandi nýr titill á Bjarna Benediktsson – varnarráðherra.

5. apríl 2017

Orðið deiluskipulag finnst mér mjög gott orð. Alveg er ég viss um að ófyndna kynslóðin í íslenskum bókmenntum gæti hagnast af því að nota þetta orð yfir sínar innri deilur – og ytri.

4. apríl 2017

Ég veit ekki hvort Sigurður A. hefði haft gaman af þessu, eða hvort hann þekkti þetta, en þetta er grískt:

Nei, líklega var Sigurður of mikill dansari í sér til að kunna að meta þetta til fulls. En svo sé ég hann líka alveg fyrir mér finna rétt dansspor við þessa músík. Ég þekkti Sigurð ekki mikið, en nógu mikið til að vera honum þakklátur fyrir margt, ekki síst þýðingar hans á James Joyce – hann þurfti að finna upp nokkur erfið dansspor þar. Og mér fannst alltaf gaman að vera í kringum hann, og heyra hann tala, því mér fannst oft eins og munnur hans væri ekki nógu öflugt tæki til að hann gæti komið hugsunum sínum frá sér á réttum hraða. En umfram allt fannst mér Sigurður vera sérstaklega velviljaður manni.

30. mars 2017

Íslenska þjóðin, önnur en sú sem kaus Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Bjarta framtíð (eða hélt hún væri að kjósa Bjarta framtíð), hefur lært að trúa ekki orði af því sem forsætisráðherra vor lætur út úr sér. Ef forsætisráðherra segir að rannsókn á sölu ríkisins á Landsbankanum til Sjálfstæðismanna sé ekki aðkallandi er sú rannsókn mjög aðkallandi. Hún beinlínis æpir á að vera gerð. En Sjálfstæðisflokkurinn ræður. Af því að Björt framtíð vildi það.

ps. myndin af Geir Haarde utan á Fréttablaðinu í dag segir meira en mörg þúsund milljón orð. Þetta er sá sem bað Guð að blessa tæplega helming þjóðarinnar. Sem Guð síðan gerði.

Unknown

27. mars 2017

north-korea-defense_19884920192_o.width-720

Þegar myndir birtast í fjölmiðlum af „krúttinu“ Kim Jong-un og glaðhlakkalegri hjörð hans af herforingjum, eða hvaða nafnbót þeir hafa, hinir orðumprýddu herramenn sem standa að baki honum, þá eru hinir síbrosandi norðurkóresku kammerherrar alltaf með minnisbækur og penna uppi við, að punkta eitthvað niður hjá sér, á meðan Kim Jong-un brosir sínu breiðasta framan í myndavélina (eða öllu heldur framhjá myndavélinni, í áttina þangað sem enginn hefur horft áður, nema þá hugsanlega faðir hans og afi). Óneitanlega spyr maður sjálfan sig hvað þeir séu að punkta niður í minnisbækurnar, hinir glaðbeittu. Ég er í augnablikinu að lesa smásagnasafnið eftir dulnefnið Bandi (Eldfluguna), The Accusation; bókina sem smyglað var út úr Norður-Kóreu. Og þess vegna dettur mér í hug að það sem stöðugt er verið að skrá í norðurkóreskar minnisbækur, í návist Kims hins unga, séu hugmyndir að nýjum smásögum sem ætlað er að mynda sanngjarnt mótvægi við þær sögur sem nú hafa birst (utan Norður-Kóreu) um norðurkóreskan raunveruleika. Af lífsgleðinni sem skín út úr andlitum þeirra sem halda á minnisbókunum má ætla að þetta séu frekar skemmtilegar hugmyndir sem þeir eru að skrá hjá sér. Og það verður engin ástæða til að birta þær undir dulnefni.

25. mars 2017

Ljóð dagsins í dag, laugardag, á þessum síendurteknu Dögum ljóðsins, er aldrei þessu vant einmitt ljóð. Eða byrjun á ljóði. Áður en ég setti myndina eftir Ensor í gær hafði ég ætlað mér að velja nokkrar línur úr þýðingu Jóns Óskars á ljóði Apollinaires, Zone (sem Jón kallar Útgarða), en þá fann ég hvergi bókina (ekkert skipulag á bókum heimilisins); en í dag, þegar ég skimaði betur yfir skápinn í stofunni blasti bókin við mér, Undir Parísarhimni, þýðingasafn Jóns Óskars (annað af tveimur). Og þegar ég fletti upp Útgörðum, þá sá ég strax að mér myndi ekki nægja að setja hér einungis þær tvær eða þrjár línur sem ég hafði ætlað mér, heldur pikka inn fyrstu erindi ljóðsins, því þetta er svo skemmtilega gert hjá Jóni – eða það finnst mér. Að vísu koma nokkrar einkennilegar línur þegar á líður þýðinguna (þetta er mjög langt ljóð), og stundum lætur Jón rímið leiða sig út í svolitla vitleysu. En hér eru fyrstu erindin – ég er sérstaklega hrifinn af línunum um bifreiðarnar, Píus páfa og prósann í blöðunum:

 

Loks ertu þreyttur á þessum gamla heimi

 

Smali Eiffelturn brúahjörðin jarmar á morgunsveimi

 

Þú hefur nógu lengi lifað við gríska og rómverska siði

 

Jafnvel bifreiðarnar hérna eru með afgömlu sniði

Trúin ein er alveg ný hún er ný trú lífs og sálar

einföld er hún líka einsog flughafnarskálar

 

Í Evrópu er ekki ýkja gamalt að vera kristinn maður

Píus páfi tíundi er þar mestur nútímamaður

Og þú sem fyrir gluggaaugum glúpnar megnar eigi

að ganga inn í kirkju til að skrifta á þessum degi

 

Þú lest áætlanir auglýsingar skrár sem syngja við raust

Það er ljóðlist þessa morguns og í prósa eru blöðin traust

Það eru tuttuguogfimmsentíma útgáfurnar fullar af lögregluþáttum

og myndum af helstu stórmennum og greinum úr öllum áttum

 

… osfrv.

24. mars 2017

Dagar ljóðsins verða fleiri og fleiri. Ljóð dagsins er mynd. Hún er eftir belgíska málarann James Ensor, úr seríu hans um dauðasyndirnar. Ég fékk þessa mynd senda frá Sauðárkróki um daginn, með þeim orðum að Hinn stolti á myndinni minnti allsláandi mikið á forsætisráðherra Íslands, og ef ég væri ekki sammála því, þá væri ég líklega ekki að birta myndina sem Ljóð dagsins:

23. mars 2017 (aukafærsla)

Í fyrri færslu dagsins, sem sett var inn fyrir varla meira en hálftíma, slæddist inn innsláttarvilla, sem mér finnst ekki annað við hæfi en að leiðrétta, sérstaklega vegna þess að um ljóð er að ræða. Í síðustu setningu fyrra erindis ljóðsins stóð „þð“, þar sem átti að standa „það“. Ég biðst velvirðingar á þessu, en ætla þó einungis að leiðrétta mistökin hér í aukafærslunni, og læt því villuna „halda sér“ í upprunalegu færslunni (því ef rétt skal vera rétt, þá er villan ekki upprunnin hjá mér, heldur þar sem ljóðið varð á vegi mínum, í fjölmiðlinum Stundinni á netinu). Hins vegar langar mig til að bæta við öðru ljóði, því enn standa yfir Dagar ljóðsins; ljóði sem að efni, og hugsanlega í stíl, tengist ljóði Brynjar Níelssonar frá í gær.

UM KAUP VOGUNARSJÓÐA Á HLUT Í ARIONBANKA

„Auðvitað er það nú kannski ekki það jákvæðasta sem maður heyrir en menn verða þó að hafa í huga að það er í sjálfu sér ekki ólöglegt að tengjast Caymaneyjum eða öðrum slíkum svæðum.“

(Óli Björn Kárason, formaður efnahagsnefndar, 22. mars 2017)